Fara í efni
Menning

Svaðilför „stráksins“ í Harmi englanna

AF BÓKUM – 49

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _

Harmur englanna

Þríleikurinn Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins eftir Jón Kalmann Stefánsson er oft nefndur sem eitt af meistaraverkum íslenskra bókmennta. Hann varð til dæmis í 12. sæti í kosningu Kiljunnar um íslensk öndvegisrit. Mig langar samt að mæla sérstaklega með miðjubókinni, Harmi englanna. Þar sem sagan endar í raun ekki fyrr en í Hjarta mannsins þá held ég að ég sé ekki að gefa of mikið upp um söguþráðinn þó ég fari hérna aðeins yfir miðhlutann.

Harmur englanna hefst á því að aðalpersónan, „strákurinn“, lifir hamingjusamur til æviloka, eftir hrakfarir fyrstu bókarinnar. Eða það virðist allt stefna í það. En þá hefst svaðilförin. Ein ástæða þess að ég tek þessa bók fyrir staka er sú að það er gaman að máta svaðilför aðalpersónunnar við það sem er kallað hetjuför í fantasíubókmenntunum, en fantasíur eru tegund bókmennta sem ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir. Strákurinn fær kallið, er tregur til að fara, en fer samt af stað með læriföður sínum og leiðbeinanda. Á leiðinni er hann prófaður, hann hittir bandamenn, lendir í þolraunum og þiggur yfirnáttúrulega aðstoð. Samkvæmt formúlunni ætti hann svo að finna það sem hann leitaði að og snúa aftur, en í þessari bók er staldrað svolítið við þolraunirnar, sem ágerast og versna þar til bókinni loks lýkur. Það fannst mér mjög skemmtilegur snúningur á klassískri formúlu.

Bókin er samt ekki bara eintómar hörmungar. Strákurinn er bókhneigður og á hann í skemmtilegum samræðum um heimspeki Kierkegaard. Mér fannst reyndar skemmtilegt hvernig atburðarásin er líka að hluta til bara umbúðir utan um heimspekilegar vangaveltur höfundar um m.a. líf, dauða, skáldskaparlistina, karlmennsku og ótta. Mig langar að lokum að nefna ansi góðar samræður ferðalanganna við bónda sem býr á afskekktum bæ og ég tók sérstaklega til mín: „Það hlýtur að vera erfitt stundum, fjandinn hafi það, að frétta ekki neitt í tíu mánuði. Geta ekki fylgst með!“. „Hverju ættum við að fylgjast með? [...] Hvernig hjálpa fjarlægar fréttir manninum?“