Fara í efni
Pistlar

Gömlu barrtrén í Vaðlaskógi

TRÉ VIKUNNAR - LXV

Hvað er svona merkilegt við það að til séu barrtré í Vaðlaskógi frá því rétt fyrir stríð? Jú það er nú saga að segja frá því. Það er nefnilega þannig að þó fyrstu alvöru gróðursetningar barrtrjáa á Íslandi séu frá árinu 1900, þá var skógrækt óttalegt strögl til að byrja með. Fyrstu áratugi aldarinnar voru margar úrtöluraddir og margir sögðu að það væri vonlaust mál að rækta útlend tré á Íslandi. Meira að segja skógræktarstjórinn A.F. Kofoed-Hansen hætti að mestu tilraunum með útlend tré á tímabili. Svo gerðist það árið 1935 að skógfræðingurinn Hákon Bjarnason kom til starfa og hann hafði fulla trú á erlendum barrtrjám á Íslandi.

En nú skellum við okkur í Vaðlaheiðina en þar var lokið við girðingu árið 1937 og strax farið að gróðursetja.
 
 

Gestir í Reynirjóðrinu árilð 2019. Mynd: Sig.A.

Eftirfarandi texti er úr tíu ára afmælisriti Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 1940:

„Vaðlaheiðargirðing . . . Alls er nú búið að gróðursetja þar sem næst þrjátíu þúsund plöntur, mest björk . . .

Allar víði- og birkiplönturnar eru fluttar austan úr Vaglaskógi, svo að segja má, að skógurinn sé beinlínis fluttur inn fyrir Vaðlaheiði . . .

Barrplönturnar eru allar frá skógrækt ríkisins. Hefur Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, reynst félaginu hinn bezti stuðningsmaður um útvegun á plöntum og ýmsar leiðbeiningar við framkvæmdir félagsins.“

 

Í bakgrunni má sjá rauðgreni og skógarfuru í Hálogalundum. Mynd: Helgi Þórsson.

Járnsíða

Skrá um gróðursetningar skógræktarfélaga í gegnum tíðina hefur hið virðulega nafn Járnsíða. Í Járnsíðu segir að árið 1939 hafi 3000 barrplöntum verið plantað í Vaðlareit, í svæði II og III. Svo er bara að fylla í eyðurnar. Hvaða barrplöntur voru þetta? Það vill svo vel til, að gamall uppdráttur leynist í fórum félagsins og þar má sjá staðsetningu barrplantnanna. Á þeim stöðum leynist nefnilega heill fjársjóður af barrtrjám og hér á eftir ætlar undirritaður að gera sitt besta að telja upp tegundirnar og hvað vitað er um þær.
 

En þó Járnsíða sé gott rit þá geymir hún ekki allan sannleikann, því í Skógræktarritinu árið 1938 má sjá að um 2000 barrviðir voru gróðursettir í Vaðlaskóg árið 1937. Eins má sjá í ársritinu árið 1942 að ári áður var einhverjum barrtrjám plantað í reitinn.

 

Hluti af gömlum uppdrætti yfir Vaðlareit, sem nú er Vaðlaskógur, í eigu Skógræktarfélags Eyfirðinga. Ljósmynd: Helgi Þórsson.

Ættir og uppruni

Nokkuð er vitað um uppruna og ferðalag trjánna. Flest eiga þau uppruna sinn í gróðrarstöð í Hálogalandi í norður Noregi. Gróðrarstöðin er á stað sem heitir Alastahaug. Raunar kom eitthvað frá Rognan líka sem er í sama fylki, og eins komu einhverjar plöntur frá Bergen a.m.k. sitkagreni. Frá þessum stöðum fékk Hákon skógræktarstjóri plöntur í þúsunda tali á árunum 1936-1938. Stór og ef til vill stærsti hluti þessara trjáa var gróðursettur á Hallormsstað. En þessum norsku trjám var einnig dreift víða um land. Um trén sem gróðursett voru á Hallormsstað segir Sigurður Blöndal „Árið 1937 var þannig plantað á Hallormsstað, í Mörkinni og nágrenni hennar, 7 norðuramerískum barrviðartegundum, sem munu hafa komið frá Alastahaug. Gróðursetning fjögurra þeirra heppnaðist með ágætum, og eru lundirnir, sem upp af þeim uxu, meðal þess, sem við teljum nú höfuðprýði á Hallormsstað: Fjallaþinur, blágreni, broddgreni og sveigfura. Örfáir einstaklingar lifa af lindifuru og stafafuru úr þessari sendingu en hafa vaxið hægt“.
 

