Fara í efni
Pistlar

Öflugt og fjörugt starf fataflokkunar Rauða krossins við Eyjafjörð

RAUÐI KROSSINN - VIII

Víða um land er að finna fatagáma frá Rauða krossinum en auk þess að vera mikilvæg fjáröflun fyrir Rauða krossinn er fataverkefnið mikilvægt umhverfisverkefni. Í sumum bæjarfélögum er það sem safnast flokkað á staðnum en í öðrum er það sent til flokkunarmiðstöðvar í Reykjavík eða á Akureyri. Á starfssvæði Rauða krossins við Eyjafjörð eru flokkunarstöðvar á Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri, en flokkunarstöðin á Akureyri er þeirra umfangsmest og þangað berst fatnaður sem kemur í gáma á Siglufirði, Svalbarðseyri, Mývatnssveit og víðar.

Fjölbreytt verkefni

Á hverju ári fara um og yfir 200 tonn af fatnaði og ýmsum öðrum textíl í gegnum flokkunarstöðina á Akureyri, en auk þess að flokka fatnað og ganga frá honum til sölu, sinna sjálfboðaliðar alls kyns fjölbreytilegum verkefnum. Til dæmis taka þau saman sængur, rúmföt og handklæði fyrir flóttafólk sem vantar þessa hluti. Einnig bregðast þau vel við óskum frá leikfélögum eða kvikmyndaverkefnum um föt frá ákveðnum tímabilum eða eitthvað annað sérstakt sem er þá tekið til hliðar þegar það berst.

Ónýtum handklæðum og fleiru sem hægt er að vinna úr í Plastiðjunni Bjarg-Iðjulundi er líka komið þangað og garni er komið til sjálfboðaliða sem prjóna úr því fjölbreyttar söluvörur. Lopapeysur og aðrar prjónavörur eru svo líka teknar til hliðar og lagaðar ef þörf er á. Ferðafólk sækir mikið í að kaupa notaða lopavöru í verslunum Rauða krossins en einnig setja sjálfboðaliðar upp sölu á Ráðhústorgi þegar mikið af ferðafólki er í bænum.

Jólavörum, öskudagsbúningum og ýmsum árstíðarbundnum vörum er safnað saman og þær settar fram þegar þeirra tími rennur upp og þannig styður verkefnið vel við deilihagkerfið mikilvæga.

Metnaðarfullur vinnustaður

Oft er glatt á hjalla í fataflokkuninni, enda er mikilvægi þess að hafa gaman að vinnunni vel þekkt og á það að sjálfsögðu jafnt við um sjálfboðaliðastörf sem önnur störf. Það getur verið gaman að skoða hvernig skrautlegar og óvenjulegar flíkur passa á flokkunarfólk og það er líka liður í því að leggja mat á það hvort viðkomandi flík sé líkleg til að seljast.

Í fataflokkun starfar fólk á fjölbreyttum aldri og uppruna og því er það ljómandi góð tilbreyting í lífið að koma og vinna í skemmtilegum hópi. Mikilvægur hluti af vinnudeginum er að setjast niður og fá sér morgunkaffi og bakkelsi og þá er spjallað um heima og geima. Við erum svo heppin að Brauðgerðarhús Akureyrar gefur okkur dagsgamalt brauð og bakkelsi þá daga sem fataflokkunin starfar.

Fatnaður sem er metinn söluvænn er ekki aðeins seldur í verslun Rauða krossins á Akureyri heldur er líka sent í verslanir Rauða krossins á Þórshöfn, Egilsstöðum, Húsavík, Sauðárkróki, Blönduósi og jafnvel í Búðardal og á Suðurnes. Það er mikið metnaðarmál flokkunarfólks að velja bæði falleg og nytsamleg föt til að senda í verslanir, enda er hópur viðskiptavina jafn fjölbreyttur og í öðrum verslunum landsins.

Tökum við öllum textíl

Þegar allt er talið eru á milli fjögur til fimm þúsund tonnum af fatnaði, skóm, fylgihlutum og öðrum textíl skilað í gáma Rauða krossins á Íslandi ár hvert. Langstærsti hlutinn er sendur úr landi vegna þess að það er ekki markaður innanlands fyrir allt þetta magn af notuðum fatnaði. En það er þó ekki svo að það nýtist ekki, því við sendingunum taka endurvinnslustöðvar í Þýskalandi og Hollandi þar sem allt er flokkað á ný og hluti fatnaðar seldur áfram í verslanir með notuð föt. Alveg ónýtur fatnaður og textíll nýtist til endurvinnslu, en slíkt er tætt niður og notað í fylliefni eða unnið upp í nýja þræði.

Tekið er við öllum textíl í gáma Rauða krossins. Gott er að hafa í huga að föt sem eru hrein og vel saman brotin eru líklegri til að seljast í verslunum og nýtast þar af leiðandi betur. Mikilvægt er að það sé ekki raki í efninu og að það sé hreint en einnig að sett sé í poka sem er vel lokað svo ekki sé hætta á að innihaldið blotni þó það rigni á gámana. Ekki er tekið á móti búsáhöldum eða öðrum munum, en við bendum á Hertex og Fjölsmiðjuna fyrir slíkt.

Það er óhætt að segja að sjálfboðaliðar í fataflokkun sýni gríðarlegan metnað fyrir verkefninu, en þeir mæta stundum á helgidögum, jafnvel á aðfangadag, til að tæma gámana svo að minni líkur séu á að fólk komi að fullum gámum. Við viljum biðja fólk að sýna þá tillitsemi að setja alls ekki oddhvassa hluti í gámana, loka fatapokunum vel og setja aðeins fatnað og annan textíl í gámana.

Ef spurningar vakna um eitthvað sem tengist fataflokkun Rauða krossins er velkomið að hringja í síma 570-4272 eða koma til okkar á skrifstofutíma í Viðjulund 2.

Ef þú vilt slást í lið með okkur og vera sjálfboðaliði í verkefnum Rauða krossins getur þú fyllt út umsókn á vefnum okkar www.raudikrossinn.is , sent tölvupóst á netfangið soleybs@redcross.is eða hringt í síma 570-4272.

--

Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir, samfélaginu til góðs. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.

Sóley Björk Stefánsdóttir er verkefnastjóri í Eyjafjarðardeild Rauða krossins

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Heimsóknir og bæjarferðir

Jóhann Árelíuz skrifar
10. nóvember 2024 | kl. 13:30

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30