Fara í efni
Umræðan

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Sannarlega skiptir ekki öllu málið hvað við köllum reitinn – sem lengi vel var notaður fyrir sumartjaldsvæði og umlykur gamla Húsmæðraskólahúsið. Það sem máli skiptir núna er hvernig við nýtum svæðið - til að bæta byggðina og veita umtalsverðum fjölda borgara framtíðarinnar aðgang til gæða-búsetu.

Til þess að unnt verði að treysta á að vel verði unnið úr málinu er mikilvægt að sem flestir bæjarbúar láti sig málið varða og geri kröfur um að skipulagsyfirvöldin viðurkenni gríðarlega mikilvægt samfélagsverðmæti í þessu miðlæga svæði – nærri hjarta bæjarins þar sem er Sundlaug Akureyrar og Íþróttahöllin og Menntaskólinn á Akureyri og ekki allfjarri Akureyrarkirkju – og stutt til allra átta.

Fyrir nokkrum missirum varpaði undirritaður fram hugmynd um að Akureyrarbær ætti frumkvæði að því að stofna „Þróunarfélag“ um alla hönnun og uppbyggingu á svæðinu – og gæti með því tryggt að markmið um almenningshagsmuni verði í forgrunni þessarar nýtingar.

Við vitum að það einhliða verktakaræði sem hér hefur þróast - meira og minna frá aldamótum hefur ekki fært okkur hagkvæmar byggingar og alls ekki tryggt framboð fyrir alla hópa. Áherslur Bæjarstjórnar Akureyrar upp á síðkastið hafa gefið einstökum - og stundum „völdum“ verktökum - fáránlega opið spil við framkvæmdir og útfærslu á skipulagi og með því hefur framboð á dýrum og óhentugum íbúðum - ma. í miðbæjarnánd aukist langt umfram það sem hefur gagnast fjölskyldufólki í bænum eða þeim eldri borgurum sem ekki vaða í peningum. Vel efnaðir eldri borgarar og umsvifafólk frá Höfuðborgarsvæðinu hafa vissulega keypt mikið af nýbyggðum íbúðum – en á sama tíma hefur bókstaflega ekkert verið byggt fyrir hófsamar þarfir þeirra eldri borgara sem ekki hafa eignastöðu og hanga á horrimum lágmarkslífeyris.

Undirritaður átti aðild að því á einum tíma að leggja upp viljayfirlýsingu um samstarf Akureyrarbæjar, Búfesti og EBAK um umtalsverða uppbyggingu breiðra íbúðagerða – fyrir mismunandi þarfir hópsins sem kominn er á 60+ aldurinn. Lögð var upp metnaðarfull skipulagshugmynd fyrir Holtahverfið – þar sem rými hefði verið fyrir dýnamiska félagseiningu og þjónustu við breiðan hóp með allt að 150 íbúðir í forgang fyrir eldri borgara. Því miður fargaði fyrrverandi bæjarstjórn þeim hugmyndum öllum og afhenti verktökunum í staðinn lykilstöðu - til að fénýta þau verðmæti sem í byggingarsvæðinu fólust og skildi eftir vandræðanýtingu - reit, sem nú endar mögulega á óhagkvæmu hjúkrunarheimili með takmörkuðu þjónusturými sem verður þá ekki auðvelt að nýta nema af mjög fámennum hópi eldri borgaranna. Svo sorglegt sem það líka er þá kappkostaði ríkisstjórnin sem sat 2017-2024 að rústa meira og minna öllum fjármögnunarleiðum almennra íbúðafélaga í samvinnu- og sjálfseignarfélögum.

