Fara í efni
Umræðan

Allt að 200 íbúðir á Tjaldsvæðisreitnum

Horft í norðaustur eftir tjaldsvæðisreitnum. Lengst til vinstri er þjónustubygging tjaldsvæðisins, þá hótelið og svo gamli Húsmæðraskólinn. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

Reiknað er með 18 þúsund fermetrum af íbúðarhúsnæði, 180-200 íbúðum, og 1.150 fermetrum af verslunar- og þjónustuhúsnæði, á Tjaldsvæðisreitnum á Akureyri samkvæmt endurskoðuðu skipulagi fyrir reitinn. Hugmyndirnar verða kynntar almenningi á fundi sem boðað hefur verið til á morgun.

  • Gert ráð fyrir að Krambúðin færist úr suðvesturhorni reitsins að Þórunnarstræti sunnan Berjaya hótelsins. 
  • Nýrri heilsugæslustöð er ætlað svæði í norðvesturhluta reitsins, eins og áður hefur komið fram, að mestu leyti þar sem nú eru bílastæði við gatnamót Byggðavegar og Þingvallastrætis. 
  • Fjöldi bílastæða á reitnum skiptist í 26 samsíða bílastæði í göturými, 29 stæði á yfirborði innan reits og 70 stæði við heilsugæslu og hótelið, auk 275 stæða fyrir íbúðabyggðina í sameiginlegum 2.700 fermetra bílakjallara með aðkomu frá Byggðavegi. Bílastæði ríkis og og bæjar í heilsugæslustöðinni eru fyrir utan þessa upptalningu.

Þetta kemur fram í stuttri kynningu á hugmyndum um skipulag fyrir svæðið sem vísað er til í auglýsingu skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar  þar sem boðið er til kynningarfundar á endurskoðuðu deiliskipulagi fyrir reitinn. Fundurinn verður á morgun, miðvikudag, kl. 17.00 til 19.00 í kaffiteríu á 2. hæð Íþróttahallarinnar, gengið inn um aðalinngang að sunnan.

Undirbúningur hófst sumarið 2022

Vinna við endurskoðun skipulags fyrir reitinn hófst sumarið 2022, en reiturinn afmarkast af Þórunnarstræti, Hrafnagilsstræti, Byggðavegi og Þingvallastræti. Innan hans eru nú þegar hótel, matvöruverslun, gamli Húsmæðraskólinn og þjónustubygging vegna tjaldsvæðisins sem var og hét, ásamt einu íbúðarhúsi, Þórunnarstræti 97. Áformað er að ný heilsugæslustöð rísi í norvesturhorni reitsins og verði tekin í notkun árið 2026.


Afstöðumynd af reitnum, skjáskot úr kynningu skipulagsfulltrúa. 

Fyrstu drög sem Nordic arkitektastofan vann voru kynnt í skipulagsráði í lok september 2022 og aftur í nóvember sama ár og þá ákveðið að lýsingin yrði kynnt bæjarbúum. Þeirri kynningu lauk 24. febrúar. Um fimmtíu ábendingar bárust við lýsinguna ásamt umsögnum frá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands og Félagi eldri borgara á Akureyri.

Nú liggja fyrir drög að framtíðarskipulagi reitsins og aftur komið að kynningu á fundi sem haldinn verður á morgun sem fyrr segir. Þar munu skipulagshönnuðir kynna verkefnið og gefst gestum kostur á að kynna sér tillögurnar og bera upp spurningar.

Fundurinn hefur verið skráður sem viðburður á Facebook og þar getur fólk látið vita ef það hyggst sækja fundinn.

Hús nr. 97 og 99 verði skráð hjá Minjastofnun

Gert er ráð fyrir að íbúðarhúsið Þórunnarstræti 97, sunnan við gamla Húsmæðraskólann, muni víkja. Niðurstaða Minjastofnunar í umsögn frá febrúar á þessu ári um drög að breyttri lýsingu á deiliskipulagi svæðisins er að skrá þurfi húsin að Þórunnarstræti 97 og 99 inn í gagnagrunn stofnunarinnar. Annars vegar er það vegna aldurs hússins nr. 97, en það var byggt 1926 og öll hús byggð árið 1940 og fyrr eru umsagnarskyld. Hins vegar er húsið nr. 99, gamli Húsmæðraskólinn, hannað af Guðjóni Samúelssyni og segir í umsögn stofnunarinnar að húsið sé hannað í látlausum klassískum stíl og hafi ótvírætt listrænt gildi sem höfundarverk Guðjóns. Því mælist stofnunin til að það verði einnig skráð í skráningarkerfi hennar og unnið verði varðveislumat á húsinu.


Bakhliðar húsanna að Þórunnarstræti 97 og 99, gamla Húsmæðraskólans. Íþróttahöllin í baksýn. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson. 

Öll skammtíma- og skólavistun fatlaðra í bænum fluttist í húsið 1. mars 2014. Skátafélagið Klakkur hefur haft aðstöðu á jarðhæð hússins frá því í maí 2016, en þar eru fundarsalir, fundarherbergi, skrifstofa, eldhús og fleira. Rými Klakks í húsinu gengur undir nafninu Hyrna og er miðstöð skátastarfs félagsins.

Íbúar lögðu til garð, hundasvæði og gocart

Í kynningarferlinu hefur íbúum meðal annars gefist kostur á að koma með hugmyndir. Spurt var: Hvernig byggð viltu sjá á tjaldsvæðisreitnum? Hefur þú skoðun á hvaða íbúðagerðir og búsetuform myndu henta vel á svæðinu? Hvaða þjónustu, innviði eða aðstöðu telur þú að sé þörf á að hafa á svæðinu? Hvað finnst þér vanta í þínu nærumhverfi? Gætir þú hugsað þér að búa á reitnum og komast af án bíls?

Meðal hugmynda og svara sem fram komu frá íbúum voru:

  • Garður
  • Garður til ræktunar fyrir leik- og grunnskólabörn
  • Gocart
  • Þétt byggð með bílakjallara, litla klíník og matvöruverslun
  • Stölluð byggð
  • Hundasvæði fyrir smáhunda
  • Tjaldsvæði
  • Fjölbýli fyrir 60+
  • Þjónustusvæði, elliheimili, þjónustuíbúðir og búsetukjarnar/úrræði fyrir fatlaða
  • Raðhús

Dansaðu vindur

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar
19. september 2024 | kl. 14:00

Hvaðan kemur verðbólgan?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
17. september 2024 | kl. 16:30

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
15. september 2024 | kl. 13:30

Hver er Akureyri framtíðar?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:30

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30