Enskukennsla á Suðursal í MA
GAMLI SKÓLI – 16
- Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.
Myndin er tekin á Suðursal árið 1950. Sigurður Líndal Pálsson enskukennari hlýðir sjötta bekk máladeildar yfir, eins og venja var. Fremst sitja Stefán Lárusson frá Miklabæ í Skagafirði, síðar sóknarprestur í Odda á Rangárvöllum, og Jón Dalmann Ármannsson frá Akureyri, starfsmaður Skattstofunnar á Akureyri. Í annarri röð má þekkja Brynjar Valdimarsson, frá Akureyri, síðar lækni á heilsuhælinu í Kristnesi, og Gunnlaug P. Kristinsson, frá Akureyri, starfsmann KEA. Aftast til vinstri er Magnús Óskarsson frá Akureyri, síðar borgarlögmaður í Reykjavík, og Sveinn Skorri Höskuldsson frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði, síðar prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.
Að baki eru gömlu spjaldahurðirnar frá 1922 sem gerðar voru þegar opnað var milli bókasafnsins og Suðursalur var gerður að kennslustofu sem Sigurður skólameistari kallaði í skólaskýrslu fegurstu kennslustofu skólans.
Sigurður Líndal Pálsson fæddist á Ísafirði 1904, varð gagnfræðingur frá skólanum 1925 og stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík 1928, stundaði fyrst nám við háskólann í Kaupmannahöfn en hvarf í janúar 1929 til háskólans í Leeds og síðar háskólans í Manchester og kenndi við skólann 1931 til dauðadags 1964. Sigurður var eftirminnilegur kennari og gekk fast eftir að nemendur læsu og lærðu grein hans.
- Enskukennsla á Suðursal er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.
Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?
Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi
Innflytjendur, samningar og staðreyndir
Húsnæðisbóla