Fara í efni
Umræðan

Um heimkynni og eigendur menningar

Oft veltum við því fyrir okkur sem búum á landsbyggðinni hvar menningin eigi heima. Er lögheimili hennar á einhverjum ákveðnum stað? Og ef svo er, hvar og þá hvers vegna?

Menning er nokkuð margslungið hugtak en skv. orðabók er hún þroski mannlegra eiginleika, þjálfun mannsins og hugans, verkleg kunnátta, andlegt líf og sameiginlegur arfur kynslóðanna, menningararfur, menningarlíf, rótgróinn háttur eða siður. Þannig mætti halda áfram að telja. Venjulega teljum við til menningar listir eins og bókmenntir, tónlist og myndlist auk færni og útsjónarsemi í iðnum og íþróttum. Það er erfitt og langt að telja allt upp sem hér ætti að vera, látum þetta nægja að sinni. Að baki því sem hér hefur verið talið er í nær öllum tilfellum gríðarlega mikið nám og þjálfun. Enginn getur setti Íslandsmet í 100 metra hlaupi, orðið stórmeistari í skák, málað meistaralega mynd, hannað heimsfrægan stól eða samið ódauðlegt lag án þess að baki því liggi bæði kunnátta, ástríða og þjálfun, til viðbótar hinum innri neista. Ekkert verður til úr engu, en vissulega þarf að fara saman áhugi, eðli og ástundun.

Hvernig sem við lítum á þetta er einhvern veginn erfitt að staðsetja menninguna hér á landi, finna henni einhvern stað öðrum fremur – að minnsta kosti meðan fólk býr um allt land. Menning er jafnsjálfsögð á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. Meira að segja getur fólk í Reykjavík og Hafnarfirði ekki síður en fólk á Fáskrúðsfirði eða í Bolungarvík smíðað ægifagran gullhring, geirneglt skúffu í eldhúsinnréttingu, stokkið þrístökk, unnið hraðskákmót, málað ódauðlega mynd af Búlandstindi, samið sellókonsert, ort vísnagátur eða sungið óperuaríur. Maður þarf ekki að búa á neinum ákveðnum stað til að stunda menningarstarf. Menningin á ekki heima á neinum ákveðnum stað. Menningin á heima alls staðar þar sem fólk er.

Eitt á öll þessi menning sameiginlegt. Til þess að vaxa þarf hún að geta borist á milli manna. Ég gæti einn og út af fyrir mig sett hvert heimsmetið á fætur öðru í 100 metra hlaupi, án þess að nokkur vissi af því. Ég segði engum frá og enginn frétti af því fyrr en eftir minn dag. Þá kæmi í ljós að ég hefði skrifað þetta hjá mér í dagbók. Til eru listamenn sem hafa farið huldu höfði og búið til aragrúa merkilegra listaverka án þess nokkur annar vissi af því fyrr en að þeim látnum. Slík innilokun eða þöggun er ekki heppileg fyrir menninguna. Menningin og menningarverkin verða að komast á meðal mannanna. Menningin er fyrir fólkið, ekki bara einstaklinginn sem vinnur menningarlegt verk.

Menningarmiðlar eru margvíslegir og þeim fjölgar nú mjög á okkar tæknitímum. Langsamlega algengustu menningarmiðlarnir eru útvörp og sjónvörp, blöð og tímarit og ýmiss konar samskiptamiðlar. Hefðbundnari eru leikhús, óperur, tónleikasalir, íþróttahús af ólíku tagi, listasöfn, minjasöfn, skólar og opinberar stofnanir þar sem höfð eru listaverk og þar gefast tækifæri til að sýna öðrum og samgleðjast yfir vel unnum verkum. Man einhver eftir sjónvarpsviðtali innanhúss þar sem ekki er málverk í baksýn?

