Fara í efni
Umræðan

Er þjóðernishyggja hættuleg?

Í samfélagsumræðunni er algengt að flokka pólitískar stefnur og skoðanir með þeim fræðilegu hugtökum sem eru í tísku hverju sinni. ‘Þjóðernishyggja1 er þar engin undantekning. Hugtakið er oft notað sem niðrandi lýsing á skoðunum þeirra sem vilja hafa eigin menningu og þjóð í fararbroddi. Með því er óbeint verið að kynda undir þá staðhæfingu að þjóðernishyggja sé hættuleg. Sú staðhæfing skýtur þeim sem stoltir eru af gildum og afrekum þjóðar sinnar skelk í bringu.

Er það virkilega hættulegt að vera stoltur af eigin uppruna og vilja standa vörð um eigin menningu?

Strax sem barn hafði ég mikið dálæti af sögu. Við uppvaxtarárin í sveitinni voru minnisvarðar sögunnar allt í kring. Lækirnir sem hrísluðust um grænu túnin voru aldargömul skil milli jarða bæjanna, sem sumar hverjar hafa borið sömu nöfn í meir en þúsund ár. Út um svefnherbergisgluggann blasti við skógarreiturinn sem langa afi minn sáði og niður við veginn mátti sjá lítil tré sem ég hafði sjálfur aðstoðað faðir minn við að planta. Einn daginn yrðu þessi tré jafn stór og í skógarreitnum hans langa afa og kannski myndi minn eigin afkomandi horfa á þau sömu lotningaraugum og ég.

Þegar ég bar tignarlegan tind Kerlingar fyrir augum, sem drottnar yfir bæjarstæðinu eins og forn konungur sem vakir yfir ríki sínu, minnti ég mig á hversu heppinn ég var að fæðast hér.

Það má því segja að ég hafi verið stoltur af eigin landi frá unga aldri. Það eru talsvert fleiri sem deila því stolti og eflaust draga margir það í efa að það sé eitthvað varhugavert við það. Er það slæmt að fá gæsahúð þegar dyggir stuðningsmenn íslensku landsliðanna í handbolta taka það að sér að klára þjóðsönginn, eftir að klippt var á hann of snemma? Á maður að sleppa því að reisa minningarvarða um merkileg afrek frá okkar litlu þjóð?

Svarið við því er ekki jafn einfalt og margir myndu ætla.

Fyrir það fyrsta, hef ég hingað til tekið dæmi um ‘þjóðrækni’. Þó að þjóðrækni sé grunnstoð í þjóðernishyggju, haldast þau ekki alltaf í hendur. Að sama skapi er þjóðernishyggja grunnstoð í fasisma, en þó eru ekki allir þeir sem aðhyllast þjóðernishyggju fasistar.

Þjóðrækni getur einnig verið smitandi. Hluti af rómantíkinni við heimsmeistaramót í knattspyrnu og öðrum íþróttagreinum, er einmitt að sjá ólíkar þjóðir etja kappi við hvor aðra. Sem dæmi má nefna yndislega stund á HM karla í knattspyrnu árið 2022 þegar dans senegalska stuðningsmanna í stúkunni voru svo heillandi að ungur marokkóskur stuðningsmaður fékk að vera með.2 Eins og margir, á ég það til að taka vel undir viðlag Take Me Home, Country Roads þó ég hafi aldrei stigið fæti í Vestur-Virginíu fylki í Bandaríkjunum.

Vert er að benda á að þjóðernishyggja er tiltölulega nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni. Hún kom til á síðari hluta 18. aldar og dreifðist um heiminn á þeirri 19. Þó nútíma þjóðríki hafi byrjað að myndast fyrr, sameinuðust ríkisborgarar sjaldnast í eina heild. Fólk hópaðist saman eftir trú, tungumáli, stétt, landi og héraði. Því breytti það litlu fyrir sjálfsmynd Íslendinga á 13. öld þegar þeir sóru Hákoni Noregskonungi eið og landið gerðist skattland undir norska konungsríkinu.

