Fara í efni
Pistlar

Fiðrildahrif

Ég er með alveg sérkennilega stíft og óþjált hár á hausnum. Stundum þegar ég vakna á morgnana með lubbann út í allar áttir segir konan við mig: „Jæja, þú ætlar sem sagt að vera rykkústur í dag.“ Háralag mitt er með þeim hætti að rakarinn minn fer á kvíðastillandi lyf síðustu dagana áður en ég á pantaðan tíma hjá honum. Hann ráðleggur mér að nota öflugustu tegundir af geli í hárið, „helst tveggja þátta efni“ eins og hann orðar það.

Erfitt hár er meðal þess fjölmarga sem finna má mér til foráttu. Mun meiri skoðun og umhugsun þarf til að finna galla á eiginkonu minni. Þó á hún til að vera örlítið utan við sig. Í ferðalögum gleymir hún til dæmis gjarnan einhverju sem er ómissandi. Í hjónabandi okkar höfum við fyrir löngu komist að því að sönn ást er ekki síst í því fólgin að nota sama tannburstann.

Um páskana voru roskin hjón á Syðri-Brekkkunni í heimsókn hjá dóttur sinni í Hollandi. Að þessu sinni ákvað eiginkonan að gleyma hárburstanum sínum. Greiðan mín var því tekin til kostanna og þjónaði hjónunum báðum í ferðinni.

Hálfum mánuði eftir að við komum heim til Akureyrar ók ég vestur í Stykkishólm á Prestastefnu sem þar var haldin. Ég kom þangað síðla kvölds, svaf vært, vaknaði snemma og hóf að gera á mér morgunverkin. Eftir sturtuna opnaði ég snyrtiveskið og hugðist sækja í það greiðuna mína góðu en greip í tómt. Hún var sem sagt enn í snyrtiveski eiginkonunnar eftir Hollandsferðina.

Nú voru góð ráð orðin á uppsprengdu verði, eins og karlinn sagði, og ekki nema um tvennt að ræða, að deyja eða drepast, eins og kerlingin sagði. Ekki gat ég látið sjá mig á meðal fólks með hárið út í allar áttir. Það myndi síst skána þegar það þornaði.

Ég renndi augum yfir hótelherbergið og í fyrstu yfirferð sá ég ekkert sem ég gæti notast við til að greiða úr þessum vandræðum mínum. Í fjórða hringnum laust úrræði niður í hausinn á mér, í gegnum strýið sem ofan á honum var: Rafmagnskló af hleðslutæki lá á náttborðinu. Ég tók klóna úr sambandi við snúruna, fór með hana inn á bað og greiddi mér með henni fyrir framan spegilinn.

Innan eðlisfræðinnar er til kenning um að ekki þurfi nema eitt vængjatak fiðrildis til að hafa áhrif á veðrið langt frá staðnum þar sem blakið varð. Þannig gæti það verið þessum eina vængjaslætti að þakka að hvirfilvindurinn myndaðist ekki sem hefði getað eytt borginni. Þetta fyrirbæri nefnist á vísindamáli „fiðrildahrif”.

Í venjulegri greiðu eru um eitt hundrað tennur. Klóin hefur bara tvær. Þess vegna var ég fimmtíu sinnum lengur en venjulega að greiða mér þennan miðvikudagsmorgunn. Þannig atvikaðist það, að sú yfirsjón eiginkonu minnar að gleyma hárburstanum í Hollandsferð, hafði þær afleiðingar fjórtán dögum síðar, að eiginmaður hennar varð of seinn til morgunbæna á Prestastefnu í Stykkishólmi.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00