Fara í efni
Menning

„Hár er forréttindi“

AF BÓKUM – 63

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Það vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _

Einn flokkur Óskarsverðlaunanna vinsælu og umdeildu heitir „besta handritið byggt á áður útgefnu efni.“ Það skal strax tekið fram að kvikmyndin The Housemaid (2025) var ekki tilnefnd til neinna Óskarsverðlauna! Hins vegar er hún byggð á umfjöllunarefni mínu að þessu sinni.

Höfundurinn Freida McFadden skrifaði bókina The Housemaid og gaf út árið 2022. Sama ár kom hún út í mjög góðri íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal - Undir yfirborðinu. Ég skil titilinn og þetta er mjög algengt í þýðingum. En hefði Vinnukonan verið slæmur möguleiki? (Bara til fróðleiks, þá kom út bók árið 2020 um norska laxeldisævintýrið sem var kölluð Undir yfirborðinu og árið 2018 skrifaði Tanja Rasmussen bók um „Lenu sem er laus úr ofbeldissambandi, en aðeins að nafninu til“ og hét hún Undir yfirborðinu.)

Hverju sem því líður þá er sjálf bók Freidu McFadden mjög skemmtilega skrifuð. Stíllinn heillar mig og þessi þrískipting virkar vel. Bókin er skrifuð í fyrstu persónu: Fyrsti hlutinn er sagður út frá sjónarhorni Millie Calloway, en hún er ung kona með vafasama fortíð sem er ráðin sem húshjálp á heimili Winchester-hjónanna. Annar hlutinn er sagður frá sjónarhóli Ninu Winchester og það er rosalega sterkur leikur hjá Freidu McFadden. Nina, ja ... við getum alveg viðurkennt það að hún á við „ýmisleg vandamál“ að stríða. Við kynnumst því betur síðar í sögunni og ég fagna þessum viðsnúningi á söguþræðinum. Kom mér verulega á óvart. Þriðji hlutinn skiptir frásögninni á milli þeirra tveggja og það virkar mjög vel.

Millie lýsir Ninu sem óstöðugri, kröfuharðri og andlega veikri konu. Viðsnúningurinn verður algjör þegar Nina lýsir sínu lífi og allt í einu stendur maður sig sem lesandi að því að segja: „Aaah!! Djöfulli sniðugt! Ég sá þetta ekki fyrir.“ Og mig langar í þriðja hlutanum að hjálpa þeim báðum. Hvernig? Ég veit ekki hvernig ég get orðað það án þess að eyðileggja fyrir lestrinum. En er draumaprinsinn Andrew Winchester allur þar sem hann er séður? Hann er alla vega mjög vel skrifaður og ég sé Winchester fjölskylduna svo lifandi fyrir mér. Við skulum bara orða það þannig að ég er feginn að hafa ekki verið alinn upp af Evelyn Winchester!

Titill þessarar umfjöllunar er dálítið skrítinn enda valdi ég hann sérstaklega sem sköllóttur bókasafnsfræðingur, sem sinnir leiðsögn á sumrin og skrifa sjálfur bækur sem enginn les. Sumt er valið eingöngu til þess að vekja athygli, en í þessari bók, Undir yfirborðinu, þá lærir maður það að hár er forréttindi, það að hafa ljós eru forréttindi og tennurnar ... að hafa þær eru forréttindi. Eins mikið og mér blöskraði ýmislegt í lýsingum Millie og Ninu, þá verð ég að viðurkenna að setning sem Evelyn Winchester segir á bls. 331 í þessari þýðingu situr hvað mest í mér (línur 6-7). Þú verður bara að lesa bókina til að skilja mig!

Freida McFadden starfar sem læknir sem hefur sérhæft sig í sjúklingum með heilaskaða. Sú reynsla hennar kemur að góðum notum í Undir yfirborðinu. Framhaldið sem á ensku heitir einfaldlega The housemaid's secret er af „augljósum“ ástæðum kallað Það sem þernan sér upp á íslensku. Með það í huga hefði Undir yfirborðinu alveg mátt vera kölluð Þernan ... sem hefði líklegast valdið misskilningi við samnefnda bók sem kom út árið 2022 í íslenskri þýðingu og var eftir Nita Prose.

En fyrst ég minntist á kvikmyndina í byrjun umfjöllunarinnar, þá er algengt að sumt sem virkar á prenti virkar ekki eins vel á hvíta tjaldinu. Ein persónan úr bókinni fær því miður ekki úr miklu að moða í myndinni en yfir heildina þá fannst mér það ekki úrslitaatriði. Ég hefði alveg verið til í að sjá ákveðnar þrjár bækur notaðar í kvikmyndinni, lýsingin á notkun þeirra í bókinni er mögnuð, en það var gert öðruvísi. Persóna A sagði eitthvað í myndinni sem persóna B sagði í bókinni ... og fleiri smáatriði.

Hins vegar er ein persóna í bókinni sem heitir Patrice og ég ætla að enda umfjöllunina á setningu sem hún segir á bls. 97: „Ef ég væri Nina væri það síðasta sem ég myndi gera að ráða unga og fallega þjónustustúlku til að búa heima hjá mér.“

Hvað skyldi Nina hafa verið að hugsa?

Og ætli Þjónustustúlkan hafi einhvern tíma verið hugsuð sem mögulegur titill á þessa bók?