Gaman er að segja frá því að skógarplöntustöðin í Alstahaug var stofnuð 1930 og er enn í fullum gangi, en áfram með smjörið.

 

Mynd úr safni Skógræktarfélagsins frá árinu 1980. Þarna eru elstu gróðursetningarnar orðnar mjög áberandi. Sjá má gamla skátaskálann á mel í skóginum til hægri á myndinni. Sennilega tók Aðalsteinn Svanur Sigfússon myndina.

Þó obbinn af barrplöntum þessa tímabils (1937-1939) hafi komið úr norskum gróðrarstöðvum er líklegt að döglingsviðurinn, sem nú er farið að kalla degli, sé úr sáningu á Hallormsstað, því þar var plantað heimaræktuðum döglingsviði á þessum árum (Skógræktarritið 2000, annað hefti).

 

Aumingja deglið, sem stundum er nefnt döglingsviður eða dögglingsviður, hefur brotnað illa undan snjó. Ástæða þess er þröngir greinavinklar sem hann fær eftir kal. Mynd: Helgi Þórsson.

 

Hörmulegar afleiðingar kals í degli eða döglingsvið. Því miður virðist þetta nokkuð algengt hjá þessari tegund. Afleiðingarnar verða snjóbrot. Þetta tré mun brotna í klessu. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Mynd: Helgi Þórsson.

Árið 1937 komu fyrstu sitkagrenitrén til landsins sem ættuð voru frá Alaska. Sennilega er þetta sitkagreni úr þeirri sendingu. Það kom frá gróðrarstöð í Bergen sem Hákon var í góðu sambandi við. Einnig komu furur til Skógræktarfélagsins árið 1937 frá gróðrarstöð í Rognan sem er svolítið norðar en fyrrnefnd gróðrarstöð í Alstahaug (Skógræktarritið 1938).

Staðsetning

 

Eins og fram hefur komið virðist öll gróðursetning barrviða í Vaðlaskógi á árunum 1937-1939 hafa farið á tvo staði. Annars vegar fremur fá tré á svæðið milli lækja (sunnan við Hakaskojalerkið frá 1951) og hins vegar sunnarlega og efst í skóginum í landi Syðri-Varðgjár, þar sem um nokkuð stórar og þéttar gróðursetningar er að ræða. Stundum hreinar tegundir en á svæðum er eins og gróðursetningin hafi farið úr böndunum og barrviðirnir flækjast hver um annan í einni bendu.

 

Millilækjaskógur, fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðháttum. Mynd: Helgi Þórsson.

Hálogalundir

Alltaf og iðulega er greinarhöfundur að fjalla um skóga og lundi í skógum og skóga í skógum sem eru nafnlausir. Það er meinlegt og glatað. Að einhverju leyti er vont nafn betra en ekkert nafn. Þannig að nú er kastað fram nafninu „Hálogalundir“ um gróðursetningarnar umræddu í landi Syðri-Varðgjár. Það á ágætlega við þar sem obbinn af trjánum kom frá gróðrarstöðvum í fylkinu Hálogalandi í Noregi.
 

Hálogalundir eru lundirnir sunnanundir reynirjóðrinu, nokkrar nánast samliggjandi gróðursetningar, efst í girðingunni, sunnarlega, í landi Syðri-Varðgjár. Sjá uppdrátt.

 

Hálogalundirnir eru ekki auðfundnir fyrir ókunnuga og ekki merktir sérstaklega. Ef til vill hjálpar þessi uppdráttur einhverjum að ramba á staðinn. Mynd: Helgi Þórsson.

Skógarfura, Pinus sylvestris.

Mest af skógarfurunni fór í eina rönd sem liggur austur vestur. Flest trén hafa lifað og vaxið bærilega. Þær eru mjög fallegar en ekki sérlega beinvaxnar. Fyrsta sjálfsána skógarfura landsins fannst rétt norðan undir þessu belti árið 1990. Sú er lúsug og ljót, og brotin og bæld og kúguð af birkihríslu og komin að niðurlotum. Ekkert er vitað um kvæmi, en ef við leitum í skrifum Sigurðar Blöndals, þá má sjá að hann nefnir að árið 1938 hafi verið gróðursett skógarfura þar eystra, sem líklega hafi verið sænsk, og bætir við að sú fura hafi orðið fyrsta fórnarlamb furulúsarinnar þar. Það kann að skýra óvanalegt útlit skógarfurunnar í Vaðlaskógi, að hún sé sænsk. (Að koma sænskt fyrir sjónir (eða þannig)). Hins vegar hefur þessi skógarfura í Vaðlaskógi staðið vel af sér lúsapláguna sem oftast drap stóran hluta skógarfurugróðursetninga eða þurrkaði þær út með öllu. Skógarfuran er svona ca. 10-15 metra há þegar þetta er ritað.
 
