„Pabbi, strákunum finnst þú í góðu lagi!“

TÓNDÆMI – 24
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Hafliði Hallgrímsson, sem fæddist á Akureyri 1941, hefur lengi verið búsettur í Bretlandi. Hann hefur átt fjölbreyttan og viðburðaríkan feril, bæði sem sellóleikari og tónskáld og var til dæmis um árabil fyrsti sellóleikari Skosku kammersveitarinnar. Síðustu áratugi hefur hann nær alfarið sinnt tónsmíðum og hlotið fjölda viðurkenninga sem slíkur
Lék sóló á plötu Pink Floyd
Fjallað verður um sellóleikarann og tónskáldið Hafliða á þessum vettvangi síðar, en í dag rifjuð upp skemmtileg saga sem Hafliði sagði höfundi þessa greinarstúfs fyrir nokkrum árum.
Þannig var að Hafliði lék árið 1970 sellósóló á Atom Heart Mother, plötu bresku rokksveitarinnar Pink Floyd. Sólóið tekur eina mínútu og er við upphaf annars kafla verksins, Breast Milky. Þetta var á námsárum Hafliða í London og honum finnst ekki sérlega mikið til koma; segist hafa verið „alvarlega blankur“ á þessum tíma og sólóið ekki ýkja merkilegt. Óneitanlega er þó gaman að halda því til haga að Akureyringur hafi leikið inn á plötu með Pink Floyd, einni þekktustu rokkhljómsveit sögunnar!
Synir Hafliða, Andri og Sölvi, gengu í sama skóla sem smástrákar. Faðir þeirra segir drengina oft hafa verið ansa dapra vegna þess að skólabræðurnir gerðu sífellt grín að þeim fyrir að eiga pabba, sem spilaði klassíska músík. „Ég ákvað þess vegna að segja þeim frá viðskiftum mínum við Pink Floyd og þeir komu himinsælir heim úr skólanum daginn eftir. Sögðu við mig hróðugir: „Daddy, the boys were very surprised and think you are alright!“ – „Pabbi, þetta kom strákunum í opna skjöldu og þeim finnst þú í góðu lagi!“