Hekla – Fyrsti íslenski kórinn utan í söngför

TÓNDÆMI – 35
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Karlakórinn Hekla, sem Magnús Einarsson organisti stofnaði á Akureyri um aldamótin 1900, var fyrsti íslenski kórinn sem hélt utan í söngför. Það var haustið 1905 að farið var til Noregs en um sumarið hafði Magnús siglt utan til þess að kanna aðstæður og undirbúa jarðveginn.
- Rétt er að geta þess að Hekla var ekki fyrsti íslenski kórinn sem söng á erlendri grund, en sá fyrsti sem fór utan í þeim tilgangi. Sigfús Einarsson hafði stofnað og æft íslenskan stúdentakór í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum. „Hann söng opinberlega nokkrum sinnum og hlaut frábærar viðtökur,“ segir í bókinni Magnús organisti: Baráttusaga alþýðumanns eftir Aðalgeir Kristjánsson sem kom út árið 2000.
Snorri Sigfússon, skólastjóri og námsstjóri frá Brekku í Svarfaðardal, var einn Heklunga – eins og kórfélagarnir voru nefndir – og sagði frá umræddri utanför í fyrsta bindi æviminninga sinna, sem hann nefndi Ferðin frá Brekku.
„Þennan vetur [1904-1905] söng Hekla oft opinberlega á Akureyri, og mun oftast hafa verið sungið í stóra salnum á Hótel Akureyri, en einnig alloft í salnum á Hótel Oddeyri. Voru þessar „konsertar“ Heklu jafnan vel sóttir og einstöku sinnum var dansað á eftir,“ segir Snorri í bókinni.
Karlmannasöngfélagið Hekla hélt marga tónleika – „samsöng“ – veturinn 1904 til 1905, væntanlega m.a. til þess að fjármagna Noregsferðina.
Þennan vetur [1904-1905] söng Hekla oft opinberlega á Akureyri, og mun oftast hafa verið sungið í stóra salnum á Hótel Akureyri, en einnig alloft í salnum á Hótel Oddeyri. Voru þessar „konsertar“ Heklu jafnan vel sóttir og einstöku sinnum var dansað á eftir,“ s
Hann tekur svo til orða að Akureyri hafi verið „syngjandi bær“ á þessum tíma. Snorri segir að í „öllum heimboðum og á samkomum urðum við Heklungar að syngja, hvort sem við vorum fáir eða margar saman. Mátti þá með sanni segja, að Akureyri væri syngjandi bær, því að auk Heklu var þar einnig söngfélag, sem Sigurgeir Jónsson frá Stóruvöllum stjórnaði, er síðar var lengi söngstjóri og organleikari á Akureyri, og var það blandaður kór, sem hann nefndi „Tíbrá“, og starfaði í nokkur ár. Og svo var þá á Akureyri einn hinna beztu söngmanna, sem Ísland hefur átt, sr. Geir Sæmundsson frá Hraungerði.“
Utan með leynd
Snorri segir að um vorið hafi verið ákveðið leynilega að „Hekla færi söngför til Noregs, ef söngstjóranum litist svo á,“ og Magnús því farið utan um sumarið til að kanna aðstæður, og fá úr því skorið hvort heimamenn væru tilbúnir að greiða götu þeirra.
Vegna ferðarinnar til Noregs bað Magnús um leyfi frá störfum og fékk, en greindi ekki frá ástæðum fararinnar. Hann hélt utan með Agli 18. maí og tók siglingin 11 daga.
Magnús Einarsson organisti og kórstjóri.
Magnús hafði meðferðis „umsagnir þekktra manna um sig sem stjórnanda og Heklunga, þar sem borið var lof á báða,“ að því er segir í frétt norska blaðsins Gula Tidend 2. júní. Þar kemur fram hver tilgangur ferðarinnar var, en ekki er vitað frá hverjum umsagnirnar voru. Talið er að Magnús hafi hitt Lars Søraas, þekktan söngkennara og organista, sem stjórnaði Samkór Hörðalands í ein 30 ár. Hvergi kemur reyndar afdráttarlaust fram hvern Magnús hitti, en sá lofaði að greiða götu hans og kórsins. Magnús hélt heim á ný frá Bergen 13. júní og kom skipið til Akureyrar 20. júní. Þess má geta að séra Matthías Jochumsson var í sömu ferð.
