Fara í efni
Umræðan

Ályktun og greinargerð Félagsvísindadeildar HA

Akademískir starfsmenn þeirra þriggja deilda við Háskólann á Akureyri sem sameining við Háskólann á Bifröst hefði mest áhrif á lýsa miklum efasemdum um mögulega sameiningu og hvernig að henni er staðið. Þetta kemur fram í þessari frétt sem Akureyri.net birti í dag.

Hér má sjá ályktun deildarfundar Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri 17. janúar síðastliðinn og greinargerð með henni.

Efni: Ályktun auka deildarfundar Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri

Akureyri, 17. janúar 2024

Ályktun deildarfundar Félagsvísindadeildar

Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri lýsir yfir miklum efasemdum um ágæti þess að halda áfram með sameiningarferli Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Skýrsla um „Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst“ veitir engin svör við mikilvægum spurningum en er slagorða- og áróðurskenndur málatilbúnaður fyrir sameiningu. Jafnvel þótt fráfarandi rektor HA hafi leitast við að skýra einsök atriði með öðrum hætti en skilja má af skýrslunni og rætt um að skilyrði væru sett af hálfu HA, er það ekki nóg til að draga úr þeim grundvallar efasemdum sem deildin hefur. Deildin hvetur því til þess að þessu sameiningarferli verði hætt eða að lágmarki slegið á frest þar til efasemdum starfsfólks deildarinnar og HA hefur verið eytt.

Greinargerð

Háskólinn á Akureyri hefur frá stofnun árið 1987 verið leiðandi í að auka aðgengi allra landsmanna að háskólanámi. HA hefur vaxið og dafnað frá stofnun, sér í lagi eftir að allt nám háskólans var boðið í sveigjanlegu námi frá árinu 2016. Nú stunda um 2.600 nemendur nám við þennan þriðja stærsta háskóla landsins. Síðasta vor brautskráðust um 550 nemendur frá HA og þá brautskráði háskólinn fyrstu tvo doktorsnemana á síðasta skólaári. Sem fyrr er HA opinber háskóli þar sem hvorki nemendur í grunnnámi né framhaldsnámi greiða skólagjöld. Rekstur HA hefur gengið vel og hefur háskólinn komið vel út úr úttektum Gæðaráðs íslenskra háskóla.

Félagsvísindadeild HA stendur styrkum fótum. Deildin er meðal stærstu deilda HA hvað fjölda stúdenta varðar og er með hæsta hlutfall prófessora meðal deilda háskólans. Við deildina er boðið upp á fjórar námsleiðir til BA-gráðu (þ.e. í félagsvísindum, fjölmiðlafræði, lögreglu- og löggæslufræði og í nútímafræði) og tvær diplómagráður (þ.e. fyrir verðandi og starfandi lögreglumenn). Við deildina er jafnframt boðið upp á meistaranám til MA-gráðu í félagsvísindum og doktorsnám í félagsvísindum. Mikil samvinna og samkennsla er milli brauta og með öðrum deildum. Rekstrarhagkvæmni deildarinnar er mikil og líklegt er að henni verði stefnt í voða með mögulegri sameiningu við Háskólann á Bifröst. Slíkt gæti í framtíðinni leitt til niðurskurðar sem gengur gegn yfirlýstum markmiðum sameiningar.

Starfsfólk Félagsvísindadeildar HA hefur áhyggjur af því að áskoranir við að sameina opinberan háskóla og einkarekinn háskóla reynist óyfirstíganlegar og að sameining muni koma niður á íslensku háskólastarfi fremur en að efla það. Hvað varðar Félagsvísindadeild HA sem slíka óttast starfsfólk meðal annars að verði deildin sameinuð Félagsvísindadeild Bifrastar muni hluti framhaldsnáms einungis verða í boði gegn greiðslu skólagjalda. Slík grundvallarbreyting myndi rýra jafnrétti til náms og grafa undan þeirri undirstöðu sem skólagjaldalaust meistaranám er fyrir doktorsnám við deildina. Einsýnt er að innheimta skólagjalda fyrir sumt framhaldsnám við HA grafi undan almennri samvinnu milli deilda um námskeið og samlegðaráhrifum.

Engin sannfærandi greining á sameiningu HA og Bifrastar fyrirfinnst í hástemmdri en innihaldsrýrri fýsileikaskýrslu um mögulega sameiningu háskólanna. Þá vekja slagorðakenndar klifanir um kosti sameiningar og afar takmörkuð umfjöllun um ókosti sameiningar furðu. Aukinheldur inniheldur skýrslan á köflum villandi upplýsingar og rangfærslur og veitir engin haldbær svör við fjölmörgum spurningum sem vakna um ýmsar fjárhagslegar og lagalegar áskoranir sameiningar. Skýrslan ber þess skýr merki að lítið samráð var haft við starfsfólk HA við greiningarvinnuna. Þá eru settar fram í skýrslunni mjög óljósar hugmyndir um rannsóknarsjóð fjármagnaðan af sölu fasteigna Bifrastar sem og óraunhæf markmið um tímaramma við stofnun sameinaðs háskóla og um vinnu starfsfólks við að koma sameinuðum háskóla á koppinn.

Langflestir starfsmenn Bifrastar eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (u.þ.b. 80%) og starfa þar. Verði af sameiningu háskólanna verður, að óbreyttu, um þriðjungur starfsfólks sameinaðs háskóla og enn hærra hlutfall starfsfólks sameinaðrar Félagsvísindadeildar staðsett fyrir sunnan. Í þessu felast gífurlega miklar áskoranir fyrir háskólasamfélagið á Akureyri og staðsetningu sérfræðistarfa á landsbyggðunum. Hætta er á að sameinaður háskóli seytli með tímanum til Reykjavíkur líkt og fór fyrir Bifröst. Vandséð er hvernig það sé í þágu háskólastarfs á landsbyggðunum og Íslandi öllu að þungamiðja þess færist enn nær Reykjavík en raunin er þegar. Vöxtur og gæðaúttektir sýna að HA hefur alla burði til þess að eflast og sækja fram á eigin forsendum og án þess að sameinast öðrum. Miklar líkur eru á að sameining stefni uppbyggingu háskólastarfs á Akureyri, sem er öllu landinu til heilla, í hættu.

Ályktun þessi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á auka deildarfundi 17. janúar 2024.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd félagsvísindadeildar,

Birgir Guðmundsson, deildarforseti

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30