Ríki og Reykjavík

Árið 1930 var stofnað Ríkisútvarp og hafði frá upphafi þann tilgang að miðla fréttum og menningarlegu efni í tali og tónum til landsmanna. Upphaflega var bara ein útvarpsrás, sú sem nú er kölluð Rás 1, en 1983 var hleypt af stokkum Rás 2, sem átti að höfða meira til yngri hlustenda en gamla rásin, sem stundum var/er kölluð Gufan. Um svipað leyti hófust útsendingar á Bylgjunni, sem var frjálst, óháð og einkarekið útvarp. Frjálst, af því að það var ekki bundið sömu reglum um að sinna íslenskri menningu og listum og skýrt var skrifað í hlutverk Ríkisútvarpsins, en jafnframt var það rekið af áskrift en ekki skattgjöldum, eins og Ríkisútvarpið. Fleiri einkastöðvar fylgdu í kjölfarið með óbundnar hendur og engar menningarlegar skyldur. Ríkisútvarpið hóf svo sjónvarpssendingar 1966 og þær náðu orðið um mestallt land um og upp úr 1968. Síðan komu einkastöðvar eins og Stöð 2 og Sýn og fleiri, og sama upp á teningnum, ríkið með menningarlegar skyldur en einkastöðvarnar frjálsar, eins og kallað er.

Það er eðli útvarps og sjónvarps að vera einstefnumiðlar, á stöðvunum er efni valið, matreitt og sent út á öldur ljósvakans og þeir sem vilja geta hlýtt á og horft og notið þess, stundum þarf þó að greiða fyrir það, ef um einkareknar stöðvar er að ræða. En efnið berst frá flytjanda til notanda. Tölvutækni og samfélagsmiðlar hafa sumir hverjir opnað á möguleika á tvístefnumiðlun, allt er að breytast í heimi hér. En í grundvallaratriðum er reglan sú að þeir sem starfa á þessum stöðvum og stýra þeim velja efni til birtingar. Það liggur því í augum uppi að vel þarf að vanda til valsins og til þess þarf fólk með þekkingu og reynslu og umfram allt víðsýni og skilning á hlutverki miðilsins, að vera fyrir fólkið, að tala við áheyrandann og áhorfandann og miðla til hans efninu. Það gagnlegasta sem Jónas Jónasson kenndi nemendum sínum um útvarp fólst í orðunum að útvarpsmenn ættu ekki að tala saman eða tala um sjálfa sig, heldur ættu þeir að tala við hlustandann. Mætti sá boðskapur vera rifjaður upp fyrir dagskrárgerðarfólki okkar tíma.

Nú vill svo til að stærstu menningarstofnanir þjóðarinnar, eins og það er kallað, hafa aðsetur í Reykjavík. Ríkisútvarpið heilsar með orðunum Útvarp Reykjavík, og það er merkilega rétt. Ríkisútvarpið snýst aðallega um Reykjavík og nágrenni. Gerðar voru tilraunir með landshlutaútvarp og fóru vel af stað, en voru slegnar af áður en þær fengu að festast í sessi. Fóru að skyggja á gamla Reykjavíkurútvarpið og hirtu af því rekstrarfé. Gamaldags fréttaritarakerfi var tekið upp á ný. Og mat fréttastofunnar syðra réð því hvort birtar voru fréttir eða önnur tíðindi að norðan, vestan eða austan. Ríkisútvarpið hélt áfram að vera Útvarp Reykjavík. Önnur stofnun er Þjóðleikhúsið, leikhús þjóðarinnar. Það er reyndar bara annað tveggja stóru Reykjavíkurleikhúsanna. Einstöku sinnum – sjaldan – er farið út á land og þá oftast með einfaldar sýningar. Sinfóníuhljómsveit Íslands mætti líka heita Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur. Þar var endrum og sinnum farið með hluta hljómsveitarinnar út á land til að spila þægilega og kunnuglega slagara sem taldir voru henta landsbyggðarfólkinu. Sumir kölluðu það lyftutónlist. Að vísu varð sú breyting í Covid að tekið var að senda einstöku alvöru tónleika í beinum sendingum Sjónvarpsins, og nýverið var haldið áfram á þeirri braut. Það er frábært – og vonandi að á því verði framhald. Beinar útsendingar á leiklist og tónlist eru eitthvað sem getur talist menning handa þjóðinni, þegar fólk getur notið þess heima hjá sér en þarf ekki að fara um langan veg til að njóta.