Viðhorf Íslendinga breyttist með tilkomu þjóðernishyggjunnar á 19. öld, sem varð kveikjan að því báli sem varð að sjálfstæðisbaráttunni og leiddi að lokum að stofnun lýðveldisins. Flestir eru sammála um að sjálfstæðið var lykilþáttur í uppsveiflu efnahagslífsins á 20. öldinni, sem gerði það að verkum að Ísland færði sig frá því að vera fátækt smáríki, yfir í að státa ríku efnahagslífi og framsækinni pólitík, meðal annars með kjöri fyrsta kvenkyns forseta heimsins.3 Til marks um þær hröðu samfélagsbreytingar sem áttu sér stað, má nefna að ungbarnadauði var einkum hár á Íslandi um miðbik 19. aldar, en var orðinn með þeim lægri í heiminum aðeins einni öld síðar.4

Hér á Íslandi mætti því telja að þjóðernishyggjan hafi reynst okkur vel. Sömu sögu mætti segja af stofnun öflugra ríkja í Evrópu, meðal annars sameiningu Þýskalands og Ítalíu á 19. öldinni og sjálfstæðisbaráttu fjölmargra ríkja undan greipum nýlendustefnunnar.

Gleraugu rómantíkurinnar eiga þó vissan sess í þessari sýn á sögunni. Danaveldi hélt ekki mjög fast um eignarhald sitt á Íslandi, þar sem ríkið hagnaðist lítið á fátæku og fámennu þjóðinni, sem var langt frá beinu valdi Kaupmannahafnar. Tilkall Dana til Norður-Slésvíkur í kjölfar ósigurs Miðveldanna í fyrri heimsstyrjöldinni, var einnig byggt á grunni þess að sameina dönskumælandi íbúa undir eitt ríki. Fullveldi Íslands árið 1918 telja sumir að hafi styrkt tilkall Dana í Slésvíkur deilunni, þar sem aðal röksemdir fyrir sjálfstæði Íslendinga voru byggðar á sérstöðu tungumálsins og menningunni sem af því stafar.5 Lýðræðið varð síðar til eftir að Þjóðverjar höfðu hernumið Danmörku í síðari heimsstyrjöldinni. Á stríðsárunum byggðu breski og bandaríski herinn upp innviði á Íslandi í auknum mæli og vegleg úthlutun úr Marshal sjóði Bandaríkjanna, þrátt fyrir litla eyðileggingu á Íslandi, varð efnahagnum mikil bón.

Að sama skapi má segja að saklaus framsetning þjóðernishyggju sem hvöt um að varðveita menningarleg gildi samfélagsins, feli ósjálfrátt skaðleg áhrif hennar. Við þekkjum öll hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar, þar sem herdeildir fasista frömdu þjóðarmorð og stóðu að eyðileggingu af skala sem heimurinn hafði aldrei áður séð. Olían sem knúði stríðsvélina var einmitt öfgakennd þjóðernishyggja, sem teygði anga sína víða um heim.

Síðan þá hafa hugtökin, ‘fasismi‘ og undirgrein þess ‘nasismi’, orðið að holdgervingi illskunnar. Á tímum sundrungar, þar sem pólar myndast oft í skoðunum fólks, er algengt að niðurlægja andstæðing sinn með því að bendla honum við slíka illsku og ógilda því málflutning þeirra.

Er það réttlátt að þeim sem vilja standa vörð um eigin gildi og menningu, sé borið saman við slík öfgakennd öfl? Við búum eftir allt á Íslandi. Varla tileinkast skaðleg áhrif þjóðernishyggju hér?

Einkunnarorðin, „Ísland fyrir Íslendinga“ er eitthvað sem margir myndu taka undir um þessar mundir. Mikilvægi þess að verja landið gegn áhrifum erlendra menningarheima sem ógna þúsaldar gömlum íslenskum venjum og menningu. Er réttlátt að kalla skoðanir sem þessar ‘öfgakenndar’ eða jafnvel hættulegar?

Þessi einkunnarorð og áhersla um að leggja vörð um íslenska menningu, er vitnað beint í 1. tölublað Íslenskrar Endurreisnar sem var gefið út 11. maí 1933.6 Blaðið var málgagn Þjóðernishreyfingar Íslendinga, stjórnmálahreyfingar sem sótti beinan innblástur í þýskan nasisma. Ef einhver efi er um tengingu hreyfingarinnar við nasistaflokk Hitlers, þá prýðir hakakross forsíðu blaðsins. Hér er bein tilvitnun í eina af helstu stefnumálum hreyfingarinnar:

Vér getum eigi þolað það lengur, að erlend leiguþý fái óhindrað að traðka á öllu því sem íslenskt er, og sópa burtu þúsund ára íslenskum venjum og íslenskri menningu. Vjer fáum eigi þolað lengur stjórn, sem er bæði dáðlaus og rög!