 

Skógarfururnar frá 1939 hafa lifað ágætlega og eru nú myndarleg tré. Um upprunann er lítið vitað en vísbendingar eru til um að þær gætu verið sænskar. Mynd: Helgi Þórsson.

Lindifura, Pinus sibirica

Annars vegar er lindifuran í lundi upp við girðinguna og hins vegar í blandi við sitkagreni og fleiri tegundir örlítið neðar. Lindifuran virðist hafa kalið á yngri árum og oft og tíðum vaxið upp margstofna, en aukastofnar voru mikið til felldir upp úr 1990. Hún var gróðursett mjög þétt, með rúmlega meters millibili og lítið grisjað. Samt hefur hún náð þokkalegri hæð, en hún er ekki eins gild og aldurinn gefur tilefni til. Hún hefur sáð sér inni í reitnum og í austurjaðrinum eru ágætis sjálfsáningar. Þar fær ungviðið meiri birtu en plönturnar sem eru inn í reitnum. Því eru sjálfsánu lindifururnar við jaðarinn þroskameiri og stærri.
 
Tvær myndir af sjálfsánum lindifurum. Sú fyrri tekin rétt við girðinguna við efri kant lundarins haustið 2023. Mynd: Helgi Þórsson. Seinni myndin er tekin inni í lundinum árið 2019 en þar stendur Bergsveinn Þórsson við ungar, litlar lindifurur. Mynd: Sig.A.

Um upprunann er erfitt að segja nokkuð með vissu, en Sigurður Blöndal nefnir að 1938 hafi verið gróðursettar á Hallormsstað 70 plöntur sem sennilega hafi verið ættaðar frá Novosibirsk í Vestur Síberíu. Það er líklegt að Vaðlaskógarplönturnar séu úr sama holli. Hann nefnir líka að vöxtur hafi verið hægur þar eystra, en að nokkrar þeirra lifi vel. Sömu sögu er að segja af Vaðlskógartrjánum en þau virðast þó flest hafa lifað og ef til vill full mörg miðað við hve þétt var gróðursett og lítið grisjað. Greinarhöfundur rakst á stakan köngul í lundinum nú í haust og hann var smár sem gæti bent til að þessi tré væru af Alpaafbrigðinu en ekki því síberíska. Lindifuran er á sama róli og skógarfuran svona 10-15 metra há. Yfirleitt eru trén þráðbein.

Tvær myndir úr lindifurulundinum. Á fyrri myndinn er allt upp í loft. Hana tók Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Seinni myndin sýnir teinréttar, léttvaxnar og þokkafullar lindifurur. Hana tók Helgi Þórsson.

Bergfura, Pinus uncinata

Mjög breytileg í Vaðlaskógi. Annars vegar grófgreinóttar, kræklu-skessur og hins vegar nokkuð beinstofna, fíngreinótt skógartré. Oft eru þetta falleg tré og hraust. Stök tré, hist og her.
 
 

Bergfururnar eru margar grófar en innan um eru beinvaxin skógartré. Mynd: Helgi Þórsson.

Ekkert er vitað um upprunann en trén eru sum hin bestu klifurtré en hættir til að verða undir í samkeppni við stórvaxnari tegundir þar sem skógurinn er þéttastur. Bergfuran er frá því að vera samanreknir stubbar þar sem sólar nýtur og upp í allt að 14 metra há tré þar sem hún þarf að keppa um ljósið við grenið og önnur tré.

 

Til vinstri er mikið mynduð bergfura sem kvistuð var með klifur í huga. Til hægri eru hávaxin sitkagrenitré. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.

Sitkagreni, Picea sitchensis

Nokkur tré eru í neðri hluta gróðursetningarinnar innan um rauðgreni, bergfuru, lindifuru, skógarfuru og lerki. Auðvitað er sitkagrenið orðið gríðarstórt. Það sést illa úr fjarska því það stendur inni í þéttum lundinum og er hæst allra trjánna en rauðgrenið kemur þar á eftir. Trén eru líklega af annarri sendingu sitkagrenis til Íslands sem átti uppruna sinn í Alaska. Trén bárust frá Bergen 1938 (2000 stykki til Íslands). Ef rétt reynist þá eru þetta systur trjánna í Lýðveldislundinum á Tumastöðum. Þau eru ættuð af Kenaiskaganum. Fyrstu Alaskaættuðu sitkagrenin (eitt hundrað stykki) komu til landsins árið áður og voru gróðursett á Suðurlandi. Sitkagrenin í Vaðlaskógi eru á rólinu 18-21 m á hæð.
 
