Fara í efni
Pistlar

Óskiljanlegur ótti

Ég er að verða sextugur sem þýðir að ég er að skríða inn á sjötugsaldur. Samkvæmt einhverri rannsókn verður maður miðaldra 35 ára og það tímabil stendur yfir þar til maður er 58 ára. Eftir það er maður gamall. En aldur er bara tala, það er hvernig maður hugsar sem skiptir öllu máli.

Margir kynbræður mínir virðast höndla það illa að vera kallaðir miðaldra, aumingja þeir þegar þeir verða 58 ára og miðaldra breytist í gamall. Ég taldi mig vera ónæman fyrir þessu, hef verið kallaður gamli síðan ég var um þrítugt af nemendum mínum í júdó. Tileinkaði mér frasann „Gamli er seigur“ sem ég notaði við hvert tækifæri þegar ég hafði betur gegn þeim yngri. Húðflúraði frasann svo á upphandlegginn svona til staðfestingar á því hversu svalur ég væri. En þegar ég var svo í ræktinni um daginn og ungur maður kom til mín og hafði orð á því hvað það væri ánægjulegt að sjá ellilífeyrisþega í ræktinni þá þótti mér það ekkert fyndið, bara alls ekki. Á því augnabliki missti ég kúlið.

En vegna starfa minna þá hafa táningar verið sá hópur sem ég hef umgengist mest. Það er sá hópur fólks sem margir miðaldra karlmenn óttast næstmest. En mér kemur vel saman við þennan hóp og þau láta mig ekki komast upp með að þykja leiðinlegir hlutir verða skemmtilegir, en það er mín viðmiðun á því að verða gamall. Það er þegar maður hlustar bara á þá tónlist sem maður hlustaði á þegar maður var ungur ef maður þá hlustar á tónlist yfir höfuð og þegar maður vill bara sitja og hlusta á jafnaldra sína rifja um gamla tíð í útvarpinu. Því allt var svo miklu betra hér áður fyrr, sem er reyndar kolrangt.

Það sem margir miðaldra menn óttast mest eru hugrakkar ungar stúlkur og konur sem þora að standa á skoðun sinni og berjast fyrir henni. Dæmi um þetta er hin sænska Greta Thunberg, hin pakistanska Malala og á Íslandi Sólveig Anna Jónsdóttir. Þökk sé öllu því unga fólki sem ég umgengst þá er ég sérstakur aðdáandi ungs fólks sem þorir að benda á villur minnar kynslóðar og þar er svo sannarlega af nógu að taka. Svo er ég sonur einstæðrar móður sem vann þrjú störf til að sjá fyrir mér og systrum mínum og lét sig ekki muna um að samtíðis berjast fyrir réttindum annarra. Þannig að þeir sem berjast fyrir réttindum fátækra einstæðra mæðra eru svo sannarlega í mínu liði. En margir kynbræður mínir virðast sjá allt það versta í þessum þremur sem ég nefndi hér að framan. Það er mér fullkomlega óskiljanlegt.

Fyrir nokkru síðan var ég staddur á Arlanda fluvellinum í Stokkhólmi ásamt fósturdóttir minni. Við sátum í þéttsetnum biðsalnum. Við hlið mér sat maður á mínum aldri. Ég var að skoða fréttir í símanum mínum og hafði staðnæmst við frétt um Gretu Thunberg. Maðurinn sá hvað ég var að skoða og þar sem við vorum á svipuðum aldri taldi hann allar líkur á því að ég deildi skoðunum með honum. Hann benti á símann minn og hafði orð á því að Greta væri nú meiri bullukollurinn. Ég leit á fósturdóttur mína sem þá hafði nýverið staðið fyrir skólaverkfalli í heimabæ okkar til að taka undir með Gretu Thunberg. Við glottum bæði og snérum okkar svo að sessunaut mínum.

Fimmtán mínútum síðan stóð hann upp, þakkaði okkur innilega fyrir að hafa opnað huga sinn, nú sæi hann hlutina í allt öðru ljósi. Ég held að hann hafi meint það, en kannski var hann bara að forða sér.

Og til ykkar kæru kynbræður á mínum aldri, hafi þessi skrif mín móðgað ykkur þá veit ég alveg hvernig ykkur líður því þannig leið mér í ræktinni þegar ég var kallaður ellilífeyrisþegi.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

OpenAI: Gervigreindarbyltingin á hraðferð – er kapp best með forsjá?

Magnús Smári Smárason skrifar
23. júlí 2024 | kl. 20:00

Er unga fólkið döngunarlaust?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
23. júlí 2024 | kl. 06:00

Þjóðvegir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. júlí 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Syðra-Gil

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:30

Skautun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:00

Fíflin á götum Akureyrar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
20. júlí 2024 | kl. 06:00