Tveir mikilvægir stólpar í lífi bæjarbúa allra
Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, flutti eftirfarandi prédikun við messu í Akureyrarkirkju síðastliðinn sunnudag, 16. nóvember; hátíðarmessu í tilefni 85 ára vígsluafmælis kirkjunnar og 80 ára afmælis Kirkjukórs Akureyrarkirkju. Biskup gaf akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta prédikunina.
Syngjandi söfnuður
Kæri söfnuður, innilega til hamingju með afmælið.
Það er ekki á hverjum degi sem við fögnum tveimur jafn merkum afmælum samtímis, 85 árum frá vígslu Akureyrarkirkju – Kirkju Matthíasar Jochumssonar og 80 árum frá stofnun kórsins sem hefur fyllt þessa fallegu kirkju söng og hlýju nánast frá upphafi. Þetta er afmæli tveggja mikilvægra stólpa í lífi safnaðarins og bæjarbúa allra: Annars vegar er það kirkjan, traust og reisuleg, tákn bæjarins og hins vegar kórinn sem skapað hefur líf og fegurð í helgihaldi kirkjunnar í áratugi.
Undir þessu þaki hafa kynslóðir komið saman í gleði og sorg. Börn borin til skírnar, hjón játast ... ástvinir kvaddir. Í hart nær heila öld hefur þessi kirkja haldið utan um dýrmætustu stundir lífsins og, ekki síður, verið til staðar fyrir bæjarbúa í hversdagsleikanum, í daglegu lífi. Þessi kirkja er nefnilega ekki eingöngu hús utan um helgihald heldur er hún tákn um líf og samstöðu fólks á Akureyri.
Akureyrarkirkja er lifandi hús og líftími kórsins og metnaður í öllu safnaðarstarfi ber þess vitni að hér er líf. Hér er trúarlíf.
Hér stendur kirkjan tignarleg á einstökum stað sem einn af hornsteinum samfélagsins. Og um leið er hún lifandi samfélag fólks. Hún er það sem Þjóðkirkjan stendur fyrir, kirkja með ríka sögu og hefðir. Rammi um trúarlíf og andlega næringu og kirkja sem sífellt leitar nýrra leiða til þess að finna bænum, boðun og þjónustunni farveg.
Kirkjur eru mikilvægar fyrir ásýnd bæja, borga og sveita og hér er það einmitt Akureyrarkirkja sem er tákn bæjarins. Þegar fréttir berast frá Akureyri í fjölmiðlum, er það gjarnan Akureyrarkirkja sem prýðir fréttina enda tel ég víst að stór hluti landsmanna kannist við kirkjuna, og ekki síður kirkjutröppurnar, hvort sem við höfum komið inn í hana eða ekki. Kirkjan, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, stendur hér svo fallega móti norðaustri með sína fögru steindu glugga er segja sögu Krists og kristnisögu Íslands um leið og þeir sveipa kirkjuskipið einstöku ljósi.
Seint verður sagt um Akureyringa að þeir séu haldnir minnimáttarkennd og því réð ég mér biskupsritara héðan og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég vissi að norðlenskir eiginleikar væru nauðsynlegir á skrifstofu biskups í kirkju sem er í sókn.
Ertu nóg?
Í dag er næst síðasti sunnudagur kirkjuársins og styttist því í nýtt ár í kirkjunni sem hefst fyrsta sunnudag í aðventu. Spurning dagsins á þessum degi, sem gjarnan er kenndur við dóm Guðs er: „Ert þú nóg eða er ég nóg?“ Er framlag þitt nógu mikilvægt, ertu nógu duglegur eða nógu skemmtileg? Ertu nógu trúaður og hefur þú sýnt nægan náungakærleika?
Við heyrðum áðan söguna af meyjunum tíu sem biðu brúðgumans. Fimm voru hyggnar og höfðu undirbúið sig fyrir óvænta uppákomu. Þær voru því með auka olíu fyrir lampana sína. Fimm komu hins vegar ekki með neinar viðbótarbirgðir.
Svo seinkar brúðgumanum og þær sem ekki voru með nægilegt ljós á lömpunum sínum sáu að ljósið þeirra myndi ekki duga. Þegar ljóst var að þær sem voru með viðbótarolíu gátu, eða vildu, ekki deila með sér til hinna þá fóru þær í burtu til að kaupa meiri olíu. Það tók síðan svo langan tíma að þær komu of seint til brúðkaupsins og var ekki hleypt inn.
Þessi saga talar beint inn í aðstæður hinna fyrstu kristnu er biðu endurkomu Krists og töldu von vera á honum á hverri stundu. Þau gerðu því allt sem í þeirra valdi stóð til þess að vera reiðubúin komu hans.
Þessi saga er ekki auðveld. Það er mikil dómharka í henni og stangast hún á við svo ótal margt í öðrum boðskapi Krists. Sagan um meyjarnar hefur gjarnan verið túlkuð með þeim hætti að ef þú ert ekki tilbúin – tilbúinn – tilbúið fyrir guðsríki, fyrir endurkomu Krists, þá kemst þú ekki inn. Þá færð þú ekki að vera með í guðsríkinu.
Þá aftur að spurningunni, ert þú nóg/er ég nóg? Dugir þitt framlag?
Er kirkjan nóg?
Akureyrarkirkja?
Þjóðkirkjan?
Meyjarnar sem komu með auka birgðir af olíu voru nóg. Þær vissu að þær höfðu staðið sig vel, gert allt sem rétt var og satt og ljósið þeirra logaði skært.