 

Mynd úr safni Skógræktarfélgs Eyfirðinga sem tekin var af ókunnum höfundi árið 1956. Hún sýnir barrtré milli lækja sem plantað var á árunum 1937 til 1938. Sjá má sitkagreni, degli, skógarfuru og broddgreni. Strax þarna hefur sitkagrenið tekið forystuna.

Broddgreni, Picea pungens

Aumingja broddgrenið geldur þess að vera borið saman við sitkagreni og rauðgreni og í þeim samanburði á það engan séns. Broddgrenið stendur innan um skógarfuruna og bergfuruna. Það þekkist á sveigðum, mjög oddhvössum nálum. Oft eru nálarnar bláleitar og börkurinn flagnar og því grófari en á sitkagreni svo dæmi sé tekið.
 

Þegar skáldið fór um skóginn í haust komst það að því að broddgrenin í þéttasta partinum höfðu orðið undir í samkeppninni og geispað golunni. Broddgrenirönd er á bak við reyniröðina utan við Reynirjóðrið og eitt eða nokkur lifa milli lækja, og mörg yngri broddgrenitré eru í skóginum oft fallega blá en hægvaxin og viðkvæm.

 

Broddgrenið norðan við Reynirjóðrið var gróðursett árið 1939. Lægri greinarnar þola ekki skuggann frá reyninum eða nudd við greinar hans en krónurnar þar fyrir ofan eru ágætar. Mynd: Helgi Þórsson.

Rauðgreni, Picea abies

Það er óljóst hvort rauðgreni var meðal trjánna sem gróðursett voru 1939 en líklega var það svo. Enda voru gróðursetningarnar merktar „fura og greni“. Mjög fallegt rauðgreni frá Norður-Hálogalandi, sem gróðursett var 1960, er allt í kringum þessa gróðursetningu og erfitt að sjá í fljótu bragði hvað er hvað. Auðvitað mætti einfaldlega vanda sig við að telja árhringi við næstu grisjun og fá úr þessu skorið. Hæstu trén eru einhver staðar á bilinu 16-20 metrar á hæð.
 
 

Gamall rauðgrenistofn í Hálogalundinum. Mynd: Helgi Þórsson.

Selja, Salix caprea

Selja er alls ekki barrtré og ætti alls ekki að vera hér. En hún er samt hér og fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er sú að líkur eru til þess að tréð hafi komið með barrtrjársendingunum og hin ástæðan er sú að þetta er uppáhalds tré Aðalsteins Svans verkstjóra Skógræktarfélagsins til margra ára.
 
 

Bergsveinn Þórsson sýnir gestum skógarins hina glæsilegu selju sem er svo stór að hún rúmast ekki öll á myndinni. Myndin tekin sumarið 2019 en þá um veturinn brotnaði tréð undan snjóþyngslum. Mynd: Sig.A.

Skógrækt ríkisins fékk fyrstu seljurnar frá Saltdal í Noregi á árunum 1936-1939, þannig að telja má líklegt að hin staka selja, sem stendur sunnan við skógarfuruna, hafi einmitt komið með barrtrjánum 1939. Þar við eru nú rústir tískusýningarpalls sem eitt sinn bar ægifagrar skógardísir, á frægri uppákomu í fornöld. Því er rjóðrið, sem þarna er, kennt við tískusýningu.

 

Skáldið stendur við skógarfuru neðanundir Tískusýningarrjóðri. Vinstra megin á myndinni er þykkur stofn gömlu seljunnar og hægra megin er skógarfurugróðursetningin. Allt er þetta hluti af Hálogalundunum. Mynd: Helgi Þórsson.

Aðalsteinn verkstjóri sat löngum við gluggann sinn í Spítalastígnum og horfði dreymandi augum yfir fjörðinn. Ekki síst á vorin, og þá gerðist undrið,- gulur blettur birtist í Vaðlaheiðinni. Þetta var árlegt ritúal og gott ef ekki einu trúarathafnirnar sem Aðalsteinn viðhafði á þessum árum. En guli bletturinn sem sást í heiðinni handan fjarðar var þessi staka selja að blómstra.

Seljan var tvístofna og klofnaði í ísingarveðrinu í desember 2019.

 

Smellið hér til að sjá allan pistil Helga.
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30