Fara í efni
Menning

Bráðskemmtileg saga en alvarleg á sinn hátt

AF BÓKUM – 59

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Það vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _

Ferðabíó herra Saitos eftir Annette Bjergfeldt

Annette Bjergfeldt er dönsk tónlistarkona sem meðal annars hefur verið tilnefnd til Grammyverðlaunanna fyrir tónlist sína. Henni er þó fleira til lista lagt og hún hefur, eftir því sem ég best veit skrifað barnabækur um stúlkuna Børste og fjölskyldusögu sína „Højsangen fra Palermovej“. Hér verður ekki fjallað um þær, enda hef ég ekki lesið þær en ég kolféll fyrir bók hennar um „Ferðbíó herra Saitos“ sem kom út í sumar í frábærri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Það er reyndar kapítuli útaf fyrir sig hvað hann Jón er snjall þýðandi og hversu læsilegar þýðingar hans eru.
 

Á bókarkápu segir að í bókinni votti bæði fyrir John Irving og Isabel Allende. Það er mikið til í því þar sem sagan hefst í Buenos Aires og Suður-ameríska töfraraunsæið er sannarlega til staðar. Höfuðpersónan Lita eða Carmelita er getin á dansgólfi í Buenos Aires árið 1927 og móðir hennar er einungis 17 ára gömul.

Bæði móðir og dóttir eiga athvarf og aðhald í nunnuklaustri í borginni, þó svo að aðhaldið hafi lítil áhrif á Fabiolu, móður Litu. Hér eru komin innihaldsefni í uppskrift að sögu um samband móður og dóttur og sannarlega er það ein af sögunum sem sagðar eru. Fabiola hefur einhverja náðargáfu þegar kemur að skóm og finnur hverjum fæti skó við hæfi og skórnir verða í sögunni einskonar leiðarvísir að skaplyndi og karakter ýmissa persóna. Fabiola er þeirrar skoðunar að fætur séu til að dansa og skórnir eigi að vera við hæfi og tangóinn þessi tilfinningaþrungni dans „snertu mig, snertu mig ekki“ er líka notaður til að segja okkur hvernig fólki líður og dýpka myndirnar og skerpa litina.

En ef Buenos Aires var paradís, allavega fyrir Fabiolu þá voru þær mæðgur ekki lengi í henni fremur en Adam, þar sem þær neyðast til að flýja í ofboði frá Argentínu og eru allt í einu lentar á afskekktri eyju undan ströndum Kanada.

Og þá kemur til líkindanna með sagnagáfu Johns Irving að segja sögu alls þess undarlega og dásamlega fólks sem býr á Efri Lundey í Nova Scotia. Lundey sem er spegilmynd af heiminum, hluti fyrir heild.

Þær mæðgur setjast að í sjómannahótelinu Betlehem þar sem allt litrófið af fólki á sér athvarf og skjól. Þar eignast Lita vinkonuna Oonu sem er heyrnarlaus og þær stallsystur segja sögu um æskuvináttu sem og þroskasögu tveggja ungra stúlkna.

Persónugalleríið á Efri Lundey er sem áður sagði bæði litríkt og fjölbreytt. Dýralæknirinn sem læknar mannfólkið ekkert síður en dýrin, foreldrar Oonu, húsfreyjan í Betlehem sem er ein af þessum konum þar sem hjartarúm og húsrúm er hvorttveggja ómælt og maður hennar sem ætlaði yfirgefa Winnipeg til að skoða heiminn og hafið en rekur á land í orðsins fyllstu merkingu á þessari afskekktu eyju. Hér eru einungis örfáir nefndir af öllu því áhugaverða fólki sem byggir heiminn sem Annette Bjergfeldt skapar í þessari bráðskemmtilegu sögu sem er þó svo alvarleg á sinn hátt.

Ekki er rétt að halda neitt áfram að rekja söguþráðinn eða segja frá persónum. Það er best að hver geri fyrir sig. Ég hafði allavega gaman af því að fá að kynnast öllu því fólki sem Annette Bjergfeldt bregður upp eins og myndirnar í ferðabíói Herra Saitos brugðu upp fréttum af heiminum fyrir fólkið á Efri Lundey.