Fara í efni
Umræðan

Er einmannaleiki vandamál meðal eldri borgara?

Tveir vinnuhópar eru nú að störfum sem tengjast málefnum eldri borgara á Akureyri, vinna við seinni hluta aðgerðaáætlunar í málefnum eldri borgara og endurskoðun á íbúabyggð aðalskipulags. Af þessu tilefni óskuðum við bæjarfulltrúar Framsóknar eftir umræðu um málefni eldri borgara á bæjarstjórnarfundi þann 7. mars síðastliðinn. Gunnar Már birti grein um áherslur okkar í skipulagsmálum eldri borgara https://www.akureyri.net/is/frettir/husnaedismal-eldri-borgara-a-akureyri-1 en hér ætla ég að reyna að stikla á stóru og taka saman helstu punkta úr ræðu minni um einmannaleika og félagslega einangrun eldri borgara.

Árið 2022 voru tæplega helmingur íbúa 60 ára og eldri í Félagi eldri borgara á Akureyri. Það þýðir þó ekki að helmingur eldri borgara sitji meira og minna heima og sæki ekki í félagsskap utan heimilis. Sú kynslóð sem er um og yfir sjötugt í dag er að stórum hluta mjög virkur hópur sem er vanur að ferðast um allan heim og duglegur í alls kyns hreyfingu. Þetta er hópur sem mun líklega þegar tíminn líður vera duglegur að nýta sér þjónustu félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar.

Ástæða til að kanna einmannaleika meðal eldri borgara á Akureyri

Landssamband eldri borgara gerði rannsókn í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 2016 þar sem fram kom að 17% eldri borgara væru stundum eða oft einmana en það er sá mælikvarði sem notaður er til að mæla félagslega einangrun. Í rannsókninni kom skýrt fram að sá hópur sem helst finnur til einmannaleika er fólk sem meðal annars þiggur heimaþjónustu, hefur misst maka, á veikan maka, hefur gengið í gegnum erfiða hluti, heyrir illa, er fjárhagslega illa statt og hefur ekki mikið samband við ættingja. Þetta er hópur sem er ólíklegur til að sækja í félagsmiðstöðvarnar og það sem er í boði í verkefninu Virk efri ár nema með mikilli hvatningu og sértækum aðgerðum. Því er full ástæða til að kanna einmannaleika sérstaklega meðal eldri borgara á Akureyri.

Verkefnið Virk eftir ár: https://www.akureyri.is/is/thjonusta/velferd-og-fjolskyldan/eldri-borgarar/virk-efri-ar

Félagslegi þátturinn skiptir mestu máli er kemur að lýðheilsu

Samkvæmt Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Lýðheilsusviðs embættis landlæknis, þá er félagslegi þátturinn lang mikilvægasti þátturinn er kemur að hamingju og vellíðan, og skiptir meira máli en heilsa og efnahagsleg gæði svo dæmi sé tekið. Eldra fólk býr mun lengur heima en áður sem þýðir að við sem sveitarfélag berum lengur og meiri ábyrgð á félagslegri örvun þeirra og ætti því vera að vera hluti af lýðheilsustefnu okkar. Það er almenn ánægja með verkefnið Virk efri ár en nú þegar því verður fylgt eftir þarf að kanna hvaða hópur þiggur þessa þjónustu í dag og fara í aðgerðir til þess að auka breidd hans í víðtæku samstarfi t.d. heimaþjónustunnar, öldungaráðs, Félags eldri borgara og starfsmanns verkefnisins Virk eftir ár.

Nú er hafin vinna við seinni aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara sem er ætlað að taka á á heimaþjónustu og samhæfingu við aðra þjónustu, sem og búsetu eldra fólks og samgöngum. Allt tengist þetta félagslegum þáttum og þörfum eldri borgara og því mikilvægt að aðgerðir til að rjúfa félagslega einangrun fái töluvert vægi í henni.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Heimildir:
Málþing um einmanaleika eldra fólks og hvað sé til ráða haldið af Landssambandi eldri borgara árið 2020. https://www.leb.is/malthing-um-einmanaleika-eldra-folks-og-hvad-se-til-rada/

 

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Ingibjörg Isaksen skrifar
07. mars 2024 | kl. 13:11