Fara í efni
Pistlar

Hvernig hef ég áhrif?

Loftslagskvíði er nýyrði sem heyrist æ oftar. Á okkar dynja hamfarafréttir um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Sífellt er hamrað á mikilvægi allskyns breytinga á lífsstíl: Ekki fljúga, ekki borða rautt kjöt, ekki keyra bíl! Við erum gerð ábyrg fyrir vandanum en á sama tíma er samfélagsgerðin með þeim hætti að allt umhverfið ýtir undir meiri neyslu.

Hvernig breytum við kerfi um leið og við þurfum öll að lifa innan þessa sama kerfis?

„Vertu breytingin“ sagði Gandhi og var þar að vísa til að ef við viljum breyta heiminum þurfum við að byrja á okkur sjálfum. „Margt smátt gerir eitt stórt“ er annað máltæki sem bendir á að mörg lítil skref geti leitt til stærri breytinga. Ef við setjum þessa hugsun í samhengi við umhverfis- og loftslagsmálin þá felur hún í sér að litlar breytingar í okkar daglega lífi geti haft áhrif í stærra samhengi, jafnvel þó aðeins sé um pínulítið skref að ræða miðað við stærð vandans sem við erum að glíma við.

Það skiptir þó máli að setja fókusinn í rétta átt. Sem einstaklingar erum við nefnilega ekki bara neytendur. Við erum líka borgarar. Og það er ekki síst í hlutverki okkar sem borgarar í lýðræðislegu samfélagi sem við höfum tækifæri til að hafa áhrif.

Sem neytendur vöru og þjónustu getum við vissulega haft áhrif á okkar persónulega vistspor, þ.e.a.s. hversu mikil áhrif okkar lífsstíll hefur á auðlindir jarðar og umhverfi. En til að breyta kerfinu þurfum við að beita okkur sem borgarar. Setjum þrýsting á vinnustaðinn okkar, sveitarfélagið, ríkisstjórnina, alþingismenn og ekki síst fyrirtæki, sem framleiða vörur og þjónustu sem þau síðan selja okkur.

Kerfisbreytingar auðvelda einstaklingum að breyta sinni hegðun. Tökum nokkur dæmi:

  • Söfnun lífræns úrgangs á vegum sveitarfélags gerir mun fleirum það kleift að endurvinna lífrænan úrgang en ef þörf er á því að fjárfesta í jarðgerðartunnu, eiga garð ofrv.
  • Mun fleiri einstaklingar geta tamið sér bíllausan lífsstíl ef skipulag er með þeim hætti að hægt sé að nýta göngu- og hjólastíga til að komast á milli staða. Það felur líka í sér að passa þarf upp á að þessar leiðir séu í forgangi þegar kemur að snjómokstri að vetri til.
  • Neytendur eru mun líklegri til að velja umhverfisvænar vörur ef framleiðendur og verslanir gera þeim hátt undir höfði, merkja þær með skýrum hætti og stilla þeim þannig upp að auðvelt sé að finna þær.
  • Fleiri geta nýtt sér þann valkost að kaupa rafbíl, frekar en bensínbíl, ef aðgengi að hleðslustöðvum er gott. Þetta þurfa bæði skipulagsyfirvöld að hafa í huga en líka t.d. verktakar sem byggja fjölbýlishús.
  • Matvöruverslanir geta auðveldað einstaklingum að leggja sitt af mörkum við að draga úr matarsóun með því t.d. að bjóða vörur á síðasta söludegi á afslætti.

Þetta eru bara örfá dæmi. Dettur þér fleira í hug sem myndi auðvelda þér að temja þér sjálfbærari og loftslagsvænni lífsstíl? Endilega láttu í þér heyra. Komdu hugmyndum á framfæri. Settu þrýsting á rétta aðila. Aðeins með samtakamætti og kerfisbreytingum náum við þeim slagkrafti sem þarf til að breyta um kúrs.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia – sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Íslensk meðvirkni

Sigurður Ingólfsson skrifar
03. júní 2023 | kl. 06:00

Sparilundur í Vaðlaskógi

Sigurður Arnarson skrifar
31. maí 2023 | kl. 10:10

Luton Town – af upprisu

Arnar Már Arngrímsson skrifar
29. maí 2023 | kl. 12:00

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Hús dagsins: Grundarkirkja

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 19:00

Skógar og ásýnd lands

Sigurður Arnarson skrifar
27. maí 2023 | kl. 16:00