Fara í efni
Pistlar

Ljósaganga og kynbundið ofbeldi

Nýlega boðaði dómsmálaráðherra landsins, Jón Gunnarsson, „stríð“ gegn skipulagðri glæpastarfssemi. Tilefnið var hnífaárás í miðbæ Reykjavíkur, sem jafnframt var talin birtingarmynd aukins ofbeldis meðal glæpagengja. Ég deili áhyggjum dómsmálaráðherra af þróun mála varðandi ofbeldisglæpi en þykir orðavalið athyglisvert. Hvað nákvæmlega felur stríð gegn glæpastarfsemi í sér? Almennt vísar stríð í harkaleg átök sem fela í sér alvarlegt ofbeldi. Hart mætir hörðu. Er það besta leiðin til að draga úr ofbeldi?

Við vitum að við vinnum ekki bug á myrkrinu með meira myrkri. Við kveikjum ljós. Lýsum upp öll skúmaskot og drögum fram í dagsljósið það sem myrkrið huldi. Ráðumst síðan að rót vandans en ekki bara hinum sjáanlegu afleiðingum.

Ofbeldi og mannréttindabrot eru eitthvað sem ég tengi við hinar myrku hliðar manneskjunnar. Eitt birtingarformið er kynbundið ofbeldi, ekki síst í nánum samböndum og innan veggja heimilisins. Í þessari tegund ofbeldis eru konur og börn oftast fórnarlömb. Þrátt fyrir áratuga baráttu fyrir auknu jafnrétti virðist ekkert samfélag undanskilið þegar kemur að kynbundnu ofbeldi. Við þurfum sífellt að vera á vaktinni og halda umræðunni á lofti.

Kannski getum við aldrei upprætt ofbeldi af þessum toga algjörlega. En við getum gert margt bæði til að draga úr því og til að hjálpa fórnarlömbum að komast úr aðstæðum eins fljótt og mögulegt er. Skilaboðin þurfa að vera skýr: Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og aldrei lausn á neinum vanda.

Ofbeldi gegn konum er svo víðtækt á heimsvísu að ákveðinn dagur, 25. nóvember, hefur verið gerður að sérstökum baráttudegi um afnám ofbeldis gegn konum. Síðar meir var ákveðið að tengja saman þennan baráttudag við alþjóðlega mannréttindadaginn, sem er 16 dögum síðar, eða 10. desember, og hafa kvennasamtök um allan heim árum saman tekið þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu átaki á þessum árstíma.

Viðburður á Akureyri

Akureyri er ekki bara hálfgerð svæðisborg Norðurlands, við erum líka samfélag sem eru virkur þátttakandi í hinu alþjóðlega samfélagi. Hér á Akureyri hafa þrír kvennaklúbbar og nemendafélög tveggja framhaldsskóla tekið höndum saman og boða til ljósagöngu þann 1. desember næstkomandi kl. 16:30 í tilefni þessa 16 daga alþjóðlega átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Ljósagangan hefst við Zontahúsið, Aðalstræti 54 og verður gengið að Bjarmahlíð, Aðalstræði 14, þar sem Bjarney Rún Haraldsdóttir, teymisstjóri Bjarmahlíðar, flytur stutt erindi.

Að göngunni standa Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna ásamt nemendafélögum Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Ég er svo heppin að vera félagi í einum þessara kvennaklúbba, þ.e. Zontaklúbbi Akureyrar, og er formaður klúbbsins á þessu starfsári. Ég mun því ekki láta mig vanta í þessa göngu og skora á þig, lesandi góður, að mæta líka.

Við ætlum ekki í stríð gegn ofbeldi. Við ætlum að kveikja ljós, draga hið myrka upp á yfirborðið, í birtuna þar sem það næst ekki að þrifast.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Lagning

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. mars 2024 | kl. 11:30

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Hvar fær maður svona engisprettu?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:00

Hin evrópska olía: Olea europaea L.

Sigurður Arnarson skrifar
13. mars 2024 | kl. 10:25

Siginn fiskur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. mars 2024 | kl. 11:30