Fara í efni
Pistlar

Hamingjudagar

Leikfélag Akureyrar, undir stjórn Mörtu Nordal, hóf leikárið á metnaðarfullan hátt 2. september sl. með frumsýningu á verkinu Hamingjudagar (e. Happy Days) eftir Nóbelsskáldið Samuel Beckett (1906-1989). Hamingjudagar er eitt af hans helstu verkum, en önnur þekkt verk eru Beðið eftir Godot (1954), Endatafl (1958) og Síðasta segulband Krapps (1958). Hamingjudagar voru fyrst settir á svið í New York 1961 og síðan í London 1962. Þeir voru settir upp á Íslandi af leikfélaginu Grímu í Lindarbæ árið 1965 en síðan ekki fyrr en nú.

Það er erfitt að lýsa Hamingjudögum með orðum, en það er vandi sem Beckett setur áhorfandann án efa vísvitandi í. Líta má á verkið sem tilraun hans til að „tjá það sem ekki er hægt að tjá, án tækja til tjáningar, valds til tjáningar, löngunar til tjáningar, en þó af skyldu til að tjá sig,“ svo vitnað sé til viðtals við hann sjálfan. [1] Hefðbundnum boðleiðum er ýtt til hliðar, ekki bara leikhúsbrellum heldur líka grunnformum á borð við söguþráð, samtöl og hreyfingar á sviði. Samt er svo merkilegt að það sem gerist – eða öllu heldur gerist ekki – á sviðinu fangar athygli áhorfandans og heldur áfram að leita sterkt á hugann löngu eftir að sýningu lýkur. Með því að brjóta upp leikhúsformið tókst Beckett einhvern veginn að tjá sig með alveg nýjum hætti. Í því liggur snilld hans og hún markaði upphaf nútíma leikritunar.

Aðalpersóna verksins, Vinní, stendur föst upp að mitti í moldarhaug undir brennandi sól. Í verkinu er aðeins ein önnur persóna, eiginmaðurinn Villi, sem virðist búa í holu bakatil í hólnum. Hann sést lítið og segir fátt, en gegnir þó mikilvægu hlutverki þess sem Vinní beinir orðum sínum að án þess þó að fá neitt til baka sem gæti staðfest merkingu orða hennar, virði hennar sem manneskju eða hreinlega að hún sé til. Verkið er eins og einleikur að því leyti að svo til allur textinn kemur úr munni Vinníar. Hún talar í sífellu, veður úr einu í annað, endurtekur sig, týnir þræðinum, vitnar í „ógleymanlega“ frasa úr bókmenntum sem hún man þó ekki alveg hvernig voru, gramsar í eigum sínum, snyrtir sig, tekur ýmist ofan eða setur upp hatt og gleraugu, er alltaf að en samt ekki að gera neitt.

Eitt meginstefið í orðræðu Vinníar eru yfirlýsingar hennar um hamingju og hvað hún eigi margt að þakka. Þessi orð eru í beinni mótsögn við þær fáránlegu aðstæður sem blasa við áhorfandanum allan tímann. Vinní er fangi ömurlegrar og tilgangslausrar tilveru sem hún bregst við með síbylju orða og gerða í augljósri afneitun og sjálfsblekkingu. Hún reynir að skapa merkingu í tilgangslausum heimi en ekkert í umhverfi hennar tekur þátt í þeirri merkingarsköpun, allra síst „viðmælandinn“ Villi. Eftir því sem líður á verkið þrengir grimmilegur raunveruleikinn æ meir að og ekkert virðist framundan nema endalok og tortíming. Viðleitni Vinníar til að vera jákvæð og glaðbeitt verður æ örvæntingarfyllri.

Það er ekki heiglum hent að leika hlutverk á borð við Vinní, en Edda Björg Eyjólfsdóttir leysir það afburðavel af hólmi. Þar er mörg þrautin. Textinn er langur (nánast allt leikritið), tilviljanakenndur, órökréttur og styðst hvorki við atburði né söguþráð. Í handriti eru nákvæmar lýsingar af hálfu höfundar á því hvað Vinní gerir og í hvaða röð, hvernig svipi hún setur upp, hvernig hún beitir röddinni, hvenær hún hikar eða þagnar. Rými til túlkunar takmarkast þannig ekki bara af því að Vinní er rígföst á sama stað heldur líka af ströngum fyrirmælum höfundar. Engu að síður tekst Eddu Björg að draga áhorfandann inn í örvæntingarfulla tilraun hennar til að lifa af í miskunnarlausum og deyjandi heimi. Hún nær fram hrynjanda sem hrærir huga áhorfandans líkt og áhrifamikil tónlist. Þjáning hennar verður tilfinnanleg og í hróplegu ósamræmi við inntak orða hennar.

Árni Pétur Guðjónsson fer líka á kostum í sínu „stóra smáhlutverki“ ef svo má að orði komast. Innkomurnar eru ekki margar en þeim mun áhrifameiri í óþolandi ruddaskap sínum. Árni er í raun ekki að leika persónu, ekki frekar en Edda Björg ef út í það er farið. Vinní og Villi eru týpur, ákveðnar tegundir fólks, eða kannski öllu heldur ákveðnar hliðar á fólki – kannski okkur öllum. Þær eru í senn harmrænar og skoplegar því húmorinn í verkinu er bæði kaldhæðinn og bitur.

Á bak við þessa vönduðu sýningu stendur Harpa Arnardóttir leikstjóri, sem lýsir því í leikskrá hvernig það varð fyrir valinu að fylgja fyrirmælum Becketts og leyfa verkinu að tala við okkur eins og Beckett sjálfur sá það fyrir sér. Form og hrynjandi textans gegnir lykilhlutverki og það hefur tekist vel að koma því til skila í þýðingu Árna Ibsen frá 1988, yfirfarinni af Hafliða Arngrímssyni. Leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur, lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar og tónlist Ísidórs Jökuls Bjarnasonar hjálpast einnig að við að skapa óþægilega ógleymanlega leikhúsupplifun í „svarta kassanum“ á sviðinu í Hofi.

Hamingjudagar var sú leið sem Samuel Beckett valdi til að lýsa mannlegri tilveru í kjölfar atómsprengjunnar, þegar haldbær gildi og merking í lífinu virtust orðin tóm og tilverustefna og absúrdismi kannski eina svarið. Nú, rúmum 60 árum seinna, er tilveru okkar ógnað með nýjum hætti. Hamingjudagar færa okkur spegil sem við getum notað til að spyrja hvort aðferðir okkar sjálfra við að lifa af í válegri veröld séu kannski eintóm afneitun og sjálfsblekking að hætti Vinníar.

[1] David Pattie, Samuel Beckett (London: Routledge, 2000), bls. 31.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Minningabrot í hringformi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
22. september 2023 | kl. 12:00

Að eldast með reisn

Sigurður Arnarson skrifar
20. september 2023 | kl. 12:12

Hús dagsins: Litli-Hvammur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. september 2023 | kl. 08:25

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Hvað vitum við fyrir víst um hrafnþyrni?

Sigurður Arnarson skrifar
14. september 2023 | kl. 10:45