Fara í efni
Pistlar

Luton Town – af upprisu

Það var ekki af neinni sérvisku sem ég ákvað að halda með Luton Town þegar ég var 12 ára. Í svona málum er heldur ekki um neina ákvörðun að ræða. Maður heyrir lag, sér bíómynd, sér lið spila og það verður ekki aftur snúið. Á þessum árum þótti Luton Town spila skemmtilegan fótbolta. Eflaust hefur mörgum þótt val mitt einkennilegt því sjálfur spilaði ég ekki skemmtilegan fótbolta. Ég myndi ekki þræta fyrir það að fegurð búningsins hafi haft nokkuð aðdráttarafl enda fór svo að ég pantaði mér einn slíkan. Líklega hef ég fundið pöntunarupplýsingar í vikuritinu Shoot! og fékk Gest Einar, nágranna minn, til að setja saman bréf á ensku með hjálp ritvélar.

Luton Town féll úr efstu deild árið 1992 og í rúm þrjátíu ár (eða þangað til fyrir skemmstu) tók liðið að sér að rannsaka allar deildir enskrar knattspyrnu, sem og utandeildir.

Það er einkennilegt að nánast allir Íslendingar halda með liði í „ensku“ en ekki „dönsku“ eða „norsku.“ Þetta er ágætis ísbrjótur: „Með hvaða liði heldurðu í ensku?“ Nema þegar maður svarar „Luton“. Þá koma margir af fjöllum og hugsa með sér „Iss, hvað er það nú?“ Vandræðalegt, því Luton er alvöru lið sem vann til dæmis bikarameistaratitil 1988. Sumir halda með liðum sem aldrei hafa unnið neitt í 400 ára sögu enskrar knattspyrnu. Ekkert að því, það er í góðu lagi að vera bara með.

Fram að svona þrítugu gat lund mín sveiflast með gengi liða. KA og landsliðin í handbolta og fótbolta sáu mér reglulega fyrir geðshræringu. Svo gerðist það einn góðan veðurdag að landsliðið í handbolta kastaði frá sér sigri með ævintýralegum hætti (líklega einhver leikur við Dani). Þá nótt átti ég í miklu sálarstríði sem endaði með því að ég vaknaði nýr og stóískari maður. Það er ekki svo að mér sé sama hvernig leikur endar en nú get ég glaðst yfir fleiru en bara hreinum sigri því sigrar koma í ýmsum myndum. Ég er ekki að segja að þetta hafi alltaf verið auðvelt. Eitt sumarið reyndi verulega á, Knattspyrnufélag Akureyrar stundaði það að missa niður leiki á síðustu sekúndum. Einhver tölfræðispekingur benti á að ef flautað hefði verið til leiksloka í hálfleik hefði KA orðið Íslandsmeistari.

Ég býst við ég horfi á leiki þessi misserin með núvitundargleraugum. Ég tek eftir fleiri hlutum. Nú finnst mér til dæmis áhugavert hvernig liðsfélagar bregðast við markmannsmistökum. Hrista þeir hausinn, öskra þeir á félaga sinn, hunsa þeir hann? eða, og þetta er sjaldgæft, fara þeir til hans og peppa hann upp. Það er líka áhugavert að sjá hvernig leikmenn þróast og þroskast. Fyrir tíu árum gerði KA-maðurinn Hallgrímur Mar sig oft sekan um sorrý-hreyfingar og óhóflegt boltaklapp en í seinni tíð líður hann um völlinn eins og lýðræðislega þenkjandi þorpshöfðingi og leggur yfirleitt eitthvað þarft og yfirvegað af mörkum.

Ég horfði á Luton vs. Coventry í fyrradag og það gladdi mig að Luton skyldi takast að komast upp í úrvalsdeild. Nú er ég aftur farinn að þekkja nokkur nöfn (Elijah Adebayo, Tom Lockyer og Gabe Osho) þótt yfir þeim verði varla sá dýrðarljómi og yfir þeim Ricky Hill, Paul Walsh og Brian Stein á gullaldarárunum. Mig langar að fara í pílagrímsför til Luton en það verður ekki auðvelt að fá miða; Kenilworth Road tekur bara 10.000 manns í sæti. Ég mun allavega panta mér treyju (held ég sleppi stuttbuxum og sokkum) og sú verður af gamla skólanum eins og Ricky Hill klæðist á myndinni.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00