Ótrúlega áhrifarík fjólublá klassík

AF BÓKUM – 43
Í dag skrifar Dagný Davíðsdóttir_ _ _
Nýlega las ég bókina Purpuraliturinn eftir Alice Walker, erlenda klassík sem kom úr árið 1982. Bókin fékk Pulitzer verðlaunin eftirsóttu, hún var gerð að bíómynd frá Steven Spielberg og seinna að vinsælum Broadway söngleik.
Bókin fjallar um hina ungu Celie og fólkið í kringum hana. Hún gerist á árunum 1909 til sirka 1947 í dreifbýli Georgia í Bandaríkjunum. Mér fannst bókin alveg ótrúlega áhrifarík og skemmtilega öðruvísi, en hver kafli er í raun Celie að biðja til guðs og segja honum allt sem er í gangi í lífi hennar. Celie byrjar að skrifa bréfin til guðs eftir að faðir hennar nauðgar henni og varar hana við að segja það engum nema guði. Bréfin eru heiðarleg en nístandi sár fyrir lesandann því líf hennar var allt annað en auðvelt. Þegar líður á bókina fáum við að heyra frá systur hennar sem er trúboði í Afríku og þá breytir hún bréfunum til guðs í bréf til systur sinnar. Við fylgjum Celie meðan hún elst upp, öðlast styrk og finnur sína eigin rödd. Það er erfitt að hugsa til þess hvað er í raun stutt síðan þær aðstæður sem Celie var í voru raunveruleiki fullt af fólki í Bandaríkjunum.
En afhverju fjólublár? Jú sagan er nefnilega einnig hinsegin saga þar sem Celie og söngkonan Shug Avery eiga í mjög persónulegu sambandi og sum vilja meina að þær hafi verið ástfangnar. Ég sjálf upplifði það svoleiðis líka, að þær ættu í ástarsambandi. Fjólublár hefur lengi verið tákn fyrir kynhlutleysi og hinsegin samfélagið.
Gaman frá því að segja að ástæða þess að ég ákvað að lesa bókina er sú að ég er mikill aðdáandi leik- og söngkonunnar Cynthia Erivo sem lék Celie í Broadway söngleiknum og hafði ég séð ýmis brot af henni að syngja lögin. Cynthia fékk Tony-, Emmy- og Grammy-verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Celie og er hún því bara einum Óskarsverðlaunum frá því að verða yngsta kona í heimi til að fa EGOT titilinn. Hún hefur tvisvar verið tilnefnd Óskarsverðlauna. En þetta var nú bara smá úturdúr. Ég mæli innilega með Purpuralitnum og hlakka til að horfa á kvikmyndina.