Fara í efni
Pistlar

Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim?

Nú er loksins búið að kjósa í Bandaríkjunum. Eins og margir aðrir Íslendingar stóð ég sjálfan mig að því að fylgjast með þessum kosningum af meiri athygli en nokkru öðru fréttaefni. Atburðir í nærsamfélaginu og íslensk þjóðmálaumræða hurfu einhvern veginn algerlega í skuggann fyrir þessum stóru og dramatísku atburðum í Vesturheimi.

Að hluta til var þetta mitt val. Aðgengi að erlendum fréttamiðlum er svo auðvelt og við erum ekki eins háð íslenskum fjölmiðlum um erlendar fréttir og áður var. En svo voru íslensku fjölmiðlarnir líka ansi uppteknir af þessum kosningum og gerðu þeim góð skil. Kannski var valið því ekki svo mikið ef maður vildi á annað borð fylgjast með fréttum. Kosningaslagurinn, kosningarnar sjálfar og síðan æsispennandi og óralöng biðin eftir úrslitum, allt var þetta fyrirferðarmikið í fjölmiðlunum hvert sem litið var.

Hvernig stendur á þessum mikla áhuga okkar Íslendinga á kosningum í fjarlægu ríki? Kemur þetta okkur svona mikið við – og er áhuginn þar með réttlætanlegur? Eða erum við bara leiksoppar nútíma fjölmiðlunar sem notar stjórnmálin til að fanga athygli okkar og selja hana auglýsendum? Eða erum við kannski frekar leiksoppar lymskulegra stjórnmála sem nota þessa sömu miðla til að fanga athygli okkar og stýra henni þangað sem þeim hentar hverju sinni?

Auðvitað kemur þetta okkur við. Bandaríkin eru eitt helsta stórveldi heimsins og það snertir okkur eins og aðrar Evrópuþjóðir hvernig stjórnmálin þróast þar. Fjöldamenningin sem streymir frá Bandaríkjunum er líka óumflýjanleg. Hugmyndastraumar sem breiðast út um heiminn eiga oft upptök sín í Bandaríkjunum, við tökum afstöðu til þeirra og þeir verða hluti af okkar hugmyndaheimi. Þetta á til dæmis bæði við um Black Lives Matter og MeToo hreyfingarnar, en líka allar vinsælustu tónlistarstefnur síðasta mannsaldurinn að ógleymdri nýfrjálshyggjunni. Svona hefur þetta verið að minnsta kosti frá því í Kalda stríðinu og svona mun þetta verða áfram, hvað sem líður uppgangi Kína sem heimsveldis.

En á sama tíma hefðum við öll gott af því að íhuga hver það er sem stýrir athygli okkar – og hver hagnast á þeirri stýringu. Hve miklum tíma verjum við á degi hverjum í neyslu fjölmiðlaefnis? Veljum við neyslumynstrið að yfirlögðu ráði út frá því sem er okkur fyrir bestu? Eða látum við teyma okkur á asnaeyrunum hugsunarlaust? Ef þú horfir á eitt myndband á YouTube birtast fimm ný við hliðina, sem algóritminn telur líklegt að muni fanga athygli þína fyrst þú horfðir á það fyrsta. Ef þú freistast til að velja eitt þeirra endurnýjast valið og þú dregst dýpra ofan í kanínuholuna – meira og meira af því sama. Ef þú slærð einn bókstaf inn í leitarvél Google botnar hún hugsun þína samstundis. Hún giskar á hvað þú varst að hugsa en tekur hugsunina um leið frá þér.

Margir hafa haft á orði eftir úrslit kosninganna að það sé mikill léttir að þurfa ekki lengur að verja sjálfa sig og börnin sín fyrir villimannslegri orðræðu fráfarandi forseta. Við finnum fyrir létti, líkt og óveðri hafi slotað. Léttirinn er góður en hann er líka vísbending um þvílíkt afl fjölmiðlar eru í lífi okkar.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30