Heimaleikur Þórs, útileikur hjá KA

Ísland leikur lokaleik sinn í riðlakeppni EM kvenna í knattspyrnu á fimmtudag. Besta deild kvenna er því enn í fríi, en karlaliðin á Akureyri eiga leiki á laugardag og sunnudag.
FIMMTUDAGUR 10. JÚLÍ - fótbolti
Eins og lesendum er væntanlega kunnugt er nú þegar ljóst að kvennalandslið Íslands kemst ekki áfram úr riðlinum í átta liða úrslit á Evrópumótinu. Akureyringurinn í hópnum, Sandra María Jessen, hefur staðið sig vel í leikjum liðsins til þessa, en því miður hafa mörkin og stigin ekki skilað sér hjá liðinu í fyrstu tveimur leikjunum.
- EM kvenna í knattspyrnu
Arena Thun í Sviss kl. 19
Noregur - Ísland
Leikur Íslands og Noregs verður í beinni útsendingu á Rúv, eins og allir leikirnir á EM í Sviss.
LAUGARDAGUR 12. JÚLÍ - fótbolti
Keppni í Lengjudeild karla heldur áfram og taka Þórsarar á móti Leikni á laugardag, en Sigurður Höskuldsson, þjálfari Þórs, þjálfaði Leikni á sínum tíma og kom þeim upp í efstu deild. Þórsarar unnu fyrri leik þessara liða í vor, 4-1 á útivelli.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu
Boginn kl. 16
Þór - Leiknir
Þórsarar máttu þola tap í síðustu umferð þegar Þróttarar komu norður og skoruðu tvö mörk á lokamínútu leiksins. Þróttarar fóru þar með upp fyrir Þór í töflunni. Leiknir tapaði heimaleik gegn Fjölni og færðist niður í fallsæti.
Þór er með 17 stig í 6. sæti deildarinnar þegar keppnin í deildinni er hálfnuð, 11 umferðum lokið af 22. Fyrir ofan eru Þróttur og Keflavík með 18 stig, þá HK með 21, Njarðvík 23 og ÍR á toppnum með 25 stig.
Leiknir er í botnbaráttunni, en liðið situr í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig. Fyrir neðan er Selfoss með sjö stig, en Fjölnir er sæti ofar með jafnmörg stig og Leiknir.
SUNNUDAGUR 13. JÚLÍ - fótbolti
KA sækir FH heim í Kaplakrikann á sunnudag í gríðarlega mikilvægum leik fyrir bæði lið í slag neðstu liða Bestu deildar karla um stigin. KA vann fyrri viðureignina við FH í vor, 3-2 á heimavelli.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Kaplakrikavöllur kl. 16:00
FH - KA
Þegar 14 umferðum er lokið af 22 er mikil spenna í botnbaráttu deildarinnar. KA vann mikilvægan sigur á KR í 14. umferðinni, kom sér tímabundið úr fallsætinu, en færðist þangað aftur eftir að FH náði sér í stig gegn Stjörnunni.
Skagamenn eru á botni deildarinnar með 12 stig, en þar fyrir ofan eru KA, ÍBV og FH með 15 stig og KR þar fyrir ofan með 16 stig. KA raðast í 11. sætið sem stendur á markamun.


Siggi póstur

Að baka brauð

Hús dagsins: Nonnahús (Aðalstræti 54)

Skógrækt og fæðuöryggi