Frammistaða Akureyrarbæjar til að leggja upp ásættanlegan ramma fyrir heimilisöryggi eldri borgara í bænum er að mínu mati alls ekkert til að hrópa húrra fyrir. Húsnæðismál og rekstur Dvalarheimilisins Hlíðar - undir handarjaðri Akureyrarbæjar fóru á endanum bókstaflega í handaskolum – og það var virkilega hörmulegt að sveitarfélagið skilaði rekstrinum af sér í hagnaðarvæddar hendur - og aukin heldur í mygluðu húsnæði. Aðgengi eldri borgara að þjónustuíbúðum og dvalarplássum er hangandi á biðlistum og óvissu og á sama tíma er lítið eða ekkert húsnæði sem er sérbúið fyrir þarfir þeirra sem vilja og geta framlengt sjálfstæða búsetu sína á eigin heimili – með lágmarks-/takmarkaðri þjónustu. Úthlutun Akureyrarbæjar á lóðum til bygginga á íbúðum í forgang fyrir eldri borgara hefur að langmestu leyti miðast við efnafólkið – og sáralítið eða ekkert verið gert til að mæta þeim sem eru eignalausir eða með veika fjárhagsstöðu við stundum ótímabær starfslok.

Hér er því mjög brýn þörf fyrir nýbreytni eða stefnubreytingu frá vinavæddu verktakaræði og græðgi – þar sem mest áhersla er lögð á gróða en minni áhersla á hagkvæmni og gæði í hófsömum íbúðabyggingum sem samt geta þjónað ólíkum hópum – óháð efnahag.

Það „liggur í loftinu“ nokkuð óljós hugmynd um að Bæjarstjórn Akureyrar hafi í hyggju að afhenda einum „völdum fjárfesti“ forræði á Tjaldsvæðisreitnum til að ráða þar með ferð í hönnun og útfærslu á skipulagi – og halda um leið á þeim gríðarlegu hagnaðarmöguleikum sem í svæðinu felast. Ef af því verður þá má halda því fram að það sé framlenging og ýkt útgáfa af fyrikomulagi sem hefur ekki verið að skila almenningi góðum kjörum og ódýrum og hentugum íbúðum. Þá er einkum að huga að ungu fjölskyldufólki og líka þeim sem eru laskaðir af eldri fjármála-áföllum sem því miður hafa tilhneigingu til að ganga í erfðir frá foreldrum. Þannig er bæði um verðtryggingarsjokkið 1983-1984 og svo EfnahagsHrunið stóra 2008 – sem rústaði efnahag fólks með stökkbreytingu lána og innheimtuhörku banka og Íbúðalánasjóðs og mörgum er í óþægilega fersku minni.

Ríkir almannahagsmunir

Lóðaréttindi sem skipulagsvaldið úthlutar og selur eftir atvikum eru gríðarleg verðmæti - einkum þegar fasteignamarkaður er verðbólginn eins og nú um skeið. Það er þess vegna lýðræðislega mikilvægt að sveitarfélagið Akureyrarborg fari vel með slíkt vald – og þjónusti helst alla borgara og tryggi í ákvörðunum sínum að öllum verði mögulegt að fá og finna aðgang að heimilisöryggi – hvort sem væri í séreignaríbúð, hagkvæmum búseturéttaríbúðum eða hlutdeildareignum – eða í leiguhúsnæði.

Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi er rík hefð fyrir byggingum og íbúðarekstri í neytendadrifnum félögum - samvinnufélögum og/eða búseturéttarfélögum - með meira og minna samstarfi við sveitarfélög og í verndaðri lagaumgjörð þar sem hagkvæmar fjármögnunarleiðir eru tryggðar. Í hinum enskumælandi heimi, Bretlandi, mörgum ríkjum USA og Canada er algengt að staðbundin landþróun og uppbygging kjarna og svæða sé vistuð í sjálfseignarfélögum eins og „Community-Land-Trust“ sem eru „samfélagseignir“ sem eru án hagnaðarkröfu og óheimilt að selja eða fénýta í einkahagnaðarskyni. Þar koma sveitarfélög/fylki, velvildarfjárfestar, fyrirtæki og einstaklingar til samstarfs um að halda utan um þróun og uppbyggingu – sem verður framseld og framleigð til aðila á „raunverði“ en kvaðir um að óheimilt sé að selja áfram til þriðja aðila eru ævarandi á húsnæði - hvort sem er til atvinnustarfsemi eða til einkanota. Leigusamningar í slíku húsnæði eru viðurkennd verðmæti.

