Fara í efni
Íþróttir

Ósigrandi í upphafi níunda áratugarins

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXIV

Keppni á 48. Andrésar andar leikunum á skíðum lýkur í Hlíðarfjalli í dag. Af því tilefni er upplagt að hleypa Nönnu Leifsdóttur, ókrýndri skíðadrottningu Íslands í upphafi níunda áratugarins, í þennan vinsæla dálk; gömlu íþróttamyndina, og frekar að bjóða upp á tvær myndir en eina!

Nanna sigraði bæði í svigi og stórsvigi þegar Andrésar andar leikarnir voru haldnir í fyrsta skipti, vorið 1976. Hún keppti þá í 12 ára flokki, sem var elsti hópurinn og var það í eina skiptið sem Nanna tók þátt. Faðir hennar, Leifur heitinn Tómasson, var einn stofnenda leikanna og í Andrésar andar nefndinni til fjölda ára.

Myndirnar eru báðar teknar á Skíðamóti Íslands 1982 þegar keppt var í Bláfjöllum. Þar varð Nanna þrefaldur Íslandsmeistari; sigraði með yfirburðum í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. Árið áður, þegar keppt var á Akureyri, varð Nanna Íslandsmeistari í stórsvigi og alpatvíkeppni, 1983 varð hún fjórfaldur Íslandsmeistari á Ísafirði – í svigi, stórsvigi, alpatvíkeppni og flokkasvigi – og 1984 vann hún þrefalt á Akureyri, varð Íslandsmeistari í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni.

Nanna keppti á Ólympíuleikunum í Sarajevo í Júgóslavíu árið 1984 þar sem hún varð í 38. sæti í stórsvigi en lauk ekki keppni í svigi. Leikarnir í Sarajevo voru sögulegir fyrir þær sakir að kona var þá í fyrsta skipti fánaberi Íslendinga á setningarathöfninni, einmitt okkar kona, Nanna Leifsdóttir.