Fara í efni
Umræðan

Lesa, lesa, lesa

Þegar ég var barn lærði ég að lesa við eldhúsborðið hjá ömmu Hólmfríði. Hún sat á sínum stað norðan við borðið og prjónaði sokka. Ég sat við suðurhlið borðsins og stautaði texta af spjöldum, sem afi Páll kom með úr skólanum. Amma benti mér með prjónunum á orð sem ég las rangt eða orð sem ég sleppti, sagði mér til blítt og rólega ef ég skildi ekki og einhvern veginn síaðist þetta inn, æfðist og gekk betur eftir því sem á leið. Þegar einu spjaldinu var lokið kom annað flóknara og svo framvegis. Og þegar amma vildi hvíla mig á stautinu fékk ég að vinda garnhnykla af hesputrénu og jafnvel að prófa sjálfur að fitja upp og prjóna eitthvað einfalt. Þegar ég byrjaði svo í skóla sjö ára, eins og þá tíðkaðist, var ég læs.

Nú er mikið talað um treglæs eða jafnvel ólæs börn í skólum – reyndar upp eftir skólakerfinu. Um þetta eru skrifaðar greinar og gerðir sjónvarpsþættir og alls konar sérfræðingar dregnir upp á dekk, jafnvel sérfræðingar sem aldrei hafa komið í skóla nema sem nemendur. Og til verða kenningar um að þessi kennsluaðferð sé vond og önnur góð, jafnvel að skólarnir séu í tómu tjóni og geri allt vitlaust. Ég sá um daginn viðtal við mann, hann var eins og sjónvarpsprédikari að selja þvottaefni sem væri akkúrat þvottefnið sem skilaði tauinu alhvítu, öfugt við öll hin. Og hann lumaði á einu réttu aðferðinni við að kenna lestur. Þannig var það. Sumir þessara þátta eru gerðir án þess að talað sé við kennara – en það er ekkert nýtt. Umræða um skólamál hefur lengi farið fram án þess að talað sé við hina eiginlegu sérfræðinga í námi og kennslu, kennara. Og enginn skyldi efast um að við eigum vel menntaða og metnaðarfulla grunnskólakennara sem fórna sér fyrir nemendur sína og vinna að kennslu- og þrónarstöfum af öllum hug. Og það er jafnvel ekki haft fyrir því að hafa samband við rannsóknarstofnanir við háskólana fyrir norðan og sunnan, þar sem fylgst hefur verið með lestrarkennslu og öllu sem henni við kemur árum saman. Ekki frekar en þær séu ekki til.

Þvert á þessa umræðu eru svo þættir sem ég hef séð á sjónvarpsstöðinni N4 hérna fyrir norðan. Þar er talað við kennara vítt og breitt og fleiri fagaðila, ýmist í heimastofu sjónvarpsins eða í útsendingu úr skólum, sem teknir eru til viðmiðunar. Af því sem ég hef séð líkar mér þetta býsna vel, kennarar tala um reynslu sína, miðla af útfærslu sinni og aðferðum við kennslu og svo framvegis. Það er ekki eins og ekkert sé gert í skólum.

Skólinn, heimilið og skólaárið

Nú er það svo að skólinn er mikilvægur staður í lífi og þroska barns. Um það er ekki að efast. En það er líka afskaplega algengt að ef eitthvað fer miður í uppeldisferlinu þá sé skólanum kennt um. Það er skólanum að kenna að barn getur ekki lært að lesa eða reikna. Það er skólanum að kenna af barn verður fyrir einelti og þannig mætti lengi telja.

Í þessari umræðu er stundum eins og börnin eigi hvorki heimili né foreldra. Hver er ábyrgð foreldranna og hvert er hlutverk þeirra í uppeldi barnanna? Er svo komið að foreldrar ali ekki lengur upp börn sín og ætlist til að skólakerfið eitt geri það? Er það liðin tíð að foreldrar taki þátt í námi og lífi barna sinna í skóla? Stundum flögrar að mér að foreldrar líti á skólana og kennarana sem einhvers konar andstæðinga. Allt þetta ætti þó að vinna saman ef vel væri. Því foreldrar eru ekki síður leiðbeinendur og fyrirmyndir en kennararnir í skólunum. Vissulega eru sem betur fer enn til heimili þar sem vel er fylgst með börnunum. Það er ekki gott ef þau hafa ekki stuðning að heiman.

