Fara í efni
Umræðan

Af húsnæðisvanda leikskólanna og verklegri kennslu í Oddeyrarskóla

Á síðasta bæjarstjórnarfundi lögðum við bæjarfulltrúar Framsóknar það til að fræðslu- og lýðheilsuráð kannaði hvernig kennslu og umgjörð starfs-, list- og verknáms sé háttað í grunnskólum bæjarins, til að meta stöðuna og út frá því setja fram tillögur um aðgerðir í þeim tilgangi að auka vægi list- og verkgreina í starfi skólanna.

Tillagan var samþykkt samhljóða ‒ sem ég fagna mjög ‒ en hún kom hins vegar ekki alveg til af góðu einu, því í vikunni bárust þær fregnir af skólastarfi Oddeyrarskóla að smíðakennsla verður að öllu óbreyttu felld niður í núverandi mynd og óvíst hvenær hún verður tekin upp aftur. Ástæðuna má að hluta rekja til þeirrar ákvörðunar að breyta smíðastofu skólans og koma þar fyrir leikskóladeildum.

Áður en lengra er haldið vil ég hrósa starfsmönnum fræðslusviðs og mannvirkjasviðs, og ekki síst starfsmönnum leik- og grunnskóla, fyrir ótrúlega fórnfýsi og dugnað þegar kemur að því eilífðarverkefni að finna börnunum okkar pláss á hverjum vetri, skapa þeim sem bestan aðbúnað og veita þeim fyrirmyndarþjónustu. Þetta er ekki auðvelt verkefni og rétt eins og víðast hvar annars staðar þá erum við oftar en ekki einu skrefi á eftir. Það er sjaldnast ofgnótt af leikskólaplássum og eins og gengur þá eldist það húsnæði sem við eigum og kröfurnar breytast. Ég vil líka hrósa formanni fræðslu- og lýðheilsuráðs fyrir þá viðleitni að finna lausnir hratt og örugglega fyrir næsta haust.

Ættum við að leggja meiri áherslu á kennslu list- og verkgreina en nú er gert?

Að sjálfsögðu þarf að bregðast skjótt við þeim húsnæðisvanda leikskólanna sem blasir við okkur. Hins vegar, þótt verkefnið sé brýnt, þá verðum við alltaf að meta fórnarkostnað þeirra lausna sem verða fyrir valinu, og velta honum upp, hvort sem lausnirnar eru til skemmri eða lengri tíma. Í þessu tilviki virðist verklegri kennslu í tilteknum grunnskóla að einhverju leyti hafa verið fórnað í staðinn fyrir fleiri leikskólarými. Það er auðvitað ekki nógu gott, þótt ég efist ekki um það eitt andartak að stjórnendur og kennarar Oddeyrarskóla muni reyna að finna einhverja lausn á þeirri stöðu líka.

Það er held ég öllum ljóst að börnin okkar geta í gegnum smíðakennslu lært færni sem verður ekki svo glatt kennd með öðrum hætti. Í Aðalnámskrá grunnskóla koma enda fram skýr viðmið um kennslu og menntagildi verkgreina. Í gildandi Menntastefnu Akureyrarbæjar kemur einnig jafn skýrt fram að við ætlum okkur að gera verkviti hátt undir höfði, til þess að börn nái “að tengja saman hug og hönd í skapandi umhverfi” eins og þar segir. Slíkt umhverfi þarf þá að vera til staðar í grunnskólum bæjarins og viðeigandi kennslu þarf að vera sinnt.

Við ættum í þessu samhengi að horfa til þess að í samfélaginu er uppi hávært ákall um að gera skapandi greinum og verkgreinunum hærra undir höfði, annars sé voðinn vís fyrir uppbyggingu landsins í náinni framtíð. Samtök bæði atvinnulífs og iðnaðar hafa til að mynda brýnt fyrir ráðafólki að hér á landi sé fyrirséður mikill skortur á iðnaðarmönnum og tæknimenntuðum ‒ og Ásmundur Einar, mennta- og barnamálaráðherra, hefur þegar brugðist við þessu kalli og boðað viðamiklar aðgerðir til eflingar verknáms í framhaldsskólum.

Umræðan í bæjarstjórn um smíðakennslu í Oddeyrarskóla var afar góð og vonandi verður henni haldið áfram og hún víkkuð út með það fyrir augum að efla kennslu list- og verkgreina.

Við verðum að tryggja gott list- og verknám í skólum bæjarins og það með óyggjandi hætti.

Við þurfum líka að finna fleiri leiðir til að auka áhuga ungs fólks á starfs- list og verknámi.

Það er að sjálfsögðu nærtækast að gera það strax í grunnskólunum.

Samfélagið hreinlega kallar eftir því!

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15