Fara í efni
Pistlar

Eru háskólar ekki lengur menntastofnanir?

Háskólar eiga sér langa sögu í Evrópu. Gróflega má skipta þeirri sögu í tvö tímabil, annars vegar frá því um 1100 til um 1800 og hins vegar frá því um 1800 til dagsins í dag. Á fyrra tímabilinu voru háskólar menntastofnanir sem höfðu leyfi geistlegra og veraldlegra yfirvalda til að veita námsgráður, sem síðan höfðu gildi í embættismannakerfum þess tíma. Á seinna tímabilinu færðust vísindarannsóknir inn í háskólana. Í þeim hugmyndum um háskóla sem mótaðar voru á 19. öldinni var ýmist lögð áhersla á starfsmenntun, menntun og þroska einstaklingsins, eða að sameina menntun og þekkingarsköpun í einni stofnun.

Þessi síðastnefnda hugmynd varð smám saman ríkjandi meðal háskólafólks víða um lönd og hefur verið það fram til þessa dags. Hún var sett fram af Wilhelm von Humboldt, sem var menntamálaráðherra Prússlands 1809-1810, í tengslum við það verkefni hans að koma á fót Berlínarháskóla, en hann átti eftir að verða fyrirmynd annarra þýskra háskóla og síðar háskóla á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Grunnhugmynd Humboldts var sú að í svonefndum æðri menntastofnunum fari fram sameiginleg þekkingarleit kennara og nemenda á forsendum akademísks frelsis. Háskóli sé sérstök tegund samfélags sem gæði þekkinguna neista lífs og hugmyndaauðgi, eins og heimspekingurinn Alfred Whitehead komst að orði rúmri öld síðar. Þetta er lykilatriði í þeirri hugmynd um háskóla sem við höfum tekið í arf. Íslenskar rannsóknir sýna að þetta er enn ríkjandi hugmynd meðal þeirra sem starfa í íslenskum háskólum, tveimur öldum eftir að Humboldt setti hana fram.

Málefni háskóla og vísinda er meðal þess sem fært var á milli ráðherra við stjórnarskiptin 28. nóvember sl. Fram til þessa hafa þessi háskólamál heyrt undir sama ráðherra og fræðslumál, þar á meðal málefni leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, lýðskóla, tónlistarskóla, framhaldsfræðslu og listaskóla. Starfsheiti þess ráðherra hefur jafnan verið menntamálaráðherra eða (frá 2009) mennta- og menningarmálaráðherra. Nú ber svo við að málaflokkum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur verið skipt á milli fjögurra ráðherra: Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með fræðslumál, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og loks Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem núna fer með málefni vísinda og rannsókna, þar á meðal háskóla. Ráðherravald í málefnum háskóla er þannig í höndum annars ráðherra, úr öðrum stjórnmálaflokki, en ráðherravald í menntamálum almennt.

Margir eru hugsi yfir þessum breytingum. Hver er tilgangurinn? Hvaða hugmyndir liggja að baki? Hverjar verða afleiðingarnar? Hvað verður t.d. um samfelluna á milli kennaranáms og skólakerfisins? Hvað um samvinnu milli skólastiga, t.d. við skilgreiningu hæfniviðmiða á framhaldsskólastigi í tengslum við inntöku í háskólanám? Verður ekki lengur litið svo á að það nám sem stundað er í háskólum sé hluti af menntakerfinu?

Síðast en ekki síst þurfum við að spyrja okkur hvað sé orðið um þá hugmynd um háskóla sem lýst var hér að ofan, um háskóla sem samfélag lærdómsleitar sem getur af sér bæði menntun og nýja þekkingu og kemur þannig samfélaginu og mannkyninu til góða? Ef við hættum að líta á háskóla sem menntastofnanir og teljum að ávinningurinn fyrir samfélagið felist fyrst og fremst í nýsköpun sem hefur markaðsvirði erum við að snúa baki við hugmyndinni um háskóla.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00