Fara í efni
Umræðan

Að eiga hvorki til hnífs né skeiðar

Að eiga hvorki til hnífs né skeiðar

Synd og skömm er að hugsa til þess að fólk í okkar góða og velferðar ríka landi skuli þurfa að berjast við fátækt. Fyrir foreldra er það skelfileg staða að geta ekki séð börnum sínum farborða samkvæmt kröfum nútímans. Enginn vill lenda í þeirri sorglegu stöðu en, því miður eru það allmargir sem glíma við þennan vanda og meira að segja hér í okkar fallega bæ.

Börn í þessari erfiðu stöðu eru líklegri en önnur börn til að verða fyrir einhvers konar aðkasti á lífsleiðinni. Þau falla ekki að viðtekinni ímynd samfélagsins og finnst þau ekki viðurkennd. Því miður verða sum þessarra barna fyrir ofbeldi af einhverju tagi eins og t.d. einelti, því þau njóta ekki sömu gæða og önnur börn. Mikil hætta er á að þau leiðist út í vinskap þar sem þau eru viðurkennd og þá jafnvel í einhvers konar neyslu. Þau þjást af kvíða og óöryggi og einnig skömm yfir því að falla ekki að staðalímynd samfélagsins.

Á vef Akureyrarbæjar segir að ýmsar ástæður geti legið að baki því að fólk þurfi fjárhagsaðstoð, s.s.vegna lágra launa, veikinda eða atvinnuleysis. Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að 191.258 kr. til einstaklings og 306.010 kr. fyrir hjón. Barnafjöldi er þarna ekki tekin með í reikninginn. Ef sett er upp dæmi þar sem einstaklingur á leigumarkaðnum þarf á þessari þjónustu að halda sér hver heilvita maður að slíkt dæmi gengur engan veginn upp. Hvernig stenst það að nokkur maður eigi að geta lifað af þessum tekjum? Það er óskiljanlegt að þeir sem reikna þetta út sjái ekki svart á hvítu að það sé gjörsamlega ómögulegt. Þessir einstaklingar sjá ekki fyrir sér að eignast nokkurn tímann þak yfir höfuðið því þetta er vítahringur sem vindur bara upp á sig. Einnig má nefna að fái einstaklingur fjárhagsaðstoð vegna skólamáltíða eða leikskólagjöld, þarf sá hinn sami að greiða af því skatta árið eftir.

Í mörg ár hefur verið starfrækt facebook síða, „matargjafir á Akureyri og nágrenni“. Sú síða er rekin af einstaklingi af hugsjón og umhyggju og algjörlega án allra styrkja. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnanda síðunnar hefur beiðnum um mataraðstoð fjölgað. Að meðaltali fái sjö fjölskyldur aðstoð daglega!!! Þetta er sláandi staðreynd. Skjólstæðingar síðunnar er fólk sem ekki stundar vinnu af ýmsum ástæðum eða er í vinnu en nær ekki endum saman.

Sumir búa í félagslegum íbúðum þar sem húsaleiga hefur hækkað töluvert. Ýmist einstaklingar eða fjölskyldufólk leitar eftir þessari mataraðstoð. Samkvæmt stjórnanda síðunnar fjölgar beiðnum fljótlega upp úr mánaðamótum þar sem laun skjólstæðinganna duga vart fyrir útgjöldum og sumir geti ekki nestað börn sín í skóla þar sem enginn matur er til. Fyrir tilstuðlan fólks í bænum hefur reynst mögulegt að útvega mörgum fjölskyldum mat.

Hér erum við á Akureyri árið 2022 og enn er hægt að tala um fátækt því hún er sannarlega til. Það hljóta að vera þung spor fyrir hvern sem er að sækja sér mataraðstoð. Öll börn eiga að sitja við sama borð og öll eiga þau að fá mat í skólum óháð efnahag foreldra.

Flokkur fólksins vill útrýma fátækt og að fólk geti lifað mannsæmandi lífi laust við skömm og haldið reisn sinni. Byggjum upp betri bæ þar sem enginn þarf að líða skort. Að börn fái fría máltið í skólum er okkur hugleikið og að börn verði ekki fyrir aðkasti vegna fátæktar foreldra sinna, því að svo sannarlega er fátækt til, og það hér í okkar fallega bæ. Gerum bæinn betri og hugsum um fólkið fyrst, síðan allt hitt.

Hannesína Scheving er bráðahjúkrunarfræðingur og framhaldsskólakennari við VMA. Hún skipar fjórða sæti á listi Flokks fólksins við komandi bæjarstjórnarkosningar.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00