Fjöldi heimaleikja fram undan í vikunni

Það er ýmislegt á dagskrá vikunnar hjá íþróttaliðum Akureyrar. Evrópuleikur ungliða á Greifavellinum, handboltaliðin þrjú með heimaleiki, hokkíleikir í Skautahöllinni og heimsókn knattspyrnukvenna austur á Reyðarfjörð. Eldra körfuboltafólk sýnir svo listir sínar á Pollamóti um komandi helgi og á sunnudag getur KA tryggt endanlega sæti sitt í efstu deild karla í knattspyrnu.
MIÐVIKUDAGUR 1. OKTÓBER - fótbolti
U20 lið KA (2. flokkur) varð Íslandsmeistari í fyrra og tekur því þátt í Evrópukeppni í ár, UEFA Youth Leauge. Mótherji KA í fyrstu umferðinni er lettneska liðið FS Jelgava. Liðin hafa nú þegar mæst í Lettlandi og gerðu 2-2 jafntefli. Sigur á miðvikudag þýðir því sæti í næstu umferð keppninnar.
- UEFA Youth League
Greifavöllurinn kl. 14
KA - FS Jelgava
Frítt er á leikinn í boði nokkurra stuðningsfyrirtækja félagsins, sem hvetur þó stuðningsmenn til að sækja sér frímiða á leikinn í Stubbi (miða-appinu) tímanlega vegna takmarkaðs fjölda miða.
- - -
Uppfært: Keppni í Unbroken-deild karla í blaki heldur áfram í kvöld með grannaslag í KA-heimilinu, þegar KA tekur á móti Völsungi. Þessar upplýsingar var því miður ekki að finna á vef Blaksambandsins þegar þessi samantekt yfir íþróttavikuna var fyrst sett saman.
- Unbroken-deild karla í blaki
KA-heimilið kl. 20:15
KA - Völsungur
- - -
FIMMTUDAGUR 2. OKTÓBER - handbolti, íshokkí
Að loknum fjórum umferðum er KA með tvo sigra í Olísdeild karla í handknattleik, hafa unnið Selfoss og HK á útivöllum. Nú er komið að öðrum heimaleik liðsins og allt eins líklegt að þar komi fyrsti heimasigurinn, þegar ÍR-ingar mæta norður.
- Olísdeild karla í handknattleik
KA-heimilið kl. 18:15
KA - ÍR
KA vann báðar viðureignirnar við ÍR í Olísdeildinni í fyrravetur, 28-24 á heimavelli og 39-34 á útivelli. ÍR-ingar hafa enn sem komið er aðeins hlotið eitt stig í Olísdeildinni, gerðu jafntefli við Selfoss. KA vann HK á útivelli í síðustu umferð, en ÍR tapaði með einu marki heima fyrir Aftureldingu.
- - -
Þórsarar hafa unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í Olísdeildinni, unnu ÍR í fyrstu umferðinni, en hafa síðan tapað fyrir Fram, Val og ÍBV. Þeir fengu liðsstyrk í Kára Kristjáni Kristjánssyni fyrir síðasta leik, en það dugði þeim þó ekki þegar þeir sóttu sveitunga Kára Kristjáns heim til Eyja.
- Olísdeild karla í handknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:00
Þór - Stjarnan
Stjarnan er í 5. sæti deildarinnar að loknum fjórum umferðum með fjögur stig, hafa unnið tvo og tapað tveimur leikjum, en Þórsarar sitja í 10. sætinu með tvö stig.
- - -
Enn er ekki komið að alvörunni í Toppdeild karla í íshokkí, nokkrir leikir eftir í forkeppninni sem gefur þó hvorki liðum né leikmönnum stig þegar áfram verður haldið, eins og áður hefur komið fram í umfjöllun Akureyri.net.
Það má þó eflaust búast við skemmtilegum leik í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið næsta þegar SA-liðin mætast innbyrðis, Jötnar, U22 lið SA, skemmtu áhorfendum í leik sínum gegn meistaraflokksliði Fjölnis og unnu nokkuð örugglega. SA vann í framlengingu í fyrsta leik sínum gegn Fjölni og vann síðan auðveldan sigur á Húnum, U22 liði Fjölnis, síðastliðinn sunnudag.
- Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
Jötnar - SA
