Fara í efni
Umræðan

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á þær greinar ferðaþjónustu sem enn eru í 11% þrepinu eru ekki nýjar af nálinni. Árið 2017 fóru slíkar hugmyndir á flug. Hingað og ekki lengra sögðum við Sjálfstæðismenn þá - og segjum enn. Þessa dagana sjá ýmsir sér þó leik á borði. Ferðaþjónustan er gerð að blóraböggli og kennt um þenslu síðustu ára. Og vond hugmynd um hækkun virðisaukaskatts er komin aftur á flug. Nú síðast steig oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi fram og boðaði auknar álögur í leit sinni að atkvæðum.

Öflugri ferðaþjónusta fyrir okkur öll

Það er ekki að ástæðulausu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett sig upp á móti þessari hugmynd. Ferðaþjónusta er ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslands og kappkosta þarf við að standa vörð um samkeppnishæfni hennar á heimsvísu. Ekki síður en um sjávarútveg og íslenskt hugvit. Til þess þarf rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja að vera sambærilegt við það sem gerist í okkar helstu samkeppnislöndum. Að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu gengur þvert á það markmið.

Það er ekki sjálfgefið að ferðamenn kjósi að sækja Ísland heim. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur styrkt stoðir efnahagslífsins, aukið fjölbreytileika við öflun gjaldeyristekna og fjölgað störfum svo eitthvað sé nefnt. Árið 2023 var hlutur ferðaþjónustu nærri 9% af verðmætasköpun landsins og útflutningstekjur greinarinnar samtals um 600 milljarðar króna, eða þriðjungur af heildarútflutningi Íslands. Þessi verðmætasköpun verður ekki til í tómarúmi. Hvernig sem málinu er velt, er ljóst að hækkun virðisaukaskatts mun leggja stein í götu verðmætasköpunar íslenskrar ferðaþjónustu, draga úr umsvifum, veikja greinina og vaxtartækifæri hennar í framtíðinni.

Láttu ekki blekkjast

Það er lágmarkskrafa að álagning skatta og gjalda, hvort sem er á fólk eða fyrirtæki, sé ekki óþarflega íþyngjandi og taki mið af samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðamarkaði. Háir skattar eru ekki ávísun á meiri tekjur í ríkiskassann ef þrótturinn er þannig dreginn úr atvinnulífinu. Vörumst gylliboð frá vinstri og látum ekki blekkjast af hugmyndum af þessum toga.

Þvert á móti ætti að kappkosta við að lækka álögur þar sem því verður viðkomið - sem og einfalda regluverk - til að styrkja samkeppnishæfni Íslands og íslenskra atvinnugreina. Fyrir það stendur Sjálfstæðisflokkurinn, hér eftir sem hingað til.

Njáll Trausti Friðbertsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og skipar 2. sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum á laugardaginn

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15