Fara í efni
Pistlar

KA geymir bikarinn 7. árið í röð – MYNDIR

Glaðir í bragði! Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og Ívar Örn Árnason með nokkurra vikna son sinn, Bjarka Bent, eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði Þór í kvöld eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Kjarnafæðismóts karla, árlegs æfingamóts á vegum Knattspyrnudómarafélags Norðurlands.

Eins og Akureyri.net fullyrti fyrr í dag var viðureignin „alvöru“ leikur þótt um æfingamót hafi verið að ræða. Að vísu verður að viðurkennast að ekki er erfitt að birta slíka spá í ljósi sögunnar! Nokkra leikmenn vantaði í hóp beggja liða vegna veikinda og meiðsla, en það skiptir sjaldnast máli hverjir spila og hverja vantar; litlar ástir eru með liðunum þegar inn á völlinn er komið og jafnan hart barist. 

Þórsarar voru mun betri í fyrri hálfleik og skoruðu í tvígang. KA-menn ógnuðu þá marki erkifjendanna nánast ekki neitt.

KA-menn gyrtu sig í brók í seinni hálfleiknum, voru mun ákveðnari en í fyrri hlutanum, ollu Þórsurum nokkrum sinnum vandræðum og skoruðu tvisvar. Þess vegna var gripið til vítaspyrnukeppni á gervigrasvelli KA í kvöld. 

_ _ _

ÞÓR KOMST Í 2:0
Þórsarar tóku forystuna eftir um það bil hálftíma leik. Birkir Heimisson þrumaði að marki utan vítateigs, Kristijan Jajalo varði en Sigfús Fannar Gunnarsson var snöggur að átta sig, stakk sér fram fyrir varnarmann og skallaði boltann í tómt markið.

Ekki leið á löngu þar til Þórsarar komust tveimur mörkum yfir. Þar var Aron Ingi Magnússon að verki; skoraði þá af markteig eftir sendingu Kristófers Kristjánssonar frá hægri. Á myndunum hér fagna Þórsarar öðru markinu, Aron sjálfur og Fannar Daði Malmquist Gíslason.


_ _ _

DANÍEL JAFNAR Í UPPBÓTARTÍMA
KA-menn minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik. Bjarni Aðalsteinsson skallaði þá boltann laglega í bláhorn marksins úr miðjum vítateig eftir sendingu Sveins Margeirs Haukssonar af vinstri kanti. Það var svo þegar tvær mínútur voru búnar af fimm mínútna uppbótartíma að Daníel Hafsteinsson jafnaði fyrir KA með glæsilegu skoti frá vítateigslínu; hann þrumaði í bláhornið vinstra megin.

Sennilega er það til marks um ást þessara erkifjenda hvors á öðrum – eða þannig – að fögnuðurinn fólst einkum í því að öskra á Ingimar Arnar Þórsara sem hafði gert KA-mönnum gramt í geði skömmu áður. Úr varð töluvert havarí og Sigurður Þrastarson lyfti af því tilefni gula spjaldinu nokkrum sinnum.


_ _ _

VÍTASPYRNUKEPPNIN

KA - ÞÓR 2:3 Alexander Már Þorláksson tók fyrstu spyrnuna fyrir Þór og skoraði örugglega.

KA - ÞÓR 3:3 Daníel Hafsteinsson spyrnti fyrst fyrir KA og skoraði einnig af miklu öryggi.

KA - ÞÓR 3:4 Vilhelm Ottó Biering Ottósson skoraði örugglega fyrir Þór.

KA - ÞÓR 4:4 Sveinn Margeir Hauksson skoraði næst fyrir KA. Í fyrsta skipti þetta kvöld kastaði markvörðurinn sér í rétt horn en skotið var of fast til að Aron Birkir Stefánsson næði til knattarins.

KA - ÞÓR 4:4 Ingimar Arnar Kristjánsson tók næstu spyrnu Þórs og aftur fór markvörður í rétt horn; Kristijan Jajalo varði skot Ingimars.

KA - ÞÓR 4:4 Ívar Örn Árnason steig næstur fram en aftur hafði markvörðurinn betur í því tveggja manna einvígi sem vítaspyrnukeppnin er. Aron Birkir Stefánsson varði af öryggi.

KA - ÞÓR 4:4 Þegar Birkir Heimisson tók fjórðu spyrnu Þórs kastaði Kristijan Jajalo sér ekki í rétt horn en slapp með skrekkinn. Skot Birkis smaug rétt framhjá markinu.

KA - ÞÓR 5:4 Rodrigo Gomes Mateo skoraði því næst fyrir KA. Gerði ráð fyrir að Aron Birkir myndi skutla sér í annað hvort hornið, hafði rétt fyrir sér og skotið var laust í mitt markið.

KA - ÞÓR 5:5 Bjarki Þór Viðarsson sendi boltann með fastri spyrnu í hægra horn marksins. Kristijan Jajalo átti ekki möguleika á að verja þótt hann kastaði sér í rétt horn.

KA - ÞÓR 6:5 Bjarni Aðalsteinsson fór að á svipaðan hátt og Rodri; sendi boltann í mitt markið og tryggði KA sigur í Kjarnafæðismótinu sjöunda árið í röð.

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA með Kjarnafæðisbikarinn í kvöld.

Leikmenn og þjálfarateymi KA eftir sigurinn í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00