Benda á lykilatriði við lausn bráðavanda
„Vandi Sjúkrahússins á Akureyri er ekki nýr. Starfsfólk hefur árum saman varað við þróuninni og hvatt stjórnvöld til að standa vörð um sjúkrahúsið og tryggja því þau skilyrði svo því verði gert kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu.“ Þannig ritar Friðbjörn Sigurðsson, læknir við Sjúkrahúsið á Akureyri í grein á bls. 16 í Morgunblaðinu í dag.
Friðbjörn bendir á að með uppsögn samninga við ákveðna lækna á sjúkrahúsinu sé í raun verið að leggja drög að því að færa mikilvæga þjónustu frá sjúkrahúsinu til einkarekinnar þjónustu lækna utan sjúkrahússins. Engin greining liggi þó fyrir um að slíkt sé hagkvæmara, hvorki fyrir sjúklinga né samfélagið.
Uppfyllir ekki lögbundið hlutverk
„Ef svo heldur fram sem horfir verður að skoða hvort nægilega öruggt sé að veita flókna þjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sérhæfð læknisþjónusta, s.s. í minni sérgrein, blóð- og krabbameinslækningum, þarfnast öflugrar stoðþjónustu frá öðrum sérgreinum. Ef við neyðumst til að hætta að veita krabbameinsþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sú þjónusta færist til Reykjavíkur mun það hafa gríðarleg áhrif á stóran sjúklingahóp og fjölskyldur þeirra, auk þess sem erfitt væri fyrir Landspítalann að taka við þeirri þjónustu, svo ekki sé talað um kostnaðaraukann,“ ritar Friðbjörn einnig í Morgunblaðinu.
Friðbjörn segir því miður langt frá því að spítalinn geti staðið undir því lögbundna hlutverki sínu að vera varasjúkrahús Landspítalans. Það hafi þó sennilega aldrei verið mikilvægara en nú, á viðsjárverðum tímum, að fullnægjandi varasjúkrahús sé til staðar í landinu. Þá segir hann einnig fara að verða vafamál að stonunin standi undir því hlutverki að vera kennsluspítali.
Afkastahvetjandi launakerfi hafa reynst vel
Friðbjörn bendir á að afkastahvetjandi launakerfi hafi reynst vel á sjúkrahúsum á landsbyggðinni og víðar. Með slíku kerfi hafi verið hægt að tryggja að sérfræðinguar haldist inni á sjúkrahúsum og þjónusta veitt þar í stað þess að þeir flytji starfsemi á einkastofur. Þannig megi skila betri og skilvirkari þjónustu og tryggja stöðugleika í mönnun sérgreina.
Fyrir um ári vann Friðbjörn, ásamt Guðjóni Kristjánssyni, forstöðulækni lyflækninga á sjúkrahúsinu, skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins að beiðni Willums Þórs Þórssonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Í Morgunblaðsgreininni nefnir hann lausn sem þeir Guðjón hafi lagt til við ráðuneytið.
„Þar lögðum við til að hlutverk Sjúkratrygginga yrði betur skilgreint þannig að stofnunin fjármagni þá þjónustu sem veitt er á dag- og göngudeildum Sjúkrahússins á Akureyri í samræmi við það sem lög kveða á um.“ Friðbjörn segir um lykilatriði að ræða til lausnar á vanda Sjúkrahússins á Akureyri sem myndi jafna stöðu dag- og göngudeilda sjúkrahúsa og sjálfstæðra læknastofa.
„Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi og því verður að bjarga,“ skrifar Friðbjörn og segir það ekki aðeins byggðamál að tryggja starfsemi sjúkrahússins heldur hreinlega þjóðaröryggismál að hér á landi séu fleiri en eitt sérgreinasjúkrahús.
Þið kannist við jólaköttinn ...
Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti
Hreyfing hreyfingarinnar vegna
Djúpstæð augu sviðakjammanna