Fara í efni
Pistlar

Fall er fararheill

Fall er fararheill

Ég tók ákvörðun um að fara í Menntaskólann á Akureyri 12 ára gömul, þá búsett á Þingeyri við Dýrafjörð. Ég hafði fengið gefins bók fyrir námsárangur sem hét „Akureyri - blómlegur bær í norðri“ og þar var fjallað um skólabæinn Akureyri á ómótstæðilegan hátt. Ég hafði aldrei komið til Akureyrar þegar að þessu kom, en kvöldið áður en ég flaug norður var heljarinnar hestamannaball fyrir vestan og ég kom ekki heim fyrr en undir morgun af ýmsum ástæðum sem ekki verður farið nánar yfir hér. Í þá daga leyfðist krökkum að taka fullan þátt í böllum á 16. ári. Ég var því angandi af rauðum Ópal þegar ég lenti á Akureyrarflugvelli með eina tösku og alveg foreldralaus.

Ég hafði fengið bréf um að ég fengi herbergi á heimavistinni og hlakkaði mikið til að kynnast samnemendum mínum þar eftir góða reynslu af heimavistinni á Núpi í Dýrafirði þar sem ég var í 10. bekk. Ég var ekki send þangað vegna þess að ég væri til vandræða heldur vegna þess að það var ekki 10. bekkur á Þingeyri í þá daga ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér. Það kom hins vegar í ljós að ég hafði fengið rangt bréf og hafði í raun ekki fengið pláss á heimavist MA. Þetta olli talsverðu fjaðrafoki og líklega hef ég verið komin á beinið hjá Tryggva skólameistara á mettíma miðað við lengd skólagöngu sem var ekki hafin.

Þrátt fyrir flugþreytu og aðra óskilgreinda þreytu skeggræddi ég þessa stöðu við Tryggva fram og tilbaka. Hann bauð mér af góðsemi sinni að leigja herbergi í kjallaranum hjá sér en ég afþakkaði það í hvelli því mér fannst ekki líklegt til vinsælda að búa hjá skólameistara. Ég hefði komið til að kynnast krökkunum á vistinni og vildi eignast vini þar. Krökkum sem væru í sömu stöðu og ég, farnir úr foreldrahúsum og vildu láta reyna á vængina. Ég sagðist vilja leggja mig í setustofunni á vistinni þar til á þessu fengist ásættanleg lausn fyrir alla. Hann sýndi þessu skilning enda vel menntaður maður.

Mig minnir að ég hafi fengið dýnu þessa fyrstu nótt og var í herbergi hjá öðrum stúlkum að vestan. En daginn eftir kom koja og kommóða í þetta sama herbergi og í einni andrá var búið að breyta þriggja manna herbergi í fjögurra manna herbergi. Lausnamiðuð hugsun hjá þeim Tryggva og Maríu húsráðanda á vistinni, löngu áður en það orð komst í tísku.

Minn draumur rættist og þann 17. júní eru 25 ár síðan ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Ég eignaðist marga góða vini á menntaskólaárunum og suma tel ég til minna bestu vina enn í dag. Það er skemmtileg hefð MA stúdenta að fagna stúdentsafmælum og undanfarnar vikur hef ég tekið þátt í að skipuleggja endurfundi með mínum skólafélögum. Það hefur verið gaman að rifja upp kynnin, við ætlum að hittast og eiga góða daga saman eins og í gamla daga – þrátt fyrir að við séum rétt að stíga upp úr heimsfaraldri. Ég hlakka virkilega mikið til að hitta þau þó hátíðarhöld séu ekki með hefðbundnum hætti vegna fjöldatakmarkana. Ég hugsa alltaf með hlýju til Menntaskólans á Akureyri, mennta- og uppeldisstofnun í fremstu röð. Takk fyrir allt og gleðilega hátíð!

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni“

Seigla er orð ársins

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 11:50

Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim?

Sigurður Kristinsson skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 12:00

Að þegja er eiginleiki sem hvarf

Jón Óðinn Waage skrifar
08. desember 2020 | kl. 07:00

Framtakssemin og einkaframtakið

Jóna Jónsdóttir skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00

Akureyringar tala dönsku á sunnudögum

Tryggvi Gíslason skrifar
15. nóvember 2020 | kl. 10:00

Sú mikla kúnst að æsa fólk upp

Jón Óðinn Waage skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00