Það má endalaust deila um það hvort þessi kennsluaðferðin sé betri en hin, þær eru margar til. Og það er gott vegna þess að börn eru ekki öll eins. Þeim hentar ekki öllum að nota eina og sömu aðferðina til að ná árangri. Það sést strax í leikskóla. Og ég held að sé ekki heppilegast af öllu að temja börnin þannig að öllum verði þrýst í gegnum sama nálaraugað. Það er einfaldara fyrir kerfið, en þá er það spurningin: Á að laga alla notendur að kerfinu eða á kerfið að laga sig að notendunum? Væri það ekki heppilegra og árangursríkara? Og það leiðir mig að því sem ég hef oft sagt og lengi: Helsti galli skólakerfisins er að skipuleggja allt eftir aldri nemandans, fæðingarári hans. Það er fáránlegt að halda að öll 10 ára börn séu á sama þroskastigi, hafi sömu hæfileika eða áhuga, séu eins. Færsla milli bekkja /námsáfanga ætti miklu frekar að fara eftir færni og þroska barnanna en aldri þeirra. Sum geta farið hraðar í gegnum ferlið, en önnur þurfa meiri tíma til að ná tökum á viðfangsefninu. Með því að miða allt við aldur erum við að tefja þá sem þroskast hraðar, og torvelda þeim sem hægari eru að ná tökum á náminu og auka hjá þeim vanmátt á getu sinni. Niðurstaðan verður einhvers konar miðjumoð sem dregur úr metnaði þeirra sem fyrri eru til í þroska en eykur vanmátt þeirra hægu og eyðir upp til agna trú þeirra á eigin getu. Og kannski er þetta ein helsta orsök námsleiða, sem gerir jafnvel vart við sig í grunnskóla, þar sem á að vera gaman.

Það er nauðsynlegt að geta lesið. Það er hins vegar ekki endilega nauðsynlegt að geta lesið hraðar en fugl á flugi. Sumum hentar að lesa rólega og melta textann jafnóðum og festa hann sér í minni. Öðrum hentar að lesa hratt, skanna texta til að geta gripið síðar ofan í meginatriði. Það er vel hægt að þjálfa sig í að lesa hraðar, það hef ég gert sjálfur og nokkrum sinnum haft námskeið í því. En lesskilningur er mikilvægari en leshraði. Það er lóðið. Til þess að öðlast skilning á lesefni er nauðsynlegt að það, lesefnið, hæfi lesandanum á hverju stigi. Það er liðin tíð að börn læri lestur á því að paufast í gegnum Njálu eða Biblíuna. Umfram allt þarf lesefnið að höfða til lesandans, vekja áhuga hans og halda honum við efnið. Rétt eins og þegar amma Hólmfríður tók upp lestrarspjald með ögn erfiðari texta eða lengri orðum og jafnvel einhverju sem ég hafði áhuga á, og ég fékk síðan kleinu með kaldri mjólk.

Það á að vera gaman

Lesefni handa börnum þarf að vera til í skólum og bókasöfnum – og svo er afar æskilegt að þá sé líka til á heimilum. Mér skilst að skólum sé skammtað takmarkað fé til að viðhalda bókasöfnum sínum og almenningsbókasöfn geta ekki átt nema takmarkaðan fjölda bóka. En bækur eru nauðsynlegar. Vissulega þurfa þær ekki endilega að vera á pappír, en íslenskir bókaútgefendur hafa lengi verið tregir til að hafa bækur sínar á vef, og ef það er þá er verð á vefbókum oft og iðulega nánast það sama og á prentaðri bók. Það gengur auðvitað ekki til lengdar. Bækur eru dýrar. Einnota reyfarar kosta núorðið um átta þúsund krónur og kiljur hálft það eða meira. En hvað sem því líður þurfa skólar að eiga bækur og ekki bara einhverjar bækur heldur bæði gamlar - en ekki síst nýjar og nýlegar (þær höfða betur til lesendanna en gamla dótið) og þær þurfa að vera fjölbreyttar, bæði vegna mismunandi áhuga lesendanna og vegna þess að þeir eru ekki allir eins eða frá heimilum eða uppalendum sem eru eins.

