Fara í efni
Pistlar

Google Translate

Nýlega áttum við hjónin eftirminnilega kvöldstund á veitingastaðnum Rauða eplinu í borginni Breda í Hollandi. Maturinn var frábær og félagsskapurinn enn betri. Borðnautar okkar voru dóttir okkar, unnusti hennar, móðir hans, faðir og fósturfaðir, öll búsett í Breda.

Þá er ótalin áttunda manneskjan við borðið og sú mikilvægasta. Sú er að þroskast í móðurkviði og ætlar að gera unga parið að foreldrum í sumar - og okkur hin sem komum við þessa sögu að öfum og ömmum. Kvöldverðurinn á Rauða eplinu var til að fagna því og leiða saman foreldra verðandi mömmu og pabba. Við Bryndís vorum að hitta þau Auru, Patrik og Kennedy í fyrsta skiptið. Sá síðastnefndi er frá eyjunni Curacao í Karíbahafi en hin tvö frá nágrannaeyjunni Aruba. Prinsessan litla mun því eiga rætur suður í höfum og norður við heimskautsbaug.

Kvöldið var indælt og borðsamfélagið dásamlegt. Við nutum ljúffengra veitinga, spjölluðum, hlógum og kynntumst góðum manneskjum.

Þegar ég kom heim á hótel setti ég mynd af tengdaforeldrum dóttur minnar á facebook. Myndinni fylgdi stutt færsla þar sem ég sagðist meðal annars hafa átt indælt kvöld „með öndvegisfólkinu Kennedy, Patrik og Auru“ eins og það var orðað.

Daginn eftir fórum við á kaffihús með hinum verðandi foreldrum. Tengdasonur okkar ákvað að heyra í foreldrum sínum. Símtalið var nýbyrjað þegar við skynjuðum, að ekki væri allt með felldu og babb komið í bátinn. Hann varð alvarlegur á svip, lækkaði róminn brá sér afsíðis með símann.

Þegar hann kom til baka skilaði hann kveðju frá foreldrum sínum með þakklæti fyrir kvöldið á Rauða eplinu. Þó væru foreldrar hans örlítið hugsi eftir að hafa séð það sem ég hafði skrifað á facebook um samfundi okkar. Hann hafði sent þeim hlekk á færsluna og myndina. Foreldrum hans lék eðlilega hugur á að vita hvað ég hafði sagt þar og leituðu til þess mikla þýðingarmeistara, Google Translate sem var falið að snara færslunni af íslensku yfir á ensku. Þar rákust foreldrar tengdasonar míns á titil sem ég hafði gefið þeim og þeim fannst vægast sagt undarlegur.

Doktor Google hafði þýtt þessa stuttu færslu mína prýðilega en þegar kom að því að þýða íslenska orðið „önd-vegis-fólk“ sem ég notaði í texta mínum um þau Auru, Patrik og Kennedy, vandaðist málið.

Ráku þau upp stór augu þegar þau lásu þá yfirlýsingu hins tilvonandi íslenska afa, að hann hefði snætt kvöldverð á Rauða eplinu með „the duck people“.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30