Fara í efni
Pistlar

Sannur vinur

Þau voru þung sporin þegar ég gekk í átt að Barnaskóla Akureyrar haustið 1970. Þetta var minn fyrsti skóladagur. Fram að þessum degi hafði ég búið í öruggu skjóli ömmu minnar. Amma vissi að ég var hræddur við allt og þess vegna var hún mér það skjól sem ég þurfti. En nú naut ömmu ekki við, í skólanum þurfti ég að bjarga mér sjálfur.

Næstum lamaður af skelfingu gekk ég inn í skólastofu númer átta. Ég var síðastur inn í stofuna svo allir mínir nýju bekkjarfélagar voru búnir að fá sér sæti. Þetta var of mikið, ég var alveg að brotna saman, hefði sennilega hlaupið út ef að skelfingin hefði ekki haft þessi lamandi áhrif sem hún alltaf hafði. Þá heyrði ég rödd sem var óvenju djúp miðað við að koma úr hálsi sjö ára gamals drengs. „Mamma segir að þú eigir að sitja hjá mér,“ sagði drengurinn. Hann var dökkhærður og mun kraftalegri en aðrir drengir í bekknum. Hann klappaði á stólinn við hliðana á sér og skipaði mér að setjast. Ég hlýddi og hélt áfram að hlýða honum samviskusamlega næstu sex ár.

Seinna komst ég að því að mamma hafði þekkt sinn son og því haft samband við mömmu þessa drengs og beðið hana um að sjá til þess að ég fengi stuðning hans. Dökkhærði, kraftalegi drengurinn varð mitt skjól það sem eftir lifði skólagöngu okkur í Barnaskóla Akureyrar. Hann tók við því hlutverki af ömmu minni.

Eftir skóla sagði hann mér að fylgja sér heim. Hann bjó ekki svo langt frá mér en þar sem að ég hafði aldrei farið lengra en nokkra metra frá heimili mínu þá höfðu leiðir okkar aldrei legið saman. Hann bjó í húsi sem að stóð nánast niður á bryggju. Utan við húsið hittum við pabba hans. Hann var greinilega nýkominn úr veiðiferð og leit að mínu mati stórhættulega út. Þegar hann svo snéri sér snöggt að mér og ávarpaði mig þá leið ég næstum því út af. Það sem bjargaði mér var að út úr húsinu kom glæsileg kona. Það var móðir drengsins. Þeir feðgar breyttust strax þegar hún kom, það var greinilega að hún var sú sem réði. Það fyllti mig miklu öryggi. Sú tilfinning átti bara eftir að aukast eftir því sem árin liðu. Pabbanum vandist ég, hann var grófsnittaður og oft orðhvass en það var hlýja í augunum. Og drengurinn dýrkaði hann og það var mér mikilvægt.

Fljótlega flutti drengurinn og fjölskylda hans í hús sem var alveg við skólalóðina. Þetta var í mínum huga algjör höll. Þetta átti eftir að verða mitt annað heimili næstu sex árin. Í minni fjölskyldu voru íþróttir óþekkt fyrirbrigði. Drengurinn var mikill áhugamaður bæði um fótbolta en þó sérstaklega handbolta. Hvorugt hafði ég prófað áður. Hann sagði að ég ætti að vera markmaður og að sjálfsögðu hlýddi ég. Og nú hófust markmannsæfingar í kjallaranum á höllinni þar sem hann bjó. Markið var hurð á olíukompunni og þar þrumaði drengurinn á mig þúsundum skota. Mér fór fram í markvörslunni en honum fór þó enn meira fram í skotfiminni og varð fljótt yfirburðaleikmaður í handbolta.

Pabbi drengsins var þrátt fyrir oft svakalega framkomu mjög hlýr og góður maður. Á þessum árum höfðu menn það fyrir sið að detta hressilega í það og þá var brennivín drukkið eins og um keppni væri að ræða. Þetta gerði faðir drengsins reglulega og þurfti þá stundum að fá aðstoð lögreglu til að komast heim til sín þegar brennivínskeppninni lauk. Stundum gerðist þetta á skólatíma. Þá sáu allir í skólanum lögguna með föður drengsins og krakkar eru eins og krakkar eru. Enginn vogaði sér þó að segja stakt orð við drenginn, þegar kom að átökum þá var hann sér á báti. Þegar þessar heimkeyrslur löggunnar voru á skólatíma stillti ég mér alltaf upp við hlið vinar míns, það voru einu skiptin sem ég sýndi einhvern manndóm. Ekki það að hann þyrfti á stuðningi mínum að halda, hann var ekki í neinum vandræðum með að skora allan skólann á hólm ef að á þurfti að halda.

Það var drengurinn sem var ráðandi í samskiptum okkar, við vorum saman flestum stundum og hann fékk mig til að takast á við heiminn, hann sá um uppeldið. Það var stundum býsna hressilegt uppeldi, hann tók aldrei nei fyrir svar en hann var mitt skjól svo ég fylgdi með, sem betur fer. Í einu skiptin sem að hlutverkin snérust við var inn í skólastofunni. Ég var mun betri námsmaður en hann og þegar að prófum kom voru það mín svör sem voru notuð.

Þegar við vorum níu ára þá sinnaðist okkur eitthvað, svo mikið að ég kýldi hann á kjaftinn eins og það var kallað þá. Ég sá eftir því strax, mikið. Ég beið eftir að hann myndi berja mig til baka, fannst ég eiga það skilið. Hann var mun sterkari en ég svo ég beygði mig saman en höggið kom ekki. Hann sló ekki til baka, ég lærði þá að alvöru vinir slá ekki til baka.

Eftir barnaskóla skildu leiðir, við fórum í sinn hvorn skólann og þannig hélt lífið áfram. En í hvert skipti sem við hittumst þá var það alltaf sannkallaður vinafundur. Vinabönd sem maður bindur sem barn slitna ekki. Hann var líka sá sem hafði verið mitt skjól í gegnum barnaskóla, ég hefði ekki komist í gegnum þau ár án hans.

Þessi grein var í upphafi skrifuð sem minningargrein. Samskipti okkur síðustu ár höfðu bara verið í gegnum samskiptamiðla á netinu en þar hafði hann verið áberandi. Skyndilega hvarf hann þaðan svo ég óttaðist að hann væri látinn. Hann birtist svo skyndilega hér á Akureyri.net og skrifaði pistil undir nafnleynd, samt vissu allir hver hélt um pennann. Það gladdi mig innilega.

Ég ákvað þó að birta þessa minningargrein, það á þakka velgjörðarmönnum sínum þegar þeir eru lifandi. En nafnleyndina ætla ég að virða, vitandi þó að sú tilraun er álíka vonlaus og hans.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30