Kolbrún Ósk Skaftadóttir vakti máls á því fyrir skemmstu að sex ára sonur hennar (2022) hefði komið heim með lesefni úr skólanum, 37 ára gamla Doddabók og 17 og 19 ára gamlar Gunnarsbækur. Hún nefndi fleira lesefni en hafði ekki rekist á neitt sem drengurinn hennar gæti haft einhvern áhuga á. Hún hefði reyndar getað nefnt Pabbi, mamma, börn og bíll, 58 ára, því allt lesefnið sem hún hafði séð var miðað við slíkar hefðbundnar normalfjölskyldur. Ekki vottur af þeim fjölbreytileika sem er í samfélagi okkar. Og hún velti fyrir sér af hverju skólarnir endurnýjuðu ekki bókakost sinn.

Nú vill svo vel til að við eigum marga góða rithöfunda sem hafa gefið út bækur fyrir börn og ungmenni. Að vísu þyrftum við að eiga miklu fleiri slíka höfunda því það þarf að vera til svo miklu, miklu meira skemmtilegt samtímalesefni handa unga fólkinu. Það þarf að laga efnið að lesendunum en ekki breyta lesendunum svo þeir geti lesið. Ég gæti sett upp langan lista en mig langar til að nefna örfá nöfn. Birgitta Haukdal hefur gefið út allmargar bækur fyrir unga lesendur og það hefur Brynhildur Þórarinsdóttir líka gert. Gunnar Helgason og Bjarni Fritzson hafa gefið út ungmennabækur sem oft eru tengdar íþróttum, Ævar Þór Benediktsson hefur gefið út tugi bóka, meðal annars Þínar eigin bækur, þar sem lesandinn fær að ráða framvindu sögunnar, Hildur Knútsdóttir hefur gefið út spennandi ungmennabækur og Hrund Hlöðversdóttir er líka á þeim slóðum, Andri Snær Magnason, Sigrún Eldjárn, Árni Árnason, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir... og fleiri og fleiri.

Það er nauðsynlegt að geta lesið og það á að vera gaman að lesa. Sumir höfundar gera út á þetta og umgangast lesendur sína og leggja fyrir þá verkefni tengd bókunum og á mörgum bókasöfnum er mikið starf unnið sem miðar að því að efla vináttu barna og ungmenna við bækur. Sumir skólar reyna hvað þeir geta til að örva áhuga nemenda á lestri en víða er, eins og hér var nefnt, eins og rekist sé á vegg þegar bókakosturinn er ekki nógu góður, fjölbreyttur og nýlegur. Auðvitað geta gamlar bækur verið góðar, en ef til vill er betra að vísa á þær þegar lesgeta og málþroski er komið á gott ról. Ég greip um daginn gamla og góða Ævintýrabók eftir Enyd Blyton og las hana. Það var skemmtileg upprifjun, fyrir mig, en ég get ekki ímyndað mér að þeir sem eru núna jafngamlir og ég, þegar ég las hana fyrst, hefðu skilið nema hluta af því sem þarna stóð á prenti. Ég hugsaði mér að nú þyrfti að þýða Ævintýrabækurnar á nútímamál, eins og reyndar þyrfti að gera við Íslendingasögurnar. Málið hefur nefnilega breyst á hálfri öld eða heilli. Að vísu er ekki víst að allir vildu sætta sig við kynjahlutföll, kynvitund og hlutverk kynjanna í þessum gömlu bókum. Hugsunarhátturinn hefur líka breyst.

Ennþá eru til ömmur og afar sem kenna barnbörnum sínum að lesa en það er ekki eins algengt og var. Við verðum hins vegar að treysta því að börn verði læs. Það gerum við með því að leiðbeina þeim heima. Foreldrarnir eru svo mikilvægir leiðbeinendur. Við gerum það með því að treysta grandvörum og reyndum kennurum, vinna með þeim og viðurkenna að þeir eru sérfræðingar í sínu fagi. Við verðum líka að treysta rannsóknarstofnunum, sem hafa unnið að lestrarvísindum árum saman. Og trúlega er mikilvægast af öllu að við eignumst sem allramest af lesefni sem hæfir nemendum á öllum sviðum, lesefni sem börnin geta fundið sig í og parað sig við, lesefni sem grípur athygli þeirra og áhuga, og mokum því inn á skólabókasöfnin. Það á nefnilega að vera gaman að lesa og þegar maður hefur lært það getur maður lesið hvað sem er, auðvelt og erfitt, nýtt og gamalt. Veröldin er opin þeim sem er læs.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50