Fara í efni
Pistlar

Kúrekar á fjöllum: Hugleiðingar um Skugga Svein

Leikfélag Akureyrar tók djarft en spennandi skref út úr Kóvid-þokunni með frumsýningu á verkinu Skugga Sveinn 11. febrúar síðastliðinn. Sýnt er fyrir fullu húsi um hverja helgi við góðar undirtektir og sýningar eru fyrirhugaðar út apríl. Það er ekki auðvelt að taka 160 ára gamalt íslenskt leikrit í þjóðlegum anda og setja það upp þannig að það hreyfi við áhorfendum á öllum aldri í því fjölbreytta menningarumhverfi sem við búum við í dag, en þetta hefur LA samt tekist af einskærri snilld.

Matthías Jochumsson mun hafa skrifað fyrstu gerð Skugga Sveins í jólafríi sínu í Lærða skólanum árið 1861, þá 26 ára gamall. Þá lét hann verkið heita Útilegumennirnir en breytti því seinna í Skugga Sveinn. Fátt var um innlendar fyrirmyndir að því hvernig ætti að fara að því að skrifa leikrit, en 5 árum áður hafði Matthías dvalið einn vetur í Kaupmannahöfn og séð leiksýningar þar ásamt því að lesa verk Shakespears á sænsku „því ég hef ekki tíma til að lesa originalinn“[1] eins og hann sagði sjálfur frá. Þá var hann hvattur til verksins af Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara og Sigurði Guðmundssyni málara sem báðir voru frumkvöðlar í þjóðlegri menningarsköpun á Íslandi. Sigurður (kallaður „Siggi séní“ af vinum sínum) málaði upprunalegu leiktjöldin. Í uppfærslu LA tekst afar vel að vísa aftur í upprunann með því að nota einmitt þessi leiktjöld á hugvitsamlegan hátt.

Hinn ungi Matthías vann upp skort á fyrirmyndum með slíku andríki að frá fyrstu stund sló verk hans áhorfendur sönnum leikhústöfrum og er án efa vinsælasta leikverk sem skrifað hefur verið á Íslensku. Þegar Skugga Sveinn var settur á svið í Þjóðleikhúsinu í þriðja sinn árið 1984 (áður 1952 og 1961) skrifaði Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor í Lesbók Morgunblaðsins: „Enginn sjónleikur hefur náð jafnalmennum ítökum með þjóðinni, ekkert leikrit, innlent né útlent, verið sýnt jafnoft hérlendis, enginn íslenzkur leikur komist neitt álíka að sýningafjölda (sennilega a.m.k. 500) – þar sem „sýnileikurinn“ hefur farið fram í skemmum, hlöðum, pakkhúsum, íbúðarhúsum og samkomuhúsum alls konar…við frumstæðasta aðbúnað og einhverjar fullkomnustu leikhústilfæringar á Norðurlöndum og allt þar á milli.“[2] Yngri leikskáld á borð við Indriða Einarsson og Jóhann Sigurjónsson urðu fyrir djúpstæðum áhrifum af Skugga Sveini og segja má að í honum sé að finna uppruna íslenskrar leikhúsmenningar.

En nú er öldin önnur. Leikið efni af ótal tegundum úr öllum heimshornum streymir fram um efnisveitur landsmanna, áhugaleikfélög og skólafélög setja alls kyns verk á svið og ekki má gleyma öllum atvinnuleikhópunum og leikhúsunum. Það sem kallaði fram leikhústöfra árið 1862 þætti ef til vill bæði fornfálegt og einkennilegt í dag. Persónur Matthíasar eru gamalkunnar staðalmyndir og sögufléttan fyrirsjáanleg. Kveðskapurinn og tónlistin sem heillaði áhorfendur fyrir 160 árum myndi að líkindum mæta daufum eyrum núna ef flutningurinn væri í upprunalegri mynd og því er ekki heiglum hent að setja efnið í þann búning sem næði að hrífa áhorfendur nútímans með sér. Því var afskaplega ánægjulegt að sjá hve vel Leikfélagi Akureyrar tókst til í sinni uppfærslu, notandi samt sem áður mikið af upprunalegum texta og kveðskap Matthíasar.

