Fara í efni
Menning

Dularfull perla sem skilur eftir sig söknuð

AF BÓKUM – 62

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Það vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _

Á nokkurra ára fresti les ég bók sem er svo góð að hún gerir mig fráhverfan lestri í langan tíma eftir á því ég veit að sama hvaða bók verður fyrir valinu mun hún verða léleg í samanburði. Piranesi eftir Susönnu Clarke er ein þessara góðu bóka. Þetta er bók sem maður hverfur ofan í og vill helst ekki koma upp úr aftur. Ég passa að ræða hana hér af varkárni til þess að koma ekki of mikið upp um söguþráðinn, því uppgötvunin er hluti af töfrunum.

Sögusviðið er algjörlega einstakt og leikur í raun eitt af aðalhlutverkunum: Húsið. Húsið er heill heimur út af fyrir sig. Það virðist vera óendanlegar raðir sala, þar sem styttur standa í röðum með öllum veggjum. Sjávarfalla gætir á neðri hæðunum og skýin svífa um þær efri. Það sem heillaði mig einna mest var þetta dáleiðandi umhverfi. Maður finnur nánast sjávarilminn og heyrir ölduniðinn.

Við kynnumst þessum heimi í gegnum dagbókarfærslur Piranesi. Hann er einlægur, forvitinn og býr yfir ótrúlegu sakleysi, nánast barnalegri „naívitet”, sem gerir frásögnina afar heillandi. Hann elskar Húsið og þjónar því af alúð og auðmýkt. Lýsingarnar á honum, þar sem hann skreytir hár sitt með fiskbeinum og öðru drasli sem sjórinn skolar upp, eru óborganlegar, og gefa honum villta en samt tignarlega ásýnd sem undirstrikar hversu samgróinn hann er þessum stað. 

Ráðgátan um hvaða staður þetta er í raun og veru heldur lesandanum við efnið allan tímann. Smátt og smátt fór ég leysa þessa ráðgátu, oft á undan hinum grunlausa Piranesi og skapaði það magnaða spennu. Ég var sérstaklega ánægður með úrlausnina sem var bæði óvænt og fullnægjandi, sem er ekki alltaf raunin í svipuðum sögum.

Piranesi er saga um einmanaleika, minningar og mörkin á milli raunveruleika og ímyndunar. Þetta er dularfull perla sem skilur eftir sig söknuð eftir Húsinu og hinum góðhjartaða íbúa þess.