Þrátt fyrir gamalt orðbragð er þessi málflutningur keimlíkur því sem við sjáum í fjölmiðlum hvern einasta dag. Það er því ljóst að öfgakenndu öflin eru okkur ekki eins fjarlæg og margir myndu telja.

Að auki er áhugavert að sjá hvað blaðið eyðir miklu púðri í að verja málflutning sinn. Reiðilestur er skrifaður á hönd dagblöðum jafnaðarmanna, sem kalla hreyfinguna “ofbeldisfulla“ og jafnvel þurfa meðlimir hreyfingarinnar að þola „[ýmis] uppnefni, svo sem nasistar, fasistar og svartliðar.” Höfundur blaðsins ver skoðanir sínar á bak við ritfrelsi, sem er að vissu leyti kaldhæðnislegt þar sem frændur þeirra á Ítalíu og í Þýskalandi bjuggu við ritskoðaða fjölmiðla.

Árið 1933 þegar þetta er skrifað, var nasistaflokkurinn ný tekinn til valda í Þýskalandi og því enn 6 ár frá byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Þó okkur sé augljóst í dag að allur stuðningur við málflutning nasista Þýskalands og fasista Ítalíu og Spánar var hættulegur mannkyninu, þá var það ekki svo augljóst árið 1933.

Á þeim tíma stóð heimurinn frammi fyrir örum breytingum. Gríðarlegt mannfall og eyðilegging í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar lamaði efnahag margra þjóða, sem fékk endanlegt rothögg við verðbréfahrunið 1929. Heimurinn stóð þó einnig frammi fyrir öðrum breytingum: Útbreiðslu kommúnisma. Hugmyndafræði Karl Marx tók kjölfestu í Sovétríkjunum eftir rússnesku byltinguna 1917, þegar konungsvaldinu og ríkisstjórn landsins var steypt af stóli í blóðugri byltingu. Litu margir á þetta sem sigur fyrir verkalýðsstéttina, þar sem kallað var eftir því að kollvarpa auðvaldinu og færa máttinn í hendur borgara. Verkalýðsfélög sprettu upp kollinum og kallað var eftir því að afnema stéttaskiptingu.

Vert er að benda á að kommúnista stjórn Sovétríkjanna stóð einnig fyrir ýmsum hörmungum. Sem dæmi átti ríkisstjórnin beinan þátt í hungursneyð, sem dró milljónir manna til bana á árunum 1930-33. Vald var einungis í höndum borgara að nafninu til, en raunverulega stjórnaði ríkisstjórnin auð landsins af harðri hendi. Rétt eins og hjá óvinum sínum í vestri, voru fjölmiðlar ritskoðaðir og pólitískum andstæðingum bolað í burtu eða hreinlega myrtir, á meðan lýðræðið dó hægum dauðdaga.

Þegar örar breytingar verða á hugmyndafræði og stjórnsýslu í heiminum, er óhjákvæmilegt að mörgum finnist háttum sínum og lífshlaupi stafa ógn af þeim breytingum. Við það myndast bakslag sem ætlað er að koma í veg fyrir að þær breytingar hafi áhrif á samfélagið. Bakslagið í kjölfar útbreiðslu kommúnismans sáði þeim fræjum sem urðu til þess að fasisminn tók sér fótfestu í Evrópu. Fasistar þess tíma áttu það allir sameiginlegt að kommúnisminn var opinberlega þeirri helsti óvinur, hvort sem þar átti í hlut Mussolini, Hitler, Franco, eða Þjóðernishreyfing Íslendinga.

Ástæða þess að ég tel mikilvægt að rekja þátt öfgakenndrar hugmyndafræði við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, er sú að í dag stendur heimurinn einnig frammi fyrir örum breytingum. Í þetta sinn er það ekki kommúnisminn sem breiðir út vængi sína, heldur alþjóðavæðingin og frjálslyndisstefnan. Þar má helst nefna örar framfarir í málefnum kynsegin fólks. Líkt og oft áður myndast bakslag við þessum breytingum, en eins og sagan hefur kennt okkur, á slíkt bakslag það til að slá allt of langt í öfuga átt.

Þessi málefni eru alls ekki ný á nálinni, en aukin kraftur í mótspyrnunni gegn þeim er áberandi.

