Fara í efni
Pistlar

Kúnstin að ráðast til inngöngu

Kúnstin að ráðast til inngöngu

Ég hef af og til laumað frá mér sögum frá því að ég starfaði í lögreglunni á Akureyri. Ég er að sjálfsögðu bundinn trúnaði og má ekkert segja en sumt er bara of gott til að þegja yfir því, þessi frásögn fer í þann flokk.

Ég var svo lánsamur að í þau fimm ár sem ég var í lögreglunni var lítið um fíkniefnamál. Í þau örfáu skipti sem að það gerðist þá rann blóðið í okkur dálítið hraðar. Einu sinni voru piltar gripnir með fíkniefni á sér. Þeir reyndust vera að koma heiman frá ungum manni sem að nýfluttur var í bæinn. Sá hafði það orðspor á sér að hafa verið býsna innvinklaður í undirheimana í Reykjavík, hugsanlega væri hann jafnvel vopnaður.

Nú gerði vart við sig dálítil geðshræring meðal okkar lögreglumanna. Heimili unga mannsins var gamalt iðnaðarhúsnæði. Ákveðið var að ryðjast þar til inngöngu. Við vorum kallaðir til þrír mestu þungavigtarmennirnir sem voru á vakt og þá meina ég í kílóum fyrst og fremst. Síðan var skipulagt. Ákveðið var að fulltrúi sýslumanns myndi fara fyrstur klæddur í borgaraleg klæði og að hann myndi banka upp á. Þegar komið væri til dyra myndum við þrír hlunkarnir ryðjast til inngöngu. Yfirmaður rannsóknardeildar myndi síðan vera í talstöðvarsambandi og stýra aðgerðum.

Hófust nú aðgerðir. Fulltrúi sýslumanns knúði dyra. Enginn svaraði. Við hlunkarnir biðum við húshornið, yfirspenntir. Í nokkur andartök var eins og tíminn stæði kyrr, síðan öskraði yfirmaður rannsóknardeildar í talstöðina: Ráðist til inngöngu. Við hlunkarnir sprettum af stað, hentum fulltrúa sýslumanns til hliðar og svo lögðumst við allir þrír, hátt í hálft tonn, á hurðina. Þetta var lítil hurð á mjög stórri bílskúrshurð, hvorutveggja úr gömlu timbri sem ætlað var að þola talsvert. Og hurðin bifaðist ekki.

En spennustig okkar hlunkanna var komið að suðumarki og gott betur hjá einum okkar. Hann greip nú upp gamla hásingu af bíl sem að lá þarna við hliðina og lét hana vaða í hurðina. Það dugði, inn fór hurðin og í gegnum þetta hurðargat reyndum við nú þrír að troða okkur. Gatið rétt rúmaði einn okkar í einu hvað þá þrjá. Að endingu spýttumst við allir þrír inn í einu. Innan við hafði verið tjaldað miklum og þykkum gluggatjöldum. Við festumst þeim þannig að þau rifnuðu niður og við kútveltumst um gólfið hver um annan þveran vafðir inn í gluggatjöld.

Ungi maðurinn sem þarna bjó var sem betur fer ekki heima og ekkert fundum við dóp hjá honum sem var enn betra.

Við skoðun á hurðinni kom í ljós að hún hafði verið ólæst, hún opnaðist bara út.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Seigla er orð ársins

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 11:50

Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim?

Sigurður Kristinsson skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 12:00

Að þegja er eiginleiki sem hvarf

Jón Óðinn Waage skrifar
08. desember 2020 | kl. 07:00

Framtakssemin og einkaframtakið

Jóna Jónsdóttir skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00

Akureyringar tala dönsku á sunnudögum

Tryggvi Gíslason skrifar
15. nóvember 2020 | kl. 10:00

Sú mikla kúnst að æsa fólk upp

Jón Óðinn Waage skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00