Hvar á landi?

Margt af því sem segir í þessari grein er jafnan kallað í syðri byggðum dreifbýlistuð eða landsbyggðarkjaftæði. Það er nauðvörn.

Nú vill svo til að Ísland er nokkuð margskipt. Fjölbýlast er á suðvesturhorninu og þar eru fjölmargir kaupstaðir og þorp og þar er mikið og margvíslegt menningarstarf og íþróttir meiri en annars staðar. Svona er það þegar fjöldinn er mikill og hann verður ráðandi. Ef við lítum bara á íþróttirnar þá er nokkuð ljóst að ekkert jafnræði er með því íþróttafólki sem býr í þéttbýlinu og hinu sem býr í dreifbýlinu. Segjum svo að fórboltalið stúlkna á Ísafirði sé í deild með 7 öðrum fótboltafélögum, öllum á höfuðborgarsvæðinu, þá þurfa Ísafjarðastúlkurnar að fara 7 sinnum til höfuðborgarsvæðisins til að keppa. Höfuðborgarliðin þurfa hvert um sig að fara eina ferð vestur. Hver sem vill getur séð að fjárhagslega getur þetta ekki gengið upp. Félögin á landsbyggðinni hafa jafnan minni styrki frá góðviljuðum fyrirtækjum og færri styrkjendur en félögin syðra og aðsókn að leikjum er eðlilega miklu meiri í fjölmenninu en í fámennri byggð. Ferðakostnaður er að sliga keppendurna og tekur tíma frá æfingum. Og stelpur fá miklu lægri styrki en strákar í sömu stöðu og búa við verri aðstæður en þeir, og þurfa jafnvel að selja meiri lakkrís, rækjur og klósettpappír til að halda starfinu gangandi. Hér er ekkert jafnrétti.

Það er dálítið merkilegt hversu miklu lengra og erfiðara og dýrara er álitið vera fyrir fólk að fara úr höfuðborginni út á land en að fara utan af landi og suður. Eins og sé til tvenns konar málbönd, landsbyggðarmálbandið og dreifbýlisreglustikan. Og forstöðumenn höfuðborgarhópnanna sem óskapast yfir kostnaðinum að fara út á land hafa trúlega ekki skoðað ársreikninga landsbyggðarliðanna sem síendurtekið þurfa að fara suður.

Vinsældir

Nú er það svo, eins og hér hefur komið fram, að listamönnum er nauðsynlegt að láta sjá til sín og heyra. Það er vissulega hægt að gera með ýmsu móti. Við skulum til að einfalda málið halda okkur við tónlist hér um sinn. Tónskáld semur tónverk, flytur það sjálfur og/eða fær aðra til þess. Þetta er útsett og æft og tekið upp og pússað á alla kanta til að það hljómi sem best. Hvað svo? Það er hægt að halda tónleika fyrir einhverja áheyrendur, fleiri þar sem fjölmennið er. En hver fer á tónleika með listamanni sem enginn veit hver er? Hann þarf einhvern veginn að kynna sig, láta til sín heyra, afla sér áheyrenda - og þar með vinsælda, ef áheyrendunum líkar það sem hann hefur fram að færa.

Útvörp og sjónvörp hafa löngum þjónað því hlutverki að kynna menningarleg verk, hvort sem um er að ræða háalvarlega puntuklassík á borð við óperur, sónötur og sinfóníur eða alþýðlegri verk eins og danstónlist, djass og popp af ýmsu tagi. En það getur reynst þrautin þyngri að fá að koma slíkum verkum að til kynningar í útvörpunum. Jafnvel þótt óperusöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir skeiðaði vítt og breitt um Evrópu austanverða við undraverðar undirtektir var nánast aldrei haft um það orð í íslensku útvarpi, og þegar hundruð manna, stórhljómsveit og risakór, frumfluttu sinfónískt verk Gunnars Þórðarsonar um Guðbrand biskup í Berlín var ekki andað um það í íslensku útvarpi. Ekki það að ekki hafi verið reynt að fá frá því sagt. Víkingur Heiðar er trúlega lánsamasti íslenski klassíkerinn sem hefur náð að koma stöku sinnum fyrir í íslensku útvörpunum og sjónvörpunum án þess að hreppa Óskarsverðlaun eða slíkt. Mættu þeir vera miklu fleiri listamennirnir sem kynna land og þjóð erlendis sem getið væri rækilega um í íslenskum fjölmiðlum.