Æfingar Heklu hófust á Akureyri 15. september. „Á tilteknum tíma var ég kominn til Akureyrar. Þótti mér það vísu slæmt að þurfa að hverfa frá heyskapnum á Tjörn, sem ekki var að fullu lokið, en ég var staðráðinn í að bregðast ekki þessu merkilega uppátæki Magnúsar organista, að kynna íslenzkan kórsöng á erlendri grund fyrstur allra,“ segir Snorri Sigfússon.
„Komum við allir saman og var mikill hugur í liðinu. Flaug nú vitneskjan um förina eins og eldur í sinu um bæ og hérað, og þótti mörgum mikið í ráðizt og voru sumir undrandi yfir þessu tiltæki, sem líklega engum hefði áður dottið í hug eða vogað sér að framkvæma. Vantreystu sumir flokknum og töldu þetta flan eitt, sem gæti endað með smán. Var sagt að sumir viltu láta ráðherrann banna förina!“ skrifar Snorri.
„En aðrir litu öðruvísi á málið. Þeir þóttust vissir um að Hekla mundi standa sig, ef við tækjum þjálfunina nógu alvarlega. Og það vissu menn raunar að Magnús söngstjóri mundi vita og skilja, enda sat hann fastur við sinn keip og lét engan telja úr sér kjarkinn. Og víst mun svo hafa verið, að sá maðurinn sem að allra dómi hafði bezt skilyrði til að dæma um söng Heklu, sr. Geir Sæmundsson, þaulkunnugur söng kórins, hafi fremur hvatt en latt Magnús fararinnar.
En hvort sem var, varð nú engu um þokað, förin var ráðin hvað sem hver segði. Og nú var tekið til við æfingar af hinu mesta kappi. Voru raddæfingar flestar heima hjá Magnúsi, en samæfingar hér og þar sem húsrými og aðrar aðstæður leyfðu. Eitthvað gátu þeir unnið sem heima áttu á Akureyri. En við, sem vorum utan úr sveitum, eins og ég, Árni Jónsson frá Hjalteyri og bræðurnir frá Glæsibæ, Jón og Oddur, og Kristján Sigurðsson frá Dagverðareyri, gátum ekkert aðhafzt annað og urðum að kaupa húsnæði og fæði.“
Snorri segir spenning hafa verið mikinn í bænum vegna fararinnar. Síðustu dagana fyrir brottför hafi Hekla sungið oft opinberlega í bænum enda sífellt fleiri bæjarbúar farnir að trúa því að vera kynni að sönghópurinn yrði bænum til sóma.
ÞEIR SUNGU Í NOREGSFERÐINNI
- Heklungar sem sungu í Noregsferðinni voru 21 að tölu. Þeir eru á myndinni, sem tekin var í Noregi, ásamt stjórnandanum, Magnúsi organista.
Aftasta röð, talið frá vinstri: Benedikt Jónsson, 2. tenór, Magnús Helgason, 1. bassi, Jónas Þór, 2. bassi, Árni Jónsson frá Hjalteyri, 1. bassi, Magnús Einarsson, söngstjóri, Kristján Sigurðsson frá Dagverðareyri, 1. bassi, Ásgeir Ingimundarson, 2. bassi og Jón Þórarinsson, 2. tenór.
Miðröð: Páll Jónatansson, 2. bassi, Páll Ásgrímsson, 2. bassi, Jón Steingrímsson, 2. bassi, Pétur Jónasson, 1, bassi, Frímann Frímannsson, 1. bassi, Tryggvi Jónasson, 1. tenór, Snorri Snorrason, 1. tenór, Guðmundur Kristjánsson, 2. tenór og Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ, 2. bassi.
Sitjandi fremst, frá vinstri: Helgi Ísaksson, 2. tenór, Snorri Sigfússon frá Tjörn í Svarfaðardal, 1. tenór, Hallgrímur Kristjánsson, 1. tenór, Jón Kristjánsson frá Glæsibæ, 1. tenór og Þorsteinn Thorlacius, 2. tenór. Allir eru þeir Akureyringar, nema annað sé tekið fram. „Margir söngmannanna voru ungir að árum og nokkrir þeirra gagnfræðingar frá Möðruvöllum,“ segir í bók Ásgeirs Kristjánssonar um Magnús organista.
- Fjallað verður um sjálfa Noregsferð Heklu síðar