Fara í efni
Pistlar

Að þykja vænt um…

Í sumar hef ég verið að vinna nokkuð við leiðsögn, því miður eiginlega bara í dagsferðum um Reykjavík, jú og Gullna hringinn og Bláa Lónið, sem er reyndar aldeilis gott og blessað. En ég sakna þessara löngu hringferða sem mér hafa alltaf þótt mest heillandi. Hvað um það. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með margfalt yngra fólki og ég er og fólki á mínum aldri og allt þetta fólk hefur mér farið að þykja svolítið vænt um. Unga fólkið tekur manni eins og jafningja þó ég hafi kannski komið því undarlega fyrir sjónir í upphafi. Harðfullorðinn kall með hárstert, með áberandi húðflúr og hringa eins og einhver miðaldafígúra í teiknimyndasögu. En við aðeins nánari kynni líta þau fram hjá þessari sérvisku minni og á einhverjum tímapunkti falla kynslóðabilin eins og spilaborg. Fyrst og fremst þessu unga fólki að þakka. Það er allt í einu farið að fíflast aðeins í manni, flissa að einhverju sem okkur á ekki að þykja fyndið og tala saman á jafningjagrundvelli. Þessu kynntist ég líka þegar ég kenndi um hríð við Menntaskólann á Egilsstöðum, langflestir krakkarnir voru fyrr en varði farnir að spjalla við mann á jafningjagrundvelli. Sem einstöku manneskjum þótti auðvitað ekki tilhlýðilegt en það var aðallega fullorðið fólk. Fólkið sem er búið að byggja sína múra, er búið að gleyma því að það var einu sinni ungt og agnúast út í sömu hluti og fullorðið fólk hefur gert í þúsundir ára. Þetta með að unga fólkið eyðileggi tungumálið, fylgi ekki reglum og svo framvegis. Einum svona fullorðinshætti hjó ég eftir fyrir einhverju síðan, þegar ég sá að Jean-Paul Sartre, sá spaki maður að allra sögn, hafði skrifað lærða ritgerð um það hvað teiknimyndasögur kæmu til með að eyðileggja ungdóminn. Hans vegna þakka ég fyrir að hann kynntist ekki gemsunum þar sem netið er í einu litlu tæki með öllu sem þar er að finna. Stórhættulegt. Ég held reyndar stundum að þessi fordæming fullorðinna á háttarlagi unga fólksins lýsi aðeins ótta þessa fólks við breytingar, eftir að það fólk er búið að njörva sig niður á einhvern fastan punkt þaðan sem því verður ekki haggað, er komið með óumbreytanlegar skoðanir á hinu og þessu og telur sig hafa fundið endanlega lausn við spurningunni eilífu, „Hvað erum við að gera hér?“

Unga fólkið er sjaldnar með nema þá múra sem uppeldið hefur sett utan um það, en hefur enn hæfileikann til að fara út fyrir múrana eða jafnvel brjóta þá niður, fullorðnu fólki til mikillar hremmingar. Og ég hef eiginlega alltaf litið svo á að hlutverk ungs fólks sé einmitt þetta. Að spyrja spurninga á borð við „Hvers vegna? Til hvers? Af hverju ekki að gera þetta á annan hátt?“ og svo framvegis. Þetta unga fólk er ekki búið að hengja sig í „Þetta hefur alltaf verið gert svona!“ áráttuna.

Nú geri ég mér grein fyrir því að þetta hljómar svolítið eins og ég sé að rembast við að sýnast ungur í anda og mér er eiginlega bara slétt sama. Það má alveg einhver halda það ef honum líður betur með það. En það er með þessa væntumþykju sem ég var að tala um hér fyrir ofan. Þegar ég upplifi það að ungt fólk er ekki búið að setja sig í kassa eða bása og er enn að uppgötva heiminn, spyrja nýrra spurninga og talar við kalla eins og mig, þá get ég ekki annað en fundið fyrir væntumþykju gagnvart þessu fólki sem tekur við af okkur og gerir vonandi betur en fyrri kynslóðir í því að búa til betri heim. Kannski er ég væminn og óraunsær og þarf einhverja meðferð við svona vitleysu en það skiptir mig engu máli. Fólkið sem ögrar því sem er viðtekin, ein og algild skoðun um talsmáta, klæðaburð og venjur sýnir þann dug og þor sem til dæmis þurfti til þess að Íslendingar gátu merkilega friðsamlega lýst yfir sjálfstæði eftir aldalanga inngróna þrælslund gagnvart kóngum annarra landa. Sumir eru reyndar enn haldnir þessari þrælslund og kjósa alltaf yfir sig sama flokkinn, hversu oft sem sá flokkur svíkur það. Mér þykir vænt um það fólk, ungt eða eldra sem lætur ekki binda sig niður og tekur lífinu með opnum huga. Og það að þykja vænt um, hlýjar manni og vekur manni von um framtíð þessarar þjóðar og jarðarinnar.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00