Einhver ræður þessu. Einhver stjórnar þessu. En því miður verður að segja að menningarleg ritstjórn útvarps og sjónvarps er nánast engin. Og það er alvarlegt mál.

Dægurmenningin

Ef við lítum á dægurlagaheiminn er málið talsvert merkilegt. Það má í sjálfu sér segja að það sé undarlegt að Ríkisútvarpið skuli halda úti Rás 2 í einhvers konar samkeppni við aðrar tónlistarstöðvar. Ef rétt væri ætti Rás 2 að kynna annars konar íslenska menningu en Rás 1 var og kannski er ætlað að gera. Rás 2 hlýtur að vera undir sama hatt sett hvað varðar virðingu við íslenskt mál og menningu og Ríkisútvarpið sjálft er. Annað væri óeðlilegt. Hún á ekki að vera síbyljustöð.

Fyrir fáum vikum bar svo við að birtust í blöðum greinar eftir tvo tónlistarmenn, sem sögðu farir sínar afar ósléttar í sambandi við Ríkisútvarpið, þegar kæmi að því að fá tækifæri til að kynna og leika efni. Það var mat þeirra beggja að þar kæmust alls ekki allir að og einungis sumir gætu átt kost á því að vera þar eins konar fastagestir. Landsþekktur tónlistarmaður, Ólafur Þórarinsson, kunnastur fyrir Mána, nefnir í sinni grein að þó að Ríkisútvarpið segi helming tónlistar sem leikin sé íslensk séu þetta nánast sömu lögin frá sama fólkinu síendurtekin daginn út og inn. Það sé vanvirðing við íslenskt tónlistarfólk að fáir starfsmenn ráði tónlistarvalinu án þess að þeir geti sýnt fram á færni eða kunnáttu til þess. Slíkt geti kippt fótum undan vel menntuðu fólki sem komi að sköpun og útgáfu tónlistar. Leó R. Ólason frá Siglufirði, reyndar búsettur í Reykjavík, segir í sinni grein meðal annars frá því að honum og hljómsveit hans hafi tekist eitt sinn vegna kunningsskapar við starfsmann útvarpsins að koma að lagi og fá það leikið nokkuð af svokölluðum lagalista. Þegar þeir hafi svo ætlað að koma meira efni á framfæri var vinurinn hættur og því allar leiðir lokaðar. Einhverjir útvarpsmenn munu hafa brugðist heldur ókvæða við þessum greinum. Dreifbýlistuðið, sem ég nefndi hér áður.

Hér erum við komin að spurningunni: Hver skapar vinsældir? Hver er það sem ræður því hvað verður vinsælt í útvarpi? Hlýtur það ekki að verða að ráðast af þekkingu, víðsýni og hlutleysi? Er það eðlilegt hjá tónelskri þjóð eins og Íslendingar eru og rómað er vítt um heiminn og sést á hátíðum eins og Iceland Airwaves og víðar að í Ríkisútvarpinu sé engu líkara en að á Íslandi séu örfáir tugir tónlistarmanna og valin séu lög af plötum þeirra eða öðrum útgáfum og spiluð helst á klukkutíma fresti í eina, tvær eða þrjár vikur og ef einhverjir af þessum sárafáu listamönnum sem eru fastagestir á lagalistunum leyfi sér að anda sé það gripið á lofti og spilað í drep, á meðan þessir lagalistar eru harðlæstir fyrir öðrum, sem ekki eiga réttan kunningsskap eða geta staðið og nagað þröskuldinn hjá útvarpinu dag sem nótt? Nei. Það er ekki eðlilegt. Vinsældalistarnir eru miklu frekar óskalistar útvarpsfólksins en vinsældalistar áheyrendanna.