Til samanburðar vil ég vitna í uggandi nema Iðnskólans úr 5. tölublaði Iðnnemans sem var gefið út 1. febrúar 1934.7 Þessi nemandi skrifaði um ótta sinn við uppgangi nasisma á Íslandi. Vert er að taka fram að þessi nemandi, og blaðið í heild sinni, aðhylltist augljóslega hugmyndafræði kommúnismans og því sjálfkrafa óvinur íhaldsins. Þessi bútur úr greininni finnst mér þó eiga vel við:

Íslenska íhaldið sér nú að það er að missa völdin, og grípur nú fegins hendi í þetta vesala hálmstrá, nasismans, ef vera kynni, að með aðstoð hans gæti það hangið við völdin ofurlítið lengur.

Ísland er ekki með sérstakt móteitur gagnvart öfgakenndri þjóðernishyggju, þó hún sé ekki áberandi í okkar sögu. Vissulega náðu Þjóðernissinnar aldrei inn manni á þing og flokkurinn fjarlægðist sjónarsviðið algerlega á aðeins nokkrum árum. Augljóslega voru þó hér margir sem hugnaðist málstað fasismans.

Við þurfum þó ekki að fara langt til þess að sjá nýlegt dæmi um þá ógn sem stafar af öfga þjóðernishyggju. Líkt og á Íslandi, hafa stjórnmálaflokkar sem aðhyllast fasisma opinberlega aldrei náð fótfestu í norsku ríkisstjórninni. Þó var á millistríðsárunum stjórnmálahreyfing sem nefndist Fedrelandslaget (ísl. föðurlandsbandalagið), sem hafði um 100.000 meðlimi um 1930 og var undir beinum áhrifum fasisma frá meginlandinu.8 Það var þó löngu seinna árið 2011, þegar hörmungar áttu sér stað í Noregi. Líkt og hér, hugsuðu eflaust margir að í norsku samfélagi stafaði engin ógn af þjóðernishyggju. Anders Breivik afsannaði því miður þá kenningu með hryðjuverka árásum sínum. 77 manns lágu í valnum til þess eins að Breivik gæti vakið athygli á málstað sínum – málstað öfgakenndrar þjóðernishyggju.

Það má nefna fjölmörg dæmi af skaðlegum áhrifum öfgakenndrar þjóðernishyggju utan heimsstyrjaldanna. Þar mætti nefna borgarastríðin á Balkanskaga í kjölfar þess að Júgóslavía sundraðist, sem dró yfir 100.000 manns til bana. Yfirstandandi stríð í Úkraínu er annað gott dæmi, en óljóst er að svo stöddu hversu margir hafa fallið af völdum þess. Þjóðernishyggja er einnig rótgróin átökum Mið-Austurlanda, þó áhrif af völdum róttækra trúarbragða séu þar mest áberandi.

Á meðan spennustig í heiminum hækkar og stórþjóðir keppast um að vígbúast og uppfæra vopnabúr sín, skapar það fullkominn jarðveg fyrir róttæk öfl að gerjast. Vissulega er heimurinn í dag ekki sá sami og hann var á 4. áratug síðustu aldar, þegar fasismi stóð sem hæst og eyðileggingarmáttur þjóðernishyggju átti eftir að valda versta stríði mannkynssögunnar. Heimurinn er þó óneitanlega að upplifa hærri spennu en hefur gerst frá lokum Kalda stríðsins. Þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafa eytt mun meira fé í her uppbyggingu undanfarin misseri en tíðkaðist árum áður. Kína hefur staðið að stórum hersýningum til þess að auglýsa mátt sinn og telja margir að innrás í Taívan sé yfirvofandi. Innrásarher Rússa nýtur stuðnings Norður Kóreu, Kína og Íran, á meðan Vesturlönd styðja áfram við bakið á Úkraínumönnum. Friðarviðræður af hálfu Vesturlanda hafa ekki skilað árangri og stríðið á þá hættu að verða stórt leppstríð (eng. proxy war) stórveldanna, rétt eins og borgarastríðin í Kóreu og Víetnam.

Við komum því aftur að titilspurningu þessa greinar: Er þjóðernishyggja hættuleg?

Ég hef farið víða um sögu öfgakenndrar þjóðernishyggju á 20. öldinni og þá gríðarlegu eyðileggingu sem hún hafði í för með sér. Það er öllum ljóst sem rýna í spjöld sögunnar að slík eyðilegging er okkur ekki fjarlægur veruleiki. Upphaf hennar getur virkað saklaust, en okkur ber að vanmeta ekki dómínóáhrifin sem geta hrundið af stað. Þjóðræknir einstaklingar færa dálæti sitt á eigin uppruna yfir í stjórnmálin og úr verður þjóðernishyggja. Hópurinn myndar með sér andúð gegn þeim öflum sem þau telja spilla óbreyttu ástandi (lat. status quo). Þessi andúð persónugervist því næst í hatri gegn þessum öflum, sem á það til að beinast að innflytjendum og minnihlutahópum. Slíkir hópar breytast í blóraböggla fyrir því sem er að í samfélaginu. Með hatrinu gerjast þessar skoðanir enn meira og úr verða öfgar. Þá er ekki ýkja langt í fasisma.

