Andri Már fetaði í EM-fótspor föðurins!
Andri Már Rúnarsson lék nokkrar síðustu mínúturnar og gerði eitt mark þegar Ísland sigraði Ítalíu mjög örugglega, 39:26, í fyrstu umferð Evrópumótsins í handknattleik í Svíþjóð á föstudaginn. Þar með fetaði hann í fótspor föður síns, Rúnars Sigtryggssonar sem tók þrisvar þátt í lokakeppni EM. Feðgarnir stigu báðir fyrstu handboltaskrefin með Þór, Rúnar raunar upp í meistaraflokk en Andri lék með félaginu í yngstu aldursflokkunum.
- Aðeins einir íslenskir feðgar höfðu náð því að leika fyrir Íslands hönd í lokakeppni Evrópumótsins þar til á föstudag, Ólafur Stefánsson og Einar Þorsteinn Ólafsson. Sá síðarnefndi var fyrst með á EM í Þýskalandi 2024 og er einnig í leikmannahópnum að þessu sinni en var reyndar fjarri góðu gamni gegn Ítölum vegna veikinda. Andri Már tekur nú þátt í fyrsta stórmótinu í fullorðinsflokki.

Handboltakappar á Pollamóti Þórs í fótbolta sumarið 2011. Landsliðsfélagarnir Róbert Gunnarsson, til vinstri, og Rúnar Sigtryggsson voru liðsmenn FC Real Grímsey á mótinu og eru hér á fundi fyrir eða eftir leik. Litli drengurinn fetar nú í fótspor þeirra á handboltavöllum Evrópu – Andri Már Rúnarsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- Rúnar Sigtryggsson lék fyrir Ísland á þremur Evrópumótum í röð, árin 2000, 2002 og 2004 og Ólafur Stefánsson var vitaskuld einnig í liðinu í öll skiptin.
Andri Már, sem er 23 ára leikmaður HC Erlangen í Þýskalandi, fæddist á Akureyri í ágúst 2002. Fjölskyldan var þá búsett í Þýskalandi þar sem faðir hans var atvinnumaður í handbolta en Andri flutti til Akureyrar sumarið 2005 ásamt foreldrum sínum og bróðurnum Sigtryggi sem er sex árum eldri. Sigtryggur lék um tíma í Þýskalandi en hefur verið í herbúðum ÍBV síðustu ár.
Rúnar hóf að leika með Þór á ný þegar heim kom 2005, varð þjálfari við hlið Axels Stefánssonar og var einnig ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Þegar Þór og KA hófu samstarf sumarið 2006 og til varð sameiginlegt lið, Akureyri, var Rúnar ráðinn þjálfari ásamt Sævari Árnasyni og lék einnig með liðinu.
Leiðin lá til Þýskalands á ný sumarið 2012, þegar Rúnar var ráðinn þjálfari EHV Aue.
Andri Már varð 85. leikmaðurinn sem spilar fyrir Ísland í lokakeppni EM, þegar Ísland vann Ítalíu, og 68. markaskorarinn. Þetta kom fram á handbolti.is – sjá hér: Andri Már er 85. EM leikmaður Íslands
- Nokkrir feðgar hafa leikið með landsliðinu í gegnum tíðina eins og margir vita, t.d. KA-maðurinn Arnór Atlason, sem nú er aðstoðar landsliðsþjálfari, og faðir hans Atli Hilmarsson. Fyrsta Evrópumótið fór ekki fram fyrr en 1994 þegar þeir Atli og Kristján Arason (faðir Gísla Þorgeirs Kristjánssonar) voru hættir að spila.
Viðtal við Andra Má á handbolta.is eftir fyrsta leikin: Þessum leik mun ég aldrei gleyma.
- Ísland mætir Póllandi á EM í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.00 og verður sýndur á RÚV eins og aðrir leikir.
Meira um Andra Má síðar í dag.
Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir
Hreyfing – þegar gæði skipta meira máli en magn
Þekking
Lausnin 7/7