Ég hef notið þess að fylgjast með ungu skapandi tónlistarfólki á Akureyri undanfarin ár og gert allmargar tilraunir, ásamt fleirum, til að koma einhverjum lögum þeirra til spilunar í útvarpi. Þetta eru allt menntaðir tónlistarmenn sem hafa gefið út plötur og sent fullfrágengnar upptökur viðurkenndra upptökumanna til Ríkisútvarpsins, sem lengi skýldi sér með því að vilja ekki spila tónlist af streymisveitum, þetta yrði að vera original. Ég man eftir einu lagi sem komst á þriðja lagalista og heyrðist í örfá skipti. En dyrnar eru lokaðar.

Ekki sáu Reykjavíkurfjölmiðlarnir ástæðu til að gera svo sem neitt úr því þegar Birkir Blær fór sigurgöngu um sænska Idolið í vetur og vann að lokum, eða velgengni Natans Dags í Voice í Noregi nokkru áður. Þeir voru hvorugur búandi eða starfandi á höfuðborgarsvæðinu, ekki frekar en hinir Norðlendingarnir sem ég var með í huga, Stefán Elí, sem hefur gefið út þrjár plötur, Ivan Mendez, sem hefur gefið út þrjár, Flammeus, sem hefur gefið út eina og Einar Óli sem einnig hefur gefið út eina, rétt eins og Birkir Blær, og þeir höfðu heldur enga beina tengingu inn í þann fámenna hóp, ef hópur er, sem ræður tónlistarvalinu. Sem skapar vinsældir sumra en útilokar aðra. Og hér dugar ekki að segja að einhver landsbyggðarmúsík sé ekki jafngóð og það sem skapað er í grennd við Elliðaárnar. Þessum listamönnum hafa verið gerð skil í heimamiðlum, en þeir eru því miður ekki á landsvísu.

Stóru fjölmiðlarnir fyrir sunnan voru líka gersamlega áhugalausir og sáu ekki ástæðu til að segja frá því þegar á annað hundrað manna í þremur kórum ásamt hljóðfæraleikurum og einsöngvurum fluttu glæsilega og vel heppnaða tónleikadagskrá til styrktar flóttafólki frá Úkraínu í Akureyrarkirkju. Var þó vissulega fyrir því haft að vekja áhuga þeirra á þessu. Dreifbýlis-eitthvað er þeim ekki að skapi.

Það verður að leiðrétta vitleysurnar

Við sem búum á landsbyggðinni stöndum enn frammi fyrir því að vera lægra skrifaðir þegnar en hinir sem búa í og við Reykjavík. Menningarstarf á landsbyggðinni fær miklu minni fjárveitingar en sambærilegt starf á höfuðborgarsvæðinu. Framlag til atvinnuleikhúss á Akureyri, framlag til Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, framlag til listasafna og svo framvegis og svo framvegis, allt er þetta í skötulíki í samanburði við það sem veitt er til sambæilegrar menningar syðra. Og þetta er hvorki eðlilegt né sjálfsagt. Misskiptingin er allsráðandi, ekki bara í íþróttunum, sem ég nefndi hérna fyrr, heldur í gjörvallri menningunni. Þetta verða þeir sem ráða yfir Alþingi og ríkisfjármunum að taka til alvarlegrar athugunar og leiðréttingar, en ríkisstofnanirnar, sem líka hafa verið nefndar hér, verða að standa undir því að vera stofnanir ríkisins – þ.e.a.s. allra landsmanna, en ekki bara tiltekins hluta þeirra. Og fagmennska, þekking og hlutleysi verður að ráða þegar um er að ræða menningu, hvort sem hún er tónlist, myndlist, skák, leiklist, frjálsar íþróttir, handbolti, smíðar eða hvað sem heiti hefur og telst menning.

Og menningin á heima á öllu landinu!

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50

Með fjöreggið í höndunum

Hlín Bolladóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 16:15

Kostnaður ofbeldis

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 14:45