Ég fór á sýninguna í Samkomuhúsinu 11. mars ásamt fjórum konum á aldrinum 21-75 ára. Öll skemmtum við okkur konunglega og ég viðurkenni fúslega að hafa grátið úr hlátri í einu atriðinu. Þar hjálpaðist allt að: Leikgerðin, tónlistin, sviðsmyndin, lýsingin, umgjörð Samkomuhússins og síðast en ekki síst frábær frammistaða leikaranna. Leikgerðin, eftir leikhópinn og Mörtu Nordal sem einnig er leikstjóri, sýnir að henni hefur tekist afar vel að laða fram sköpunarkraft hópsins og leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín. Í stað þess að fylgja í smáatriðum söguþræði Matthíasar og draga á svið allar aukapersónur verksins framreiðir hópurinn röð leikhúsatriða sem heilla og gleðja áhorfandann hvert með sínum hætti og skapa um leið einfaldan söguþráð. Þannig má líkja sýningunni við góða óperu, þar sem sagan og persónurnar eru ekki aðalatriðið heldur listrænu senurnar.

Skugga Sveinn er að þessu sinni hafður í kúrekastíl og höfuðandstæðingur hans, Lárentsínus sýslumaður, er eins og klipptur út úr gamaldags vestra með dassi af glysrokki 9. áratugarins. Grasa-Gudda er ekki lengur kennd við fjallagrös og Ketill Skrækur finnur leiðir til að verða fyndnasta persóna leikritsins án þess að gera sig skrækan. Snúið er upp á kynhlutverk og sett eru upp kostuleg dans- og söngvaatriði. Tónlist og útsetningar Sævars Helga Jóhannssonar blandar listilega saman ólíkum stílum og leikur stórt hlutverk í þeim áhrifum sem hvert atriði skapar. Söngtextarnir eru ýmist endurskapaðir eða ortir frá grunni af Vilhjálmi B. Bragasyni, sem einnig fer á kostum í hlutverki Ketils. Sitjandi á aftasta bekk kom þó fyrir að mér fannst hljóðfæraleikurinn yfirgnæfa textann. Leikmyndin er skemmtilega útfærð með verk Sigurðar málara í færanlegum einingum. Hér tekst framúrskarandi listafólki að skapa leikhústöfra árið 2022 úr 160 ára gömlum efniviði og endurskapa þannig menningararfinn. Þessi tök á verkinu kallast skemmtilega á við uppruna þess, sem Steingrímur J. Þorsteinsson lýsir þannig í áðurnefndri grein: „Þar brutust fram fyrstu fjörtök nýs skálds, sem átti tilfinningalíf sitt óbælt, bjó yfir ódoðnuðum áhrifum frá samvitund sinni við íslenzka háfjalladýrð – og samdi leikinn í nánu samstarfi við leiksviðs- og leiklistarmanninn og í lifandi samandi við sýningarflokkinn, en bar ekki á torg samanbarinn, skrifborðsframleiddan iðnvarning.“[3]

Erfitt er að gera upp á milli leikaranna því allir voru góðir. Jón Gnarr túlkaði Svein með heildstæðum og sannfærandi hætti sem vakti áhorfandann til umhugsunar um hlutskipti og sálarlíf útlagans. Björgvin Franz Gíslason átti fjörugan stórleik sem Lárentsínus sýslumaður og sýndi á honum ýmsar óvæntar hliðar. Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Árni Beinteinn sungu og léku eins og englar í hlutverkum Ástu og Haralds. Hin gamalreynda Sunna Borg var skemmtileg blanda af sígildri og nýstárlegri túlkun í hlutverki Grasa-Guddu. María Pálsdóttir og Vala Fannell unnu vel úr því efni sem þær höfðu úr að moða sem Ögmundur og Gvendur. Síðast en ekki síst stal Vilhjálmur B. Bragason sem áður er getið hvað eftir annað senunni í hlutverki Ketils. Vel heppnaðir búningar Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur ásamt hári og gervi Hörpu Birgisdóttur, að ógleymdri tónlistinni, áttu stóran þátt í að búa til einstaka blöndu af hugmyndum Íslendinga fyrri tíðar um útilegumenn og ímynd Hollywood mynda um útlagana í Villta Vestrinu. Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar undirstrikaði tilfinningar persónanna á áhrifaríkan hátt og sýningarstjórn Þórunnar Geirsdóttur skilaði fumlausri framvindu.

Uppfærsla Leikfélags Akureyrar á Skugga Sveini er frábær skemmtun og um leið merkilegt framlag til íslenskrar menningar. Ástæða er til að óska Leikfélaginu innilega til hamingju með verkið og hvetja þá sem ekki hafa þegar séð það að drífa sig í leikhúsið áður en það verður of seint.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

[1] Steingrímur J. Þorsteinsson, „Uppgerðarlaus og óloginn frumkraftur“. Lesbók Morgunblaðsins 24. nóvember 1984 (10-12), bls. 10.

[2] Sama rit, bls. 12.

[3] Sama rit, bls. 11.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00