Fasteignaskattsprósenta lækkar!
Fjárhagsleg ábyrgð og framtíðarsýn fyrir Akureyrarbæ
Eitt af meginhlutverkum bæjarstjórnar er að byggja upp stöðugt, öflugt og framsækið samfélag þar sem íbúar og fyrirtæki dafna í góðu umhverfi til búsetu og rekstrar. Við í meirihlutanum höfum lagt ríka áherslu á að fjármál bæjarins séu traust og sjálfbær, en einnig að við sýnum sveigjanleika þegar tækifæri gefast til að létta undir með fólki og atvinnulífi. Þess vegna leggjum við nú til lækkun fasteignaskatts á fyrirtæki um tvo punkta og á íbúðarhúsnæði um þrjá punkta.
Létt á heimilum
Hækkandi verðbólga og vextir hafa þrengt að mörgum heimilum. Þótt fasteignaskattur sé aðeins hluti af heildarútgjöldum fjölskyldna, getur hann haft veruleg áhrif þegar hann bætist ofan á aðra kostnaðarliði. Með þessari lækkun þar sem álagningarprósentan fer úr 0,31% í 0,28 %, viljum við senda skýr skilaboð: bæjarfélagið stendur með íbúum sínum, og við viljum gera okkar til að draga úr álagi á heimilin.
Sterkara atvinnulíf – betra samfélag
Fyrirtækin okkar eru burðarás í samfélaginu. Þau skapa störf, greiða skatta og styðja við menningu og íþróttir. Með því að lækka álagningarprósentuna úr 1,63% í 1,61% á fyrirtæki gefum við þeim svigrúm til að fjárfesta meira, ráða fleiri starfsmenn og halda áfram að vaxa hér á Akureyri. Þetta er fjárfesting í framtíðinni, í fjölbreyttu atvinnulífi og sterkum bæ.
Ábyrg fjármálastjórn
Sumir kunna að spyrja: getum við leyft okkur þetta? Svarið er já, því lækkunin byggir á traustum grunni. Fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst á undanförnum árum, tekjur hafa haldist stöðugar og við höfum náð árangri í að halda utan um rekstur og skuldir. Við leggjum áherslu á að þessi skattalækkun sé hluti af heildstæðri stefnu sem tryggir jafnvægi milli þjónustu, fjárfestinga og ábyrgra fjármála.
Framtíðarsýn
Við sjáum Akureyrarbæ sem sveitarfélag þar sem gott er að búa, starfa og byggja upp framtíð. Lækkun fasteignaskatta er ekki einangruð aðgerð – hún er hluti af stærra markmiði: að gera Akureyrarbæ að aðlaðandi og samkeppnishæfu samfélagi, þar sem jafnvægi ríkir milli hagkvæmni, velferðar og tækifæra.
Við trúum því að með því að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki sýnum við að við búum við traustan rekstur og það að lækka álögur mun skila sér í sterkara, blómlegra samfélagi.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista
Heimir Örn Árnason D-lista
Hlynur Jóhannsson M-lista
Andri Teitsson L-lista
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista
Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir L-lista
Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu
Græni dagurinn
„Sofðu rótt í alla nótt“– Um stöðu íslenskunnar, lestrarmenningu og ákall til okkar sjálfra
Afsakið – Kemst ekki á fundinn