Fara í efni
Pistlar

Í Veiðiheimum

VEIÐI –

Bongóblíðan sem hefur herjað á Norðurlandi síðustu daga og vikur er enginn sérstakur vinur stangveiðimannsins. Ár verið foráttumiklar og á litinn eins og heitt súkkulaði án rjóma. Þá er nú gott að nota tímann til að skipuleggja veiðisumarið enn frekar og vera klár í slaginn þegar leysingar minnka. Ég heyrði í Högna Harðarsyni sem nýverið opnaði heimasíðuna Veiðiheima eða veidiheimar.is sem á að auðvelda okkur að finna veiðileyfi við hæfi.

Hver er Högni Harðarson ?

„Ég er búsettur á Akureyri og frá 16 ára aldri hef ég verið forfallinn stangveiðimaður og veitt víða á landinu. Eins hef ég starfað á ýmsum sviðum tengdum stangveiði, s.s. við sölu veiðileyfa og leiðsögn, sem staðarhaldari og við rannsóknir veiðisvæða. Eins og margir á ég mín uppáhalds veiðisvæði og kann einna best við mig í Laxá í Mývatnssveit. Nú sæki ég þó meira á urriðasvæðin fyrir neðan virkjunina í Laxá í Aðaldal. Þá eru það forréttindi að búa á einu besta sjóbleikjusvæði landsins við Eyjafjörð. Ég er sennilega einn af fáum á landinu sem er með sérmenntun í sportveiðistjórnun – Sport Fishery Management – en það var hluti af þriggja ára BS námi mínu í Aquaculture & Fishery Management við Sparsholt College, Englandi. Sú fagmenntun hefur verið gott veganesti í allri vinnunni sem er að baki Veiðiheima.“

Hver var kveikjan að Veiðiheimum?

„Það hafði lengi blundað í mér að búa til veiðitengda vefsíðu sem aðallega þjónaði stangveiðimönnum sem upplýsingaveita. Mér gafst aldrei góður tími fyrr en heimsfaraldur skall á og fólki var ráðlagt að vera sem mest heima. Þá lét ég til skarar skríða.

Vinnan hófst með því að endurvinna texta upp úr heimildum. Stangveiðihandbækurnar, sem Eiríkur St. Eiríksson tók saman, þjónuðu sínum tilgangi og sjálfur hafði ég notað þær mikið. Slíkar bækur úreldast og það átti eftir að koma í ljós þegar ég fór að endurvinna efni upp úr þeim. Nokkrum sinnum rak ég mig á að nefndir söluaðilar veiðisvæða, sem ég var að uppfæra, voru annað hvort fluttir fyrir löngu eða jafnvel dánir. Einnig kom í ljós að mörg svæði voru ekki lengur í boði fyrir almenning eða þá að lokaður hópur hafði aðgang að þeim.“

Einfalt, aðgengilegt og öflug leitarvél

„Þegar ráðist er í svona verkefni finnst mér mikilvægast að hafa hlutina einfalda og aðgengilega. Ég ákvað strax í byrjun að hafa öfluga leitarvél, þar sem ekki aðeins væri hægt að sía út frá tegund vatnasviðs, fisktegund og landsvæði, heldur einnig út frá gistingu, fjölda stanga, verði, agni, kvóta og aðgengi. Einnig þótti mér lífga upp á upplýsingasíðurnar að hafa tengingar við nærliggjandi þjónustu, náttúruperlur og afþreyingu.

Svipaðar vefsíður eru til hér á landi en mér fannst eitthvað vanta. Sérstaklega það að söluaðilar veiðileyfa á svæðinu, sem fjallað er um, séu ávallt tilgreindir. Einnig að notandi geti farið úr frétt beint inn á upplýsingasíðu svæðis sem fréttin er um – og jafnvel fengið upplýsingar um lausa daga og veiðitölur. Það að notendur geti leitað að veiðisvæði eftir verði, sem þeir eru tilbúnir að greiða, ætti að vera hinn eðlilegasti hlutur. Það kom mér því verulega á óvart hvað mörg svæði eru auglýst án þess að verð sé gefið upp og einnig hve oft það reyndist erfitt að nálgast þær upplýsingar.“

Veiðitölur og ýmis annar fróðleikur

„Á vefsíðunni er hægt að nálgast veiðitölur frá nokkrum svæðum en það er með ólíkindum, í þessum tæknilega heimi okkar, hve fáir nota rafræna skráningu í veiðibækur. Við erum enn í sama farinu og notumst við handskrifaðar upplýsingar enda þótt allir séu með öfluga farsíma. Veiðiappið Angling iQ er ágætt á sinn hátt en sumum finnst það flókið í notkun.

Vefsíðan býður einnig upp á upplýsingar um ferskvatnstegundir sem þrífast á Íslandi, stangaveiðifélög, viðburði sem eru boði t.d. kast- og hnýtingarnámskeið, skemmtileg myndbönd og fróðleik um búnað og veiðiaðferðir. Þarna vonast ég eftir samstarfi við veiðidellumenn sem vilja deila með mér efni en það tel ég mikilvægt til að gera síðuna líflegri. Veiðiheimar verða einungis á íslensku eitthvað fram á haustið en ætlunin er að gera betur og hafa síðuna einnig fyrir erlenda stangveiðimenn.“

  • Nafn vefsíðunnar, Veiðiheima, sækir Högni óbeint í ritverk uppáhaldshöfundar.
  • „Ég kasta löngu færi og hlusta á árniðinn. Hann ber mig að óskalöndum veiðimannanna, þar sem Nirvana er. Allir, sem unna stríðum straum og sterkum löxum, geta gist þau lönd. Fáir munu þó komast þangað í fyrsta sinn sem þeir reyna. En hver sá, er gistir þann heim einu sinni, þráir hann alltaf síðar, og þeir þó ef til vill mest, sem finna, að ótt líður á ævina.” - Þannig skrifaði Björn J. Blöndal í bókinni Hamingjudagar. Úr dagbókum veiðimanns, sem Prentsmiðja Austurlands gaf út árið 1950!

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Högni Harðarson með flottan urriða úr Mýrarkvísl.

Íslensk meðvirkni

Sigurður Ingólfsson skrifar
03. júní 2023 | kl. 06:00

Sparilundur í Vaðlaskógi

Sigurður Arnarson skrifar
31. maí 2023 | kl. 10:10

Luton Town – af upprisu

Arnar Már Arngrímsson skrifar
29. maí 2023 | kl. 12:00

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Hús dagsins: Grundarkirkja

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 19:00

Skógar og ásýnd lands

Sigurður Arnarson skrifar
27. maí 2023 | kl. 16:00