Hér með skorar undirritaður á kjósendur á Akureyri að pressa á kjörna fulltrúa í sitjandi bæjarstjórn að láta af hugmyndum um að „afhenda völdum verktaka/fjárfesti“ Tjaldsvæðisreitinn til óskilyrtrar fénýtingar. Jafnframt að hvetja til þess að stofnað verði „þróunarfélag“ – með frumkvæði Akureyrarbæjar þar sem látið væri reyna á möguleika til að þróa og byggja þessa verðmætu samfélagseign til lífsgæða fyrir sem flesta framtíðarborgara - mögulega á grunni „CLT-sjálfseignarfélags“ með stuðningi af samvinnufélagi leigjenda og hlutdeildarbúseturéttareigenda og búseturéttarfélagi um séreign fullfjármagnaðra eigna.

Lögheimiliskvöð - kynslóðablöndun

Mikilvægt er að þarna verði blandað samfélag - allra kynslóðahópa - og einkum auðvitað að nýtingin verði í þágu fólksins sem hér býr og ætlar að búa. Þess vegna þarf að áskilja að eigendur og leigjendur hafi lögheimili í viðkomandi eign og framleiga sé einungis tímabundin miðað við t.d. hámark 2 ár ( - og þá vegna aðstæðna eins og vinnu eða náms annars staðar). Til áréttingar á fyrri hugmyndum sem undirritaður hefur viðrað um þess „samfélagseign“ má leggja upp með að 1/3 íbúða verði í forgang fyrir aldurshópinn 60+ og annar 1/3 í forgang fyrir fólk með börn 0-15 ára og einn þriðjungur óskilyrtur - fyrir einstaklinga eða fjölskyldur af breytilegri samsetningu. Um fjármögnun eigna mætti leggja upp með að 20% væri leiguíbúðir með stuðningi og 40-50% væru búseturéttaríbúðir með 20-50% hlutdeildareign og 30-40% væru með fullfjármögnuðum búseturétti.

Þétt og lágreist byggð - með 2ja og mest 3ja hæða hús – og í 4 hæðir á norðurmörkunum er að mínu mati æskileg. Bílakjallari og ódýrari bílskýli í jöðrum - snjóbræddir stígar og skýldar stéttar með áningarsvæðum – ættu að geta tryggt örugga umferð – líka þeirra sem þurfa staf eða hjólastuðning. KEA-búðin er lokuð og hætt er við heilsugæslustöð - þannig að íbúðafjöldi á svæðinu verður verulegur umfram það sem fyrstu tillögur gerðu ráð fyrir. Líklega er langréttast að gera mini-íbúðir og „fundarsal” í gamla skólahúsinu - og fella það inn í heildarnýtingu svæðisins.

Sannarlega er óskandi að EBAK/ Félag eldri borgara og samvinnufélögin vakni nú upp og komi til liðs við samfélagslega nýtingu Tjaldsvæðisreitsins í þágu almennings og berjist af alefli gegn því að „völdum verktaka/fjárfesti“ verði afhent svæðið og gefið færi á að stinga ávinningnum í einhvern rassvasa.

Benedikt Sigurðarson er kjósandi sem var æði lengi búandi og starfandi nærri Tjaldsvæðinu og er enn fastagestur í Sundlaug Akureyrar.

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30

Græni dagurinn

Hlín Bolladóttir skrifar
07. nóvember 2025 | kl. 22:30

Afsakið – Kemst ekki á fundinn

Jón Hjaltason skrifar
03. nóvember 2025 | kl. 15:30

Varaflugvallagjaldið og flugöryggi

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
01. nóvember 2025 | kl. 15:30