Fara í efni
Pistlar

Að viðurkenna aldrei vanlíðan

Ég hef verið þunglyndur stærstan hluta ævi minnar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, þannig er það með mjög marga. Sem sönnu hörkutóli sæmir þá hef ég tekist á við þetta með því að harka af mér og viðurkenna aldrei vanlíðan. Það hefur tekist alveg ljómandi vel eins og nokkur misheppnuð hjónabönd staðfesta.

Vandinn er sá að þessi fína aðferð hefur gert það að verkum að ég er nánast við suðumark alla daga, þarf oft lítið til að sjóði upp úr og að sofa óslitið heila nótt þekki ég ekki. En það er þó allt í lagi því að svefn er hvort sem er aðallega fyrir aumingja og ég hef alltaf haft fulla stjórn á skapmunum mínum, það geta allir sem þekkja mig vitnað um og ekki orð um það meir.

Það komu þó dálitlir brestir í þessa sjálfsmynd mína þegar synir mínir voru ungir. Ég stóð mig að því ítrekað að segja alltaf nei í hvert skipti sem þeir báðu um eitthvað, jafnvel þó að það hefði oft verið í góðu lagi að segja já. Ég var því orðinn neikvæður og leiðinlegur faðir. Það áttu synir mínir ekki skilið. Svo ég tók mér tak og ákvað að svara alltaf já þegar þeir báðu um eitthvað. Til að byrja með fannst þeim þetta fínt en svo fór að þeim þótti ég vera orðinn eitthvað ruglaður og þeir yrðu að hafa vit fyrir mér. Eftir það báðu þeir ekki oft um eitthvað.

Ég bætti svo tveimur fósturdætrum í safnið. Þær lærðu fljótt að ég svaraði alltaf já. Ekki misnotuðu þær sér þetta frekar en synir mínir. Það treystu þó ekki allir mér í þessari nýfengnu jákvæðni. Fósturdóttir mín hafði fengið já við því að vinkona hennar mætti gista hjá okkur. Móðir vinkonunnar treysti ekki mínu jái og taldi vissara að hringja í Ingu mína til að fá það staðfest, sagði að það væri ekkert að marka mig, ég segði alltaf já.

Skildi þetta svo hafa hjálpað mér í baráttunni við þynglyndið? Já.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00