Fara í efni
Pistlar

Gerðu einhvern glaðan

Ég horfi ekki mikið á sjónvarp en eitthvað dregur mig að skjánum um kvöldmatarleytið. Ég horfi á íþróttir á Stöð 2 rétt fyrir sjö, skipti þá yfir og horfi á fréttir á RÚV. Fréttir eru hæpin uppspretta þekkingar og tilgangur þeirra er að búa til æsing og afþreyingu. En það kemur fyrir að einhver lærdómur slæðist með. Á síðustu vikum hefur auglýsing ein verið leikin á að giska tíu sinnum á þeim tiltölulega stutta tíma sem ég horfi á sjónvarpið. Þökk sé netversluninni Boozt þá er ég búinn að læra þetta ágæta lag og ljóð (sem og þjóðin öll):

„The Christmas season / a joyful reason / to click and choose / it gives a boost. / Get fast and free delivery / return with ease, no stress no fees. / Make someone happy, make someone happy.“

Þetta er vel ort, rím og alles. Það örlar meira að segja á stuðlasetningu („fast and free“). Fólkið í auglýsingunni er bæði fallegt og glaðlegt og manni hlýnar um hjartarætur. Mér datt í hug hvort ég gæti þýtt ljóðið og leyft þeim að njóta sem ekki kunna ensku (ég hélt reyndar að texta ætti allt erlent efni á RÚV). Ég verð að viðurkenna að mér brá dálítið þegar ég var búinn að snara orðunum. Ljóðið án lags varð eitthvað svo klént. Ég treysti mér ekki til að viðhalda ríminu og hrynjandinni, kannski er það ástæðan fyrir glansleysinu:

„Það lyftir manni upp á jólahátíðinni að smella og velja. Þú færð sent heim frítt og með hraði og það er ekkert mál að skila, þér að kostnaðarlausu. Gerðu einhvern glaðan, gerðu einhvern glaðan.“

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna var ekki glaður í ræðu fyrir skemmstu og hann talaði um að við værum á hraðleið til helvítis. Róa sig aðeins. Maður verður að fá að leyfa sér aðeins; Singles´ Day, Black Friday, þetta er næs krydd í tilveruna og frábært að taka jólainnkaupin snemma og svona.

Árið 2021 sendi Rauði krossinn á Akureyri 187 tonn af fatnaði og annarri vefnaðarvöru í gámum til útlanda. Margt af vörunum hafði aldrei verið notað og var enn í umbúðunum.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri.

Í Davíðshúsi

Sigurður Ingólfsson skrifar
28. september 2023 | kl. 09:00

Magnolíur – Fornar og fallegar

Sigurður Arnarson skrifar
27. september 2023 | kl. 09:30

Minningabrot í hringformi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
22. september 2023 | kl. 12:00

Að eldast með reisn

Sigurður Arnarson skrifar
20. september 2023 | kl. 12:12

Hús dagsins: Litli-Hvammur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. september 2023 | kl. 08:25

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30