Meistaraflokkur SA býr sig nú ekki aðeins undir keppni í Toppdeildinni heldur er liðið á leið til Litháen í októbermánuði til þátttöku í Evrópuriðli, Continental Cup, þar sem liðið fær væntanlega erfiða og verðuga andstæðinga. Meira um það síðar.
FÖSTUDAGUR 3. OG LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER - körfubolti
Pollamót Þórs í körfubolta, þar sem eldri leikmenn reyna með sér, hefur stækkað með hverju árinu undanfarin ár og er metþátttaka í mótinu sem fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri um komandi helgi. Spilað er á föstudegi og laugardegi, en mótinu lýkur með lokahófi í Höllinni á laugardagskvöld.
LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER - fótbolti, íshokkí, handbolti
Þór/KA spilar næstsíðasta leik sinn í Bestu deildinni á þessu tímabili á laugardag þegar liðið mætir FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. FHL er nú þegar fallið niður í Lengjudeildina, en Þór/KA er í 7. sætinu og hefur nú þegar tryggt Bestudeildarsætið, gerði það með sigri á Tindastóli í fyrsta leik í neðri hlutanum. FHL tapaði á útivelli fyrir Fram í fyrsta leiknum, sem þýddi að Fram hefur tryggt sér sæti í Bestu deildinni áfram, en Tindastóll fellur í Lengjudeildina með FHL.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði kl. 15
FHL - Þór/KA
Þór/KA vann báða leikina gegn FHL í deildinni í sumar, fyrir tvískiptingu. Þór/KA vann 5-2 í Fjarðabyggðarhöllinni snemma í maí og svo 4-0 í Boganum í ágústmánuði.
- - -
Kvennalið SA hefur unnið báða leiki sína til þessa í Toppdeildinni í íshokkí, fyrst 5-0 útisigur á Fjölni og svo 3-1 heimasigur gegn liði SR. Nú er komið að heimaleik gegn Fjölni, sem er án stiga í deildinni til þessa.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - Fjölnir
- - -
KA/Þór hefur farið frábærlega af stað í Olísdeild kvenna í handknattleik í haust, hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína, gegn Selfossi, ÍBV og Stjörnunni, og situr í toppsætinu með sex stig, eina liðið sem ekki hefur tapað leik í fyrstu þremur umferðunum. Nú er að því að taka á móti liði Hauka, sem hefur þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
- Olísdeild kvenna í handknattleik
KA-heimilið kl. 18
KA/Þór - Haukar
SUNNUDAGUR 5. OKTÓBER - fótbolti
Baráttan við að forðast fall úr Bestu deild karla í knattspyrnu harðnar með hverjum leiknum. Neðstu liðin hafa verið að ná sér í stig og tölfræðilega séð er ekkert liðanna sex í neðri hlutanum enn öruggt um áframhaldandi sæti í deildinni. ÍBV og KA standa þó best að vígi þegar þremur umferðum er ólokið.
KA tekur á móti Vestra í þriðja leik í neðri hluta Bestu deildarinnar á sunnudag. Sigur í þeim leik myndi tryggja KA áframhaldandi veru í efstu deild.
- Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
Greifavöllurinn kl. 14
KA - Vestri
Ísfirðingum hefur gengið afleitlega eftir að liðið varð bikarmeistari með sigri á Val 22. ágúst. Liðið náði sér í eitt stig í þremur umferðum frá bikarúrslitaleiknum fram að tvískiptingu Bestu deildarinnar og hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í neðri hlutanum. Vestramenn þurfa því að snúa genginu við því annars gæti fall úr deildinni hreinlega blasað við.


Álfar og huldufólk

Við nennum ekki þessu uppeldi

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Hin einmana eik eyðimerkurinnar
