Fara í efni
Umræðan

Þjónustufall á landsbyggðinni í skugga uppsagna ferliverkasamninga, hvað þarf til að stjórnvöld bregðist við?

Staðan á Sjúkrahúsinu á Akureyri er alvarleg en rétt er að greina frá því að hún er margþætt og á sér lengri aðdraganda en uppsagnir ferliverkasamninga eins og hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Þetta hefur áhrif á heilbrigðiskerfið í heild sinni en ekki einungis upptökusvæði SAk og snertir því augljóslega öryggi sjúklinga víða. Athyglin virðist öll á ferliverkasamningum en fátt annað heyrist opinberlega. Víðtækur, kerfislegur og alvarlegur vandi i lengri tíma en uppsagnir ferliverkasamninga án annarra raunhæfra lausna fylltu mælinn. Manneklan og lítil endurnýjun í sérgreininni fyrir norðan ofan á aukna eftirspurn gera aðstæður sjúkrahússins erfiða. Nýtilkomnar kjarabætur lækna með samningum frá því i vor hafa reynst óraunhæfar i framkvæmd á stórri einingu eins og innan lyflækninga á SAk. Þar eru örfáir sérfræðingar sem sinna sérhæfðri og fjölbreyttri þjónustu á öllum tímum sólarhringsins. Aðkoma heilbrigðisráðuneytis að lausnum er óhjákvæmileg til að komast úr núverandi krísu Sjúkrahússins á Akureyri og svæðisins.

Með ýmsum leiðum höfum við upplýst heilbrigðisráðuneytið og aðra stjórnmálamenn um alvarlegar afleiðingar þagnarinnar og úrræðaleysisins, en hvað þarf til að stjórnvöld bregðist við?

Þörf er á að bregðast við til að tryggja öryggi almennings en ekki síður þarf að ræða hagkvæmni þjóðarinnar. Yfirvofandi flutningar sjúklinga suður er ekki minna kostnaðarsamt. Að leggja niður þjónustuna tekur enga stund samanborið við uppbyggingu á ný. Hefur Landspítalinn svigrúm til að taka við auknum fjölda sjúklinga? Er forsvaranlegt að seinka greiningu og meðferð íbúa landsbyggðarinnar af því ekki var leitað lausna á meðan hægt var? Verður hægt að tryggja bráðaþjónustu á sjúkrahúsinu? Ætti ekki að varðveita og byggja upp varasjúkrahús landsins? Þarf ekki að gæta kennslusjúkrahússins fyrir framtíðar lækna í sjáanlegum læknaskorti landsins? Og tryggja sérgreinalækningar utan höfuðborgarsvæðisins?
 
Erfiðara er að tryggja sérgreinaþjónustu inni á sjúkrahúsi í mannfæðinni á Akureyri þegar stofurekstur er áberandi kostur. Staðan er ekki samanburðarhæf við Landspítala eða höfuðborgarsvæðið. Þjónustuskerðing lyflækninga á SAk hefur áhrif á flestar deildir og starfsemi sjúkrahússins, aðrar stofnanir svæðisins og eykur álag á Landspítala. Þetta er kerfisleg hætta.
 
Færnin glatast með mannauðnum sem hefur til fleiri ára byggt upp breiða starfsgetu innan lyflækninga á SAk. Halda þarf í metnaðarfulla starfsfólkið sem nú tryggir nauðsynlega þjónustu á stóru svæði landsins. Samhliða þarf að leita lausna til að laða að fleiri lækna. Farsæl framtíð er samningaform með jafnrétti allra og heilbrigt starfsumhverfi að leiðarljósi og tryggja þarf jafnvægi milli vinnuálags og fjölskyldulífs. Landsbyggðin er hluti af heilbrigðiskerfi landsins. Mannauðurinn er mikilvægur. Klukkan tifar, andrúmsloftið þyngist og starfsfólkið finnur sig þurfa komast úr óvissunni. Án samvinnu við heilbrigðisráðuneytið er kerfislegur vandi vanleystur og erfitt verður að tryggja mikilvæga læknisþjónustu hér á svæðinu - eins og okkur ber að gera.
 
Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson eru læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Fallorka og Orkusalan – saman í stanslausu stuði!

Rúnar Sigurpálsson og Magnús Kristjánsson skrifa
20. nóvember 2025 | kl. 12:00

Er þjóðernishyggja hættuleg?

Kári Liljendal Hólmgeirsson skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 15:00

Fasteignaskattsprósenta lækkar!

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 19:00

Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. nóvember 2025 | kl. 18:00

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. nóvember 2025 | kl. 11:30

Græni dagurinn

Hlín Bolladóttir skrifar
07. nóvember 2025 | kl. 22:30