Fara í efni
Menning

Spennandi Syndafall Yrsu Sigurðardóttur

AF BÓKUM – 61

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Það vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Eydís Stefanía Kristjánsdóttir_ _ _

Bækurnar hennar Yrsu eru alltaf góðar. Í þessari bók lesum við um þrjár ólíkar persónur sem í fyrstu virðast ekki tengjast á neinn hátt.

Tinna er heyrnaskert, missti heyrnina ung eftir að hún fékk heilahimnubólgu en er nú komin með dálitla heyrn eftir ígræðslu. Hún vinnur sem teiknari en tekur stundum að sér að verðmeta dánarbú. Hún er fengin til þess að verðmeta dánarbú manns sem er horfinn og virðist hafa verið mjög efnaður. Tinna byrjar að heyra allskonar skrítin hljóð sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hljóðin virðast vera úr fortíðinni. Til þess að losna við hljóðin þarf hún að grafa í fortíðinni og kemst að ljótu leyndarmáli.
 
Steinn er rithöfundur sem hefur ekki gefið út bók lengi. Eftir að konan hans lendir í kulnun og hættir að vinna þarf hann að sanna sig og ná inn tekjum. Hann fær hugmynd að bók þegar hann heyrir sögur af gamalli frænku sinni sem býr fyrir norðan. Hann dregur því alla fjölskylduna í ferðalag norður til þess að ná tali af þessari frænku sinni og syni hennar. Ýmislegt óskiljanlegt á sér stað í Airbnb húsinu sem fjölskyldan leigir og kemur í ljós að þessi dularfulli frændi Steins á húsið. Hvað leynist í skemmunni við húsið? Eitthvað sem krummarnir eru að gæða sér á.
 
Lena er einstæð móðir sem varð fyrir hrottalegri nauðgun þegar hún var unglingur. Þegar hún sækir dóttur sína í partý eitt kvöldið rekst hún á nauðgara sinn og í einhverju brjálæði keyrir hún hann niður. Hann stendur ekki upp, hún hefur drepið hann og flýr af vettvangi. Hvað verður um dóttur hennar ef hún verður dæmt í fangelsi fyrir morð?
 
Atburðirnir og persónurnar fléttast síðan skemmtilega saman í lokin. Til dæmis þekkir Tinna nauðgara Lenu, horfni maðurinn tengist frænda Steins, kona Steins hefur hitt Lenu áður og tengist manninum sem Lena keyrði á. Það er svo skemmtilegt þegar það koma svona óvæntar fléttur í lokin, eitthvað sem maður bjóst alls ekki við.
 
Spennandi bók sem erfitt er að leggja frá sér.