Meyjarnar sem ekki gerðu ráð fyrir neinum uppákomum upplifðu að þeirra framlag dygði ekki. Ljósið þeirra hafði dofnað og þær voru hræddar um að hafna í myrkrinu, að þær væru ekki verðugar. Þær fóru því og leituðu á önnur mið, til þess að bæta sig. Þær voru sannfærðar um að þær yrðu ekki samþykktar ef þær gerðu ekki eitthvað í sínum málum.
Hver kannast ekki við þetta?
Við lifum í heimi þar sem við þurfum stöðugt að sanna fyrir hvert öðru, og okkur sjálfum, að við séum verðug. Að við séum dugleg, klár, falleg og skemmtileg. Að við séum að standa okkur sem manneskjur. Hvers vegna ætti þá Guð að samþykkja okkur þegar við upplifum okkur ekki duga gagnvart náunganum og okkur sjálfum. Guð hlýtur jú að gera jafnmiklar kröfur ef ekki meiri.
„Imposter syndrome“, sem stundum er þýtt á íslensku sem loddaralíðan er hugtak sem er notað yfir þá upplifun að framlag okkar sé ekki jafn gott og það virðist og að brátt muni fólk sjá í gegnum okkur. Það er bara heppni að ég er á þeim stað sem ég er á. Það getur ekki verið vegna eigin verðleika, að ég hafi eitthvað í þetta. Við erum mörg sem þekkjum þessa tilfinningu og þessi líðan getur verið viðvarandi þrátt fyrir endurtekinn árangur. Líðan okkar og upplifun á okkur sjálfum er ekki alltaf í samræmi við raunverulega frammistöðu okkar, og hvað þá í samræmi við gildi okkar sem manneskjur.
Við vitum þó öll innst inni að engin manneskja er fullkomin. Við gerum öll mistök. Og við gleymum öll varabirgðunum einhvern tíma.
Hvað ætli hefði gerst ef meyjarnar fimm, sem voru að missa ljósið sitt, hefðu ekki farið að bæta á birgðirnar, ef þær hefðu mætt brúðgumanum þrátt fyrir sína daufu birtu, eða jafnvel beðið hans í myrkrinu? Getur verið að þeim hefði verið hleypt inn þrátt fyrir allt?
Sá Guð sem Jesús frá Nasaret birtir okkur er ekki Guð sem lokar okkur úti vegna þess að ljósið okkar er ekki nógu skært. Það eru mun meiri líkur á því að við lokum okkur sjálf úti vegna þess að við erum ekki nóg.
Við lendum flest einhvern tíma í myrkri og þá segir Jesús: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ segir Jesús í Matteusarguðspjalli (11:28). Hann segir ekki komið til mín, þið sem eruð full af orku, hafið staðið ykkur vel og finnið ykkur aldrei í myrkri.
Í augum Guðs ert þú nefnilega ekki aðeins nóg, heldur miklu meira en nóg. Þú ert elskuð eins og þú ert. Jesús átti sína myrku daga og ljósið hans logaði ekki alltaf jafn skært. Það er alveg eins með okkur, þig og mig.
Því er það svo að ef ljósið okkar fer að dofna og við eigum enga auka orku eftir þá er lausnin ekki að snúa okkur frá Guði á meðan við vinnum í okkur og bætum við ljósið okkar heldur að við snúum okkur beint til Guðs. Guð, sem þekkir hvert hár á höfði þínu, veit hvernig það er að vera þú og þú ert jafn velkominn og elskaður hvort sem ljósið þitt er dauft eða skært. Gagnvart Guði þurfum við aldrei að burðast með loddaralíðan. Hana er aðeins að finna gagnvart náunganum og okkur sjálfum.
Kirkjan
Það er gott til þess að vita að þegar ljósið okkar fer að dofna þá er ávallt hægt að fylla á birgðirnar með því að koma í kirkjuna. Hlutverk kirkjunnar er að taka á móti okkur hvort sem við erum stödd í myrkrinu eða þegar allt leikur í lyndi.
Og þessu hlutverki hefur Akureyrarkirkja alla tíð sinnt af alúð. Hér er ekki aðeins í boði helgihald og trúariðkun sem nærir sál og anda heldur er hér iðkuð kærleiksþjónusta sem getur skipt sköpum þegar kemur að lýðheilsu safnaðarins. Þá er ég að tala um alla sálgæsluna, safnaðarstarfið fyrir alla aldurshópa og þar á meðal Einbúakaffið sem beinlínis er hugsað til þess að rjúfa einangrun og vinna gegn einmanaleika sem er eitt af stærri lýðheilsuvandamálum samfélagsins í dag. Hér er ég líka að tala um kórinn sem þjónað hefur í þessari kirkju í áttatíu ár og veitt gleði og næringu jafnt þeim er sungið hafa með kórnum og okkur hinum sem njótum.
Í dag vil ég þakka kórnum, organistum, kórstjórnendum, sóknarnefndum, prestum og öðrum sem hafa hlúð að kórnum og séð til þess að í þessum söfnuði sé á öllum tímum starfandi safnaðarkór. Safnaðarkór er nefnilega ein af grunnstoðum safnaðarstarfs og helgihalds í Þjóðkirkjunni og grundvöllur syngjandi safnaðar. Innilega til hamingju með afmælið Kór Akureyrarkirkju og Akureyrarprestakall. Guð blessi framtíð Akureyrarkirkju. Megi kórinn þjóna hér áfram um ókomna tíð.
Dýrð sé Guði sem elskar okkur hvort sem loginn okkar er daufur eða bjartur.
Amen.
Djúpstæð augu sviðakjammanna
Einmanaleiki
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi
Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun