Fara í efni
Menning

Þú veist hvernig hún endar, hún endar vel

AF BÓKUM – 38

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Eydís Stefanía Kristjánsdóttir_ _ _

Litla leynivíkin í Króatíu
 
Ég er agalega veik fyrir rómantískum bókum eða skvísubókum eins og einhverjir myndu kalla þær. Þær eiga það flestar sameiginlegt að vera auðlesnar, fjalla um mann og konu sem verða ástfangin og þú getur séð hvernig bókin endar næstum því áður en þú byrjar að lesa hana.
 
Ég las nýlega bókina Litla leynivíkin í Króatíu eftir Julie Caplin sem fellur sannarlega undir þennan flokk. Þessi bók er sú fimmta í röðinni í seríunni. Það sem er ólíkt með þessum bókum Julie og öðrum skvísu bókum sem ég les (eins og bækurnar eftir Jenny Colgan og Söruh Morgan) er að í hverri bók er nýtt sögusvið, nýtt land þar sem ævintýrin gerast og eftir lesturinn þá langar mann að heimsækja þessa staði.
 
Í þessari bók siglir hópur vina um á snekkju við strendur Króatíu og heimsækir bæi og eyjur í grennd. Maddie er ráðin í sumarvinnu um borð í snekkjuna og á að þjóna ríka fólkinu um borð. Hún er mjög jarðbundin og á ekki mikla samleið með fólkinu um borð. En í hópnum er maður sem hún kannast við, sem virðist í fyrstu sjálfumglaður og snobbaður en annað kemur í ljós þegar hún kynnist honum betur.
 
Landinu, bæjunum og eyjunum er líst á svo dásamlegan hátt að mann langar bara að hoppa upp í flugvél og fljúga til Hvar í Króatíu. Í fyrri bókunum sem komið hafa út á íslensku er sögusviðið lítið kaffihús í Kaupmannahöfn, bakarí í Brooklyn og kökuhús í París. Í þeim bókum fær maður sömu upplifun við lesturinn, mannilangar að heimsækja þessa staði. Ég allavega lifi mig inn í bækurnar þegar ég les þær og get vel ímyndað mér að vera með í sögunni.
 
Þegar þú ert þreytt mamma, eða pabbi, með öll börnin heima í sumarfríi og þig langar ekkert frekar en að setjast niður með góða bók og fá að lesa í friði þá eru skvísubækur algjörlega málið. Þú þarft ekkert að sökkva þér of djúpt í þær og það er allt í lagi þó að þú sért trufluð í annarri hverri setningu, þú veist hvernig bókin endar, hún endar vel.