Fara í efni
Umræðan

Mendelssohn á Akureyri

Laugardaginn 7. júní, í hvítasunnnuhelginni, voru tónleikar Hljómsveitar Akureyrar í Hamraborg í Hofi. Þá var efnisskráin öll úr smiðju Felix Mendelssohns, hljómfögur og leikandi og jafnvel létt.

Hér á akureyri.net hefur verið sögð saga Hljómsveitar Akureyrar, sem Michael Clarke endurvakti nýverið, en þar gefst áhugahljóðfæraleikurum nú færi á að koma saman og vinna að krefjandi verkum, eins og gerist gjarnan á sinfóníuhljómsveitum áhugamanna. Það eru svo óskaplega margir sem læra lengi og vel hljóðfæraleik og söng án þess að fá við það atvinnu, en eru samt engir klaufar, öðru nær.

Hljómsveitin var að þessu sinni skipuð í kringum 30 hljóðfæraleikurum, sumum ungum og efnilegum, öðrum reyndari og fullorðnari, flestum héðan eða úr nágrenninu en nokkrum að sunnan, en þó með meiri eða minni tengingu hingað norður. Þetta var skemmtilegur og litríkur hópur.

Ekki var gefið út prógramm, en stjórnandinn Michael Clarke kynnti og skýrði verkin, það heyrðist reyndar ekki allt vel út í salinn, en það er önnur saga. Ég man ekki nákvæmlega röðina á verkunum, en þarna lék hljómsveitin Suðureyjaforleikinn, Hella Finegals, sem var prýðileg veðurlýsing frá þessum brimsorfnu eyjum við Skotlandsstrendur. Ætli númer tvö hafi ekki verið magnaður fiðlukonsert í e-moll, en þar spratt fram á sviðið Helga Diljá Jörundsdóttir, flottur fiðluleikari að sunnan, sem hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga. Hún var líka frábær. Þá söng Ragnar Gunnarsson aríu úr óperunni Elías. Það var svo fírað upp í trompettadeildinni í brúðarmarsinum, hefði verið snjallt að hafa það sem lokaatriði. En að lokum var fyrsti þátturinn í Ítölsku sinfóníunni. Allt eftir Mendelssohn.

Þetta voru bráðskemmtilegir tónleikar og hljómsveitin átti mjög góða spretti. Einstöku sinnum var ekki fullt samband milli allra og á stöku stað var eins og væri farið að vanta aðeins á bensíntankinn – en munum að þetta er hljómsveit áhugamanna, þetta er ekki atvinnumannaband. Þetta voru skemmtilegir og frjálslegir tónleikar, og það var gaman. Það má líka ef til vill nefna að venjulegir tónleikagestir heyra aðallega músík en margir tónlistarmenn heyra aðallega mistök. Það er nú bara svo.

Það verður gaman að sjá og heyra hvað Hljómsveit Akureyrar og allir þessir áhugatónlistarmenn gera næst.

Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Ottó Elíasson og Ásthildur Sturludóttir skrifa
25. ágúst 2025 | kl. 10:10

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 11:00

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. ágúst 2025 | kl. 19:00

Aðflugsljós við Leiruveg

Víðir Gíslason skrifar
30. júlí 2025 | kl. 15:30

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00