Akureyri í dag: Handbolti og íshokkí

Bæði karlaliðin í handbolta eiga heimaleik í dag í 5. umferð Olísdeildarinnar. Þór tekur á móti Stjörnunni kl. 18 og KA tekur á móti ÍR kl. 18:15. Það er áhugavert að velta fyrir sér heimaleik Þórs í ljósi þess að Íþróttahöllin hefur verið undirlögð af ráðstefnu síðustu sex daga og hefur Þórsliðið ekkert getað æft þar frá síðasta leik sínum, sem var útileikur í Vestmannaeyjum á laugardag. Í kvöld er svo einnig áhugaverður leikur í íshokkíinu, þar sem SA-liðin tvö, meistaraflokkur og U22 liðið Jötnar mætast í forkeppni Toppdeildarinnar.
Heimaleikir í handboltanum
Þórsarar hafa unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í Olísdeildinni, unnu ÍR í fyrstu umferðinni, en hafa síðan tapað fyrir Fram, Val og ÍBV. Þeir fengu liðsstyrk í Kára Kristjáni Kristjánssyni fyrir síðasta leik, en það dugði þeim þó ekki þegar þeir sóttu sveitunga Kára Kristjáns heim til Eyja.
Eins og nefnt var hér að ofan hefur liðið verið í afar undarlegri stöðu undanfarna viku. Þórsarar æfa og spila alla leiki sína í Íþróttahöllinni, þar sem er parket, en hafa ekki náð einni æfingu í Höllinni frá því fyrir síðasta leik, sem var útileikur í Vestmannaeyjum. Ástæðan er notkun Íþróttahallarinnar undir Vestnorden ráðstefnuna sem hefur yfirtekið Höllina í sex daga. Þórsliðið hefur því æft á dúk í Síðuskóla, sem hefur svo aftur keðjuverkun á aðra iðkendur því þar hafa þeir fengið tíma á kostnað yngri iðkenda.
- Olísdeild karla í handknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:00
Þór - Stjarnan
Stjarnan er í 5. sæti deildarinnar að loknum fjórum umferðum með fjögur stig, hafa unnið tvo og tapað tveimur leikjum, en Þórsarar sitja í 10. sætinu með tvö stig.
- - -
Að loknum fjórum umferðum í Olísdeild karla í handknattleik hefur KA unnið tvo leiki, gegn Selfyssingum og HK á útivelli. Nú er komið að öðrum heimaleik liðsins og allt eins líklegt að þar komi fyrsti heimasigurinn, þegar ÍR-ingar mæta norður.
- Olísdeild karla í handknattleik
KA-heimilið kl. 18:15
KA - ÍR
KA vann báðar viðureignirnar við ÍR í Olísdeildinni í fyrravetur, 28-24 á heimavelli og 39-34 á útivelli. ÍR-ingar hafa enn sem komið er aðeins hlotið eitt stig í Olísdeildinni, gerðu jafntefli við Selfoss. KA vann HK á útivelli í síðustu umferð, en ÍR tapaði með einu marki heima fyrir Aftureldingu.
Innanfélagsleikur í íshokkí
Enn er ekki komið að alvörunni í Toppdeild karla í íshokkí, nokkrir leikir eftir í forkeppninni sem gefur þó hvorki liðum né leikmönnum stig þegar áfram verður haldið, eins og áður hefur komið fram í umfjöllun Akureyri.net.
Það má þó eflaust búast við skemmtilegum leik í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld þegar SA-liðin mætast innbyrðis, Jötnar, U22 lið SA, skemmtu áhorfendum á dögunum í leik sínum gegn meistaraflokksliði Fjölnis og unnu nokkuð örugglega, 8-1. SA vann í framlengingu í fyrsta leik sínum gegn Fjölni og vann síðan auðveldan sigur á Húnum, U22 liði Fjölnis, síðastliðinn sunnudag, 11-0. Þetta er síðasti leikur Jötna í forkeppninni, en lokaleikur hennar verður viðureign SA og SR á Akureyri á þriðjudagskvöldið í næstu viku.
- Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
Jötnar - SA
Meistaraflokkur SA býr sig nú ekki aðeins undir keppni í Toppdeildinni heldur er liðið á leið til Litháen í októbermánuði til þátttöku í Evrópuriðli, Continental Cup, þar sem liðið fær væntanlega erfiða og verðuga andstæðinga. Meira um það síðar.


Drenglyndi kvartar til Persónuverndar

Háskólinn á Bifröst – Öflugur og sjálfstæður fjarnámsskóli

Lýðræðið og kirkjan

Við vorum líka með plan