Hvert er þá svarið við þessari spurningu? Sjálfur er ég ekki stjórnmálamaður og því engin ástæða til þess að tala endalaust í kringum hlutina. Ég tel þjóðernishyggju eina og sér ekki hættulega, en það sem hún kann að bera í skauti sér er stórhættulegt. Við erum ekki lengur þjóð sem heyjar sjálfstæðisbaráttu og því er þjóðernishyggjan ekki lengur tól sem þjóðarsálin nýtur góðs af.

Mörkin á milli meinlausar þjóðernishyggju og skaðlegra áhrifa öfga hennar er erfitt að greina. Því ber okkur að hafa varann á gegn þeirri hættu sem kann að skapast. Spyrjum okkur í einlægni hvort það stafi raunveruleg ógn af áhrifum annarra menningarheima, eða hvort þessi hræðsla sé uppmögnuð og ekki byggð á neinum röksemdum?

Næst þegar þér blöskrar það að dregin sé upp hliðstæða við holdgerving illskunnar og þjóðernishyggju, þá skaltu rýna betur í það hvaðan þessi hliðstæða kemur og hvort hún eigi virkilega ekki rétt á sér. Við höfum ekki efni á því að blindast af trú um eigið ágæti og nostalgíu fyrri tíma. Draugurinn sem slík hugsjón kann að kveða upp er erfitt að sjá fyrir, þar til hann hefur magnast svo að ógerlegt er að bregða honum á bak fyrir.

Kári Liljendal Hólmgeirsson er menntaður kvikmyndagerðarmaður og óflokksbundinn.

 

Neðanmálsgreinar

[1.] Samkvæmt orðabók Árnastofnunar er skilgreining þjóðernishyggju svohljóðandi: Það viðhorf að vilja varðveita sérkenni og sérstöðu þjóðar sinnar og hamla gegn erlendum áhrifum.

[2.] Myndband af þessum skemmtilega dansi má finna hér: https://www.reddit.com/r/soccer/comments/z7zlko/moroccan_fan_joining_the_senegalese_festivities/

[3.] Margaret Thatcher gekkst í embætti forsætisráðherra Bretlands tveimur árum áður, eða árið 1978. Það má færa rök fyrir því að hún hafi verið fyrsti kvenkyns þjóðarleiðtoginn í lýðræðisríki, þó hún hafi ekki verið forseti.

[4.] Sjá grein eftir Ólöf Garðarsdóttur og Loft Guttormsson, "The Development of Infant Mortality in Iceland, 1800–1920" (https://www.researchgate.net/publication/26465841_The_Development_of_Infant_Mortality_in_Iceland_1800-1920) og línurit Our World In Data: https://ourworldindata.org/grapher/child-mortality?country=USA~GBR~SWE~FRA~ISL~DNK~OWID_EUR~ITA

[5.] Sjá grein Guðmundar Hálfdanarsonar, titluð: “Iceland: A Peaceful Secession” (https://doi.org/10.1080/03468750050115609)

[6.] Hægt er að nálgast 1. tölublað Íslenskrar endurreisnar hér: https://timarit.is/page/4648088?iabr=on#page/n0/mode/2up

[7.] Hægt er að nálgast 5. tölublað Iðnnemans hér: https://timarit.is/page/4394995?iabr=on#page/n3/mode/2up/

[8.] Oft deila menn um það hvað felst í hugtakinu ‘fasismi’. Í bók sinni, „The Nature of Nordic Fascism: An Introduction“, telja höfundar Nicola Karcher og Marcus Lundström að fasismi einskorðist ekki af ákveðinni pólitík. Fasísk hugsjón geti búið beggja vegna við hinn pólitíska hægri-vinstri skala og einkennist fyrst og fremst af öfgakenndri þjóðernishyggju.

Hægt er að nálgast bókina hér: https://www.researchgate.net/publication/366249222_The_Nature_of_Nordic_Fascism_An_Introduction

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 18:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30

Græni dagurinn

Hlín Bolladóttir skrifar
07. nóvember 2025 | kl. 22:30

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Jón Hjaltason skrifar
03. nóvember